Tónleikahelgin 21.-24. Mars

Þessa helgi eins og allar helgar er nóg að gerast í tónlistarlífi höfuðborgarinnar, það eina sem þarf er að leita eftir því. Straumur vonar að þessi samantekt geti orðið tónþyrstum sálum einhver hjálp í þeim efnum.

Fimmtudagur 21. mars

Heiladanskvöldin hafa um langt skeið hafið framsækna danstónlist til vegs og virðingar á Íslandi og í kvöld á Hemma og Valda munu koma fram Bistro Boy, Steve Sampling, Skurken og Bypass. Tónleikarnir hefjast klukkan 10 og aðgangur er ókeypis.

 

Á Volta verður hljóðgervlaþema en þar koma saman rauðskeggjaði 80’s dýrkandinn Berndsen og Housedívurnar í Sísí Ey. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það kostar 1000 krónur inn á herlegheitin.

Föstudagur 22. mars

Á stúdentakjallaranum verður slegið upp heljarinnar dansiballi en þar munu stíga á stokk diskóboltarnir í Boogie Trouble og þjóðlagapoppsveitin 1860. Að tónleikunum loknum munu kanilsnældur þeyta skífum eins lengi og lög um opnunartíma veitingastaða leyfa. Aðgangur er ókeypis.

 

Biggi Hilmars sem er þekktastur fyrir söng sinn með hljómsveitinni Ampop treður upp á Faktorý. Biggi gaf nýverið út sólóskífuna All we can be og verða lög leikin af henni og einnig frumsýnt nýtt myndband sem að myndlistarkonan María Kjartansdóttir gerði við lagið Fools af plötunni. Aðgangseyrir er 1500 krónur og tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 10.

Laugardagur 23. mars

Tónlistarveitan Gogoyoko efnir til tónleika í Stúdentakjallaranum en þar koma fram skóglápararnir í Oyama og tilraunapoppdúettinn Nolo. Oyama gáfu í janúar út EP-plötuna I Wanna og snéru nýverið heim úr afar vel heppnuðu tónleikaferðalagi í Noregi og Englandi þar sem þau léku m.a. á ByLarm hátíðinni í Olsó. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og tekið er fram að þeir hefjist afar stundvíslega klukkan 21:00.

 

Á Faktorý verður boðið upp á Reggíveislu en á efri hæð staðarins verða Ojba Rasta með tónleika klukkan klukkan 22:00 og í hliðarsal verða síðan plötusnúðar úr hópnum RVK Soundsystem sem þeyta skífum inn í nóttina. Á tónleikana með Ojba Rasta kostar þúsund krónur en enginn aðgangseyrir er að RVK Soundsystem kvöldinu í hliðarsalnum. Þá er vert að minnast á það að eistneskur gestasnúður, Tarrvi Laamann, mun vera RVK Soundsystem-liðum til halds og trausts en hann er meðlimur í plötusnúðahópnum Bashment KingzSound.

 

Boogie Trouble verða aftur á ferðinni á laugardagskvöldinu en í þetta skiptið munu þau hengja upp diskókúlu sína á rokkbarnum Dillon. Í tilkynningu frá sveitinni kemur fram að markmið hennar sé að færa Diskó inn á hvert heimili landsins og láta miskunnarleysi grúvsins hrista pöpulinn upp úr sófunum til að slengja skönkunum til í hrynþrunginni tilbeiðslu. Hvort þetta verður að veruleika á Dillon eða ekki látum við áhorfendur um að dæma. Þá kemur einnig fram að sveitin er um þessar mundir að vinna í upptökum á sinni fyrstu breiðskífu í samstarfi við Hermigervil.

Sunnudagur 24. mars

Nóra blása til útgáfutónleika í Iðnó í tilefni af útkomu annarrar breiðskífu sinnar, “Himinbrim”, sem kom út skömmu fyrir jól. Á tónleikunum verður öllu tjaldað til, og mun sveitin fá til liðs við sig strengjakvartett og slagverksleikara til að koma plötunni í heild sinni sem best til skila. Platan var tekin upp víða, m.a. í Orgelsmiðjunni og Sýrlandi og annaðist hljómsveitin sjálf upptökur á henni ásamt Magnúsi Öder. Hún hefur hlotið góðar viðtökur og lenti meðal annars á árslistum ýmissa tónlistarspekúlanta fyrir síðasta ár. Miðaverð er 1900 krónur og um upphitun sér tónlistarkonan Jara.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *