Danny Brown gefur út titillag væntanlegrar plötu

 

Krúttbomban  Danny Brown kemur til með að senda frá sér sína þriðju breiðskífu Old um næstu mánaðarmót og hefur hann nú sent frá  sér titillag plötunnar „Side A (Old)“. Einnig hefur hann birt stutt  „teaser“ myndband fyrir plötuna sem ætti að láta hip-hop aðdáendur fá vatn í munninn.

Brjálað að gera hjá Beck

 

Beck Hansen situr ekki auðum höndum þessa dagana. Hann vinnur nú að tveimur breiðskífum auk þess hefur hann gefið út þrjár smáskífur sem ekki munu koma við sögu á væntanlegum plötum. Sú þriðja var að bætast í safnið og kallast „Gimme“. Lagið er nokkuð furðulegt, marg raddað og tilraunakennt með flóknum takti en sílófónninn stelur alveg senunni.

SBTRKT með nýtt lag

 

SBTRKT hefur nú tendrað í aðdáendum sínum með nýju lagi sem nefnist „IMO“. Nýtt efni ekki hefur ekki komið frá þeim bænum síðan sjálftitluð plata kom út árið 2011 en ekki er vitað hvort ný plata sé í bígerð. Lagið gerði SBTRKT í minningu bróður síns Daniel og var það Lorenzo Durantini sem bjó til sjónarspilið við lagið sem er „instrumental“ og ómasterað.

Lorde – “Team”

 

Þrátt fyrir að vera aðeins 16 ára gömul lítur út fyrir að hin ný sjálenska Lorde verði risa nafn  í poppheiminum áður en langt um líður. Stelpan gefur út frumburð sinn Pure Heroin þann 30. september og hefur hún nú sent frá sér sína þriðju smáskífu af plötunni. Lagið heitir „Team“ og er í takt við fyrra efni, flottur texti og ljúf melódía. Pure Heroin verður klárlega ein af athyglisverðari plötum ársins.

Daft Punk á Diskóteki

Skiptar skoðanir voru um ágæti Random Access Memories, nýjustu plötu Daft Punk, sem kom út í vor eftir mikla flugeldasýningu af auglýsingum og hæpi. Get Lucky varð þó stærsti smellur sumarsins en nú hefur fyrsta myndbandið af plötunni litið dagsins ljós, við lagið Loose Yourself To Dance. Það er að mati ritstjórn þessa vefs eitt sterkasta lag plötunnar og eins og í Get Lucky njóta vélmennin þar góðs af gítarleik Nile Rodgers og falsettusöng Pharrel Williams. Í myndbandinu er vísað grimmt í glamúrarfleið diskóteka eins og Studio 54 frá ofanverðum 8. áratugnum. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Nýtt lag með Chromeo

Dúnmjúki dansfönkdúettinn Chromeo var að senda frá sér fyrsta lagið af væntanlegri breiðskífu, White Woman, sem ekki er kominn endanlegur útgáfudagur á. Í laginu Over Your Shoulder er ekki að greina mikla stefnubreytingu hjá strákunum, þeir sækja eins og oft áður í léttfönkað fullorðinspopp frá níunda áratugnum. Síðasta plata dúettsins, Business Casual, kom út árið 2010. Hlustið á lagið hér fyrir neðan og horfið á auglýsingarstiklu fyrir breiðskífuna.

Fyrsta lagið af væntanlegri plötu Phantogram

 

Phantogram hafa ekki gefið út nýtt efni frá því EP-platan Nightlife kom út árið 2011 en síðan þá hefur bandið tekið þátt í samstörfum við ekki ólíkari listamenn en  The Flaming Lips og Big Boy. Dúettinn vinnur að sinni annari plötu þó ekki sé kominn staðfestur útgáfudagur. Fyrsta smáskífan til að heyrast af væntanlegri plötu er „Black Out Days“ og ber lagið nafn með rentu þar sem dimmir og drungalegir raftónar eru einkennandi.

Bleached til Íslands

Systrasveitin Bleached frá Los Angeles mun halda tónleika á Harlem Bar þann 17. október næstkomandi. Tónleikarnir hefjast kl. 22 og um upphitun  sér íslenska harðkjarnasveitin Muck. Bleached er ein heitasta jaðarsveit Los Angeles í dag og er skipuð systrunum Jennifer og Jessie Clavin. Hljómsveitin spilar hrátt og hátt rokk og ról. Hljómsveitin gaf nýverið út sína fyrstu breiðskífu, en hún nefnist Ride Your Heart. Platan hefur fengið góða meðal annars 4/5 í breska tónlistarritinu Mojo. Tónleikar þeirra eru þeir fyrstu í langri tónleikaferð þeirra um alla Evrópu.Miðasala er hafin á midi.is og í verslunum Brim, Laugavegi og Kringlunni. 


Tónleikar helgarinnar

 

Fimmtudagur 12. september

Two Step Horror & Rafsteinn spila á tónleikaröð Boston. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er frítt inn. 

Líkt og undanfarin ár verður Oktoberfest haldið á svæði Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. Fjöldi hljómsveita er nær 20 og er því um sannkallaða tónlistarveislu að ræða. Miðaverð er 5500 kr og fer miðasala fram á midi.is. Tjaldið opnar kl. 19:00:

Einar Lövdahl

Vök

1860

Snorri Helgason

Tilbury

Mammút

Dikta

Kaleo

– Lokar kl. 01:00 –

 

 

Föstudagur 13. september

Haldið verður kvöld með fersku rapp og skoppi með Orðljóti og Lord Pu$$whip á Glaumbar frá 22:00 og það er frítt inn.

 

Októberfest heldur áfram við Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. Tjaldið opnar kl. kl. 19:00 og 20:30 hefst búninga-, mottu- og drykkjukeppni

Mummi

Jón Jónsson

Úlfur Úlfur

Frikki Dór

Blaz Roca

Sindri BM

– Lokar kl. 03:00 –

 

Laugardagur 14. september

Mánaðarlegur reggae/dub/dancehall viðburður RVK Soundsystem verður haldinn á Bravó. RVK Soundsystem (Gnúsi Yones, DJ Elvar, DJ Kári, Arnljótur, Teitur, Kalli Youze) Frítt inn og fjörið hefst klukkan 23:00. 

 

Októberfest heldur áfram við Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. Tjaldið opnar kl. 21:00

Ojba Rasta

Sykur

FM-Belfast

– Lokar kl. 03:00