Airwaves yfirheyrslan – Sindri Sin Fang

Airwaves yfirheyrslan er nýr liður á síðunni til að kynna Iceland Airwaves hátíðina og nokkra af þeim íslensku listamönnum sem koma fram á hátíðinni í ár. Fyrstur til yfirheyrslu er Sindri Már Sigfússon sem flestir íslenskir tónlistaráhugamenn ættu að kannast við. Hann er forsprakki tveggja hljómsveita sem hafa spilað oft á Iceland Airwaves á síðustu árum – Seabear og Sin Fang en Sindri mun koma fram með þeirri seinni í Gamla Bió föstudaginn 2. nóvember klukkan 0:50. 

 

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

Ég held að það hafi verið 2001. man ekkert hvað ég sá.

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?


Það eru nokkrir.  Á seinustu árum var ég mjög hrifinn af Dirty Projectors og Haushka með samuli í fríkirkjunni var klikkað. Shins (2004) og Rapture (2002) tónleikarnir standa líka uppúr.

 

Hvernig var þín fyrsta upplifun af því að spila á Airwaves? 

2004 minnir mig áður en við gáfum út fyrstu seabear plötuna. Það var mjög skemmtilegt og kom skemmtilega á óvart hvað það mætti mikið af fólki. Hef spilað á 8 eða 9 hátíðum í það heila en þetta eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem ég hef spilað á.  Þetta var í fyrsta sinn sem við spiluðum með fullri hljómsveit og ég var bara mjög ánægður með að vera að spila yfirhöfuð.

 


Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Mér finnst hún vera orðin meira pro. Vel farið með mann og svona. Mér finnst þetta ein skemmtilegasta vika ársins.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Ég er mjög hrifinn af Iðnó. Mér fannst líka mjög gaman að spila á Nasa á Airwaves því að það var eiginlega eina skiptið sem maður gat fengið alveg fullt af fólki á Nasa. Svo er ég mjög ánægður með að óperan sé komin inní þetta. 

 


Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Vorum að spila á sama tíma og Beach House eitt árið, það var leiðinlegt að missa af þeim. Eitt árið þá fórum við á Bandaríkjatúr á fimmtudeginum þannig að við misstum af öllu festivalinu.

 

Hverju ertu spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? 

Við vorum að spila með Anna Von Hausswolff um daginn og það var rosalegt. Svo langar mig að sjá Goat, Jon Hopkins, Mariam The Believer og Mykki Blanco. Svo finnst mér fínt að labba bara um og sjá eitthvað sem ég hef ekki hugmynd um hvað er.

 


Hvaða beinu áhrif hefur hátíðin haft fyrir þig og þínar hljómsveitir? 

Hef alveg kynnst einhverju bransafólki í gegnum þessa hátíð og spilað á öðrum hátíðum eftir að einhver sá okkur þarna.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?


7-8 sinnum held ég. Ekkert miðað við Magga trommara (Magnús Tryggvason Eliassen  trommara Sin Fang)

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Yo La Tengo.

 

Listasafnið eða Harpa?
Bæði.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Bara skemmta sér og vera ekki að stressa sig of mikið á því að það séu einhverjir útlenskir blaðamenn í krádinu.

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *