Stórskotahríð á skilningarvitin á seinna kvöldi Sónar

Ég byrjaði seinna kvöldið á Sónar með tónleikum Sykurs í Norðurljósasalnum. Dúndrandi elektró-poppið sem pumpaðist út úr hljóðkerfinu kikkstartaði blóðrásinni í gang og útlimirnir byrjuðu ósjálfrátt að kippast til, stundum kallað að dansa. Agnes söngkona sveitarinnar er síðan náttúrafl út af fyrir sig og ein allra kraftmesta rödd og frontkona landsins. Hún er jafnvíg á söng og rapp og með sjarma og sviðsframkomu í gámavís. Það sem hún leggur svo í hárgreiðslu og föt er síðan listaverk út af fyrir sig. Það er meira skúlptúr heldur en outfit, í anda dívna eins Grace Jones og Lady Gaga. Þegar þau enduðu á Reykjavík og allur salurinn söng með og hoppaði í takt.

 Armageddon fyrir flogaveika

Næst á dagskrá voru gömlu tekknóbrýnin í Underworld. Þrátt fyrir að vera orðnir í kringum sextugt var engin ellimerki að sjá á sviðinu í Silfurbergi þetta kvöld. Það er ástæða fyrir því að þeir fylla fótboltaleikvanga af fólki, raftónlistin þeirra er kraftmikil, lífræn og full af orku. Sjóið þeirra er svo á einhverju allt öðru leveli. Þetta var eins og armageddon fyrir flogaveika, heimsstyrjöld háð með leysibyssum, snjóflóð af strobeljósum, sannkölluð stórskotahríð á skilningarvitum úr öllum áttum.

 

Það var erfitt að fylgja eftir Underworld en bresku rappynnjunni Nadiu Rosa fórst það mjög vel úr hendi. Hún hristi fram úr erminni hvern grime-bangerinn á fætur öðrum og fór svaðilförum á sviðinu í dansi, töffaratöktum og almennri útgeislun. Með henni í för voru þrjár hype-píur skástrik dansarar skátrik plötusnældur þannig það var allftaf hreyfing og flæði í atriðinu. Það var ungæðislegur kraftur sem flæddi í stríðum straumum um Norðurljósasalinn og orkan var áþreyfanleg í slögurum eins og Skwod.

 

Eftir Nadiu hélt ég aftur í Silfurberg að sjá Bjarka. Nafnið lætur ekki mikið yfir sér og hann er mun þekktari á heimsmælikvarða en heimavelli, er gefinn út af tekknótæfunni Ninu Kravitz og mjög alþjóðlega þekktur í þeirri kreðsu. Hann hefur undanfarið troðfyllt tónlistarhús, næturklúbba og hátíðarsvið um heim allan, þar á meðal tekknókirkjuna Berghain í Berlín. Þetta eru fyrstu stóru tónleikarnir hans á Íslandi og það var öllu til tjaldað.

Gúrkutekknó

Ef það væru gefin Eddu og/eða íslensku tónlistarverðlaun fyrir leikmynd á tónleikum þá ætti sá sem ber ábyrgðina á sviðnu hans Bjarka þau fyllilega skilið. Það voru þrjár gínur með sjónvarpsskjái í hausastað, reykur, leiserar og rúmlega tveggja metra hár maður í algalla sem væflaðist og ráfdansaði um sviðið. Annar maður í algalla tók myndbönd, kastaði gúrkum af sviðinu og hljóp hringi í kringum salinn. Tónlistin var grjótljónhart tekknó þar sem hver einasta bassatromma nísti inn að beini. Ég hafði bara hlustað á eitt lag með Bjarka áður en starði og hlustaði heillaður allan tímann. Þetta var besta atriði hátíðarinnar og skyldi mig eftir með öll skynfærin gapandi af lotningu.

 

Ég þurfti 15 mínútur af fersku lofti og sígarettureyk til að jafna mig eftir helgeggjunina sem var Bjarki, en síðan var Sónarferðalaginu haldið áfram niður í bílakjallarann þar sem Yamaho og Cassie spiluðu back to back sett. Það byggðist upp með stigmagnaðri sturlun og villtum dansi og setti fullkominn lokapunkt á hátíðina. Ég hlakka til á næsta ári.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *