Belle and Sebastian aðalnúmerið á ATP 2015

Skoska hljómsveitin Belle and Sebastian verður aðalnúmerið á fyrsta kvöldi tónlistarhátíðarinnar All Tomorrows Parties sem verður haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ 2. til 4. júlí á næsta ári. Hér er uppfjöllun okkar um hátíðina sem fram fór í ár.

Belle & Sebastian  valdi einmitt hljómsveitir á fyrstu ATP hátíðina sem haldin var, “The Bowlie Weekender” á Camber Sands, árið 1999.

“Við hlökkum ótrúlega mikið til að spila á ATP á Íslandi. Við höfum sterka tengingu við ATP og getum ekki beðið eftir að koma fram á ATP hátíð á einum af okkar eftirlætis stöðum. Við vorum yfir okkur hrifin af Camber Sands árið 1999 og Minehead árið 2010, þannig að það að fá að spila á Íslandi verður frábært. Það er rosalega langt síðan við spiluðum á Íslandi. Það verður æðislegt. Við getum ekki beðið!” – Richard Colburn, Belle & Sebastian 

Í dag hefst sérstakt tilboð á miðum sem kosta 60 evrur (85 evrur með rútu) fyrir passa á alla hátíðina, en þeir eru af afar skornum skammti. Er þetta gert svo erlendir gestir hafi meiri tíma til að bóka flug og gistingu en hefur verið. Þegar þessir miðar seljast upp verður svo boðið upp á tilboðsmiða á 90 evrur en venjulegt verð er svo 110 evrur. Hér má nálgast miða. Gistimöguleika og fleira verður tilkynnt um síðar.

Barry Hogan, stofnandi ATP segir: “Með hverju árinu stækkar hátíðin og við erum að vinna í að bóka frábærar hljómsveitir til að fylgja eftir Portishead og Nick Cave and the Bad Seeds. Belle and Sebastian eru nú fyrsta aðalhljómsveit dagskrár sem við lofum að verður spennandi þriðji kafli í sögu ATP á Íslandi.”


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *