Listamaðurinn sem áður kallaði sig Snoop Dogg gaf út nýtt lag af væntanlegri reggíplötu sinni í dag sem er í nokkurri andstöðu við boðskap bófarappsins sem hann er þekktastur fyrir. Lagið ber heitið No Guns Allowed og er pródúserað af Diplo, skartar gestaversi frá Drake og byggir á hljóðbút úr laginu Nantes með indísveitinni Beirut. Platan Reincarnated kemur út þann 23. apríl og hefur Snoop Dogg (áður þekktur sem Snoop Doggy Dogg) breytt listamannsnafni sínu í Snoop Lion í tilefni útgáfunnar. Þá var gerð heimildarmynd samnefnd plötunni um tilurð hennar sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum vestanhafs og vonandi skilar sér á Íslandsstrendur með tíð og tíma. Hægt er að hlusta á lagið No Guns Allowed hér fyrir neðan.