Tekknótryllingur, geimdiskó og kynfærameiðsli

 

Sónar var ýtt úr vör í gær og á sjötta aldursárinu en engan bilbug að sjá á hátíðinni. Harpan var full af útlendingum og flottum neonljósaskúlptúrum hafði verið plantað á víð og dreif til að auka á festivalstemmninguna.

 

Ég byrjaði föstudagskvöldið á móðurskipi íslenskrar danstónlistar, Gusgus. Það er ein af mínum allra uppáhalds íslensku hljómsveitum sem ég hef skrifað svo mikið um að ég er að renna út af myndlíkingum og lýsingarorðum til að nota um tónleikana þeirra. Ég hef ekki tölu á þeim Gusgus-tónleikum sem ég hef farið í meira en áratug og aldrei hefur mér leiðst. Daníel Ágúst og Biggi Veira lögðu mikla áherslu sína nýjustu plötu, Lies Are More Flexible, á tónleikum sínum í Silfurbergi, og léku fimm lög af henni. Þeir byrjuðu á „Featherlight“, fyrstu smáskífunni, sem að mínu mati er strax eftir sex mánaða tilveru komið í kanónuna af klassískum Gusguslögum, tímalaus raftónlist sem er aldrei út úr kú á dansgólfinu.

Dansinn hámarkaður

Stundum segir fólk að raftónlist flutt live sé bara einhver með Apple tölvu að ýta á play, það að vera satt í einstaka tilvikum en langt frá sannleikanum á tónleikum Gusgus. Þó þú sjáir kannski ekki beint hvað Biggi Veira er að gera á bakvið græjustæðuna sína þá heyrirðu það og finnur. Hann teygir á lögunum, leyfir hverju hljóði að fá sitt andrými, tvíkar þau til með uppbyggingum og taktsprengingum til að sníða þau að salnum og ná fram hámarksdansi. Hápunkturinn var þó „Add This Song“, í útgáfu sem ég hef ekki heyrt áður. Það var langt forspil áður en Daníel Ágúst hóp upp raustina og óvænt og groddaleg bassalína kom í kjölfar viðlagsins. Ljós og hljóð var til fyrirmyndar og Silfurberg er óðum að verða heimavöllur Gusgus á Íslandi.

 

Næst hélt ég yfir í Norðurljósasalinn til að sjá norska geimdiskógeggjarann Lindstrøm. Hann lék á als oddi í arpeggíum og sci-fi-laglínum sem flutu yfir salnum í sporbaug um eyrun mín. Ég hef verið aðdáandi hans lengi og missti nokkra líkamsvessa þegar hann tók sinn helsta „hittara“, lagið sem vakti fyrst athygli á honum, I Feel Space.

 Afmælisbarnið meiddi sig í typpinu

Næst á dagskrá var afmælisbarnið og Detroit-rapparinn Danny Brown sem var aðalnúmer kvöldsins hjá mér. Hann er einn mest spennandi rappari sem hefur komið fram undanfarin ár. Hann er með algjörlega einstaka rödd, ýlfrar og geltir út snjöllum myndlíkingum, skrýtnum sögum og klámfengnum húmor með hvellri hátíðnirödd yfir tilraunakenndum tryllingstöktum. Hann fór á mörgum kostum þetta kvöld og virtist gríðarlega ánægður í eigin skinni á sviðinu í Silfurbergi en hann varð 37 ára þennan dag, og auðvitað söng allur salurinn afmælissönginn fyrir þennan frábæra listamann.

 

Hann er performer á heimsmælikvarða og tætti af sér peysu, derhúfu, og skó eftir því sem leið á tónleikana, sem hann dúndraði jafnóðum út í salinn –einhvers konar öfug afmælisgjöf frá honum til þeirra heppnu áhorfenda sem náðu að grípa. Hann tók flest þau lög sem mig langaði til að heyra og allur salurinn tók undir í slögurum eins og „Dip“, „Grown Up“ og „Aint it Funny“.

 

Hann var stútfullur af sjarma og sviðsorku, hoppaði út um allt svið, fór í kolnhnís og snerist eins og skopparakringla, en í hamaganginum náði hann því miður einhvern veginn að meiða sig í kynfærunum, sem hann sagði ástæðu þess að hann hætti spila – sem var þú um það bil þegar hann átti að hætta samkvæmt áætlun. Ég vona innilega að hann jafni sig í typpinu sem fyrst, en hann getur allavega huggað sig við það hann heillaði heilan sal upp úr skónum við atganginn sem leiddi til meiðslanna.

A post shared by Óli Dóri (@olidori) on

Eftir Danny Brown var aðeins ein leið í stöðunni; Niður. Í bílakjallarann sem á Sónar breytist í alvöru berlínskan tekknóklúbb, þann eina sinnar tegundar á landinu. Þar dansaði fólk sig inn í nóttina við pumpandi ryþma bassatrommurnar á hverju slagi, þar sem taumlaus nautnahyggja réð ríkjum og fölskvalaus gleði skein úr hverju andliti.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Mynd: Facebooksíða Sónar

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *