Fyrsti í Iceland Airwaves

Mynd: Florian Trykowski

Útvarp Airwaves. Klukkan er margt.

Davíð Roach Gunnarsson les fréttir:

Þó þetta sé 15. Iceland Airwaves hátíðin mín finn ég ennþá alltaf fyrir fiðringi í maganum á fyrsta degi. Bærinn fyllist af fólki og óræð spennuþrungin boð um yfirvofandi uppgötvanir þeysast um andrúmsloftið. Þannig leið mér þegar ég brunaði á hjólinu mínu gegnum bæinn eftir vinnu til að ná nýja rafpoppbandinu aYia í últra off off office-venue tónleikum á skrifstofu The Reykjavík Grapevine. aYia spila einhvers konar ofur nútímalegt trip hop, kinka kolli til FKA Twisgs og Kelelu en samt tilraunakenndari. Þau gera síðan mjög vel í að framreiða flókna elektróníkina á tónleikum með alls konar trommupödum, hljóðborðum og mixerum. Frábær byrjun á hátíðinni.

 

Níhílískt ljóðapönk

 

Næst sá ég annað spánýtt bandi sem heitir Hatari (fyrst hélt ég að það væri borið fram hatarí, en komst síðan að því að þetta er íslenskun á hater, þ.e. hatari). Þeir voru í einu orði sagt stórkostlegir á sviðinu í Iðnó og ólíkt öllu öðru í íslensku senunni. Þetta er nokkurs konar elektrópönk undir áhrifum frá slam-ljóðum og gjörningalist. Trommarinn spilar standandi á raftrommur með leðurgimp-grímu í andlitinu. Hinier tveir eru klæddir í eitthvað sem lítur út eins og nasista einkennisklæðnaður og annar þeirra syngur angurvært og spilar á gítar, en hinn ljóðarantar ómengaðan níhílisma. Textarnir eru kapítuli út af fyrir sig og ég var aftur og aftur dolfallinn af orðsnilldinni. Línur eins og „Saltinu úr grautnum er / er stráð, í sárin“ ómuðu í kollinum á mér löngu eftir að tónleikarnir voru búnir.

 

Næst á svið í Iðnó var Sigrún, sem áður hefur gert garðinn frægann með böndum eins og Orphic Oxtra. Hún framreiddi rosalega fríkí tilraunapopp með alls konar skrýtnum slaufum, óhljóðum, röddunum og kaflaskiptingum. Mjög áhugavert en það var dálítið erfitt að koma á eftir sprengju eins og Hatara, samanburðurinn verður aldrei sanngjarn.

 

Rafræn síkadelía

 

Þegar hér er komið við sögu er ekki hægt að komast hjá því að minnast á að fyrsta kvöld Airwaves var ansi rakt, og þá er ég ekki bara að tala um áfengisinntöku. Það er mjög hlýtt miðað við nóvember og stanslaus útlandarigning, það mikil að ég er alvarlega að íhuga að festa kaup á regnhlíf þar sem þegar þetta er ritað er ekki ennþá hætt að rigna. En út í þessa rigningu fór ég samt til að sjá Gunnar Jónsson Collider á Húrra. Hann byrjaði einn með tölvu og gítar og spilað ambíent í anda Boards Of Canada. Síðan bætust við trommu-, bassa- og hljómborðsleikari og helltu sér út í helsíkadelískt rokk sem blastaði skynfærin. Þvínæst fóru þeir út í rafindírokk sem minnti mig talsvert á Radiohead. Allt í allt, mjög gott stöff.

 

Eftir þetta þurfti ég því miður frá að hverfa þar sem ég er þræll í kapítalísku hagkerfi og þurfti að mæta snemma til vinnu í morgun. En fylgist með næstu daga því Straumur heldur áfram að segja daglegar fréttir af hátíðinni.

Erlent á Airwaves: Straumur mælir með

Nú þegar Iceland Airwaves hátíðin er að bresta á þá höldum við í hefðina og deilum með ykkur þeim erlendu listamönnum sem eru í mestu uppáhaldi hjá Straumi. Fylgist svo vel með næstu daga því eins og undanfarin ár verður Straumur með daglegar fréttir um það sem hæst ber á hátíðinni.

Let’s Eat Grandma

Tvær breskar stelpur sem gera hægt og seigfljótandi rafpopp með bjöguðum röddum sem eru í senn barnalegar og draugalegar.

 

Digable Planets

Áttu eina uppáhalds plötu fyrstu íslensku hip hop kynslóðarinnar sem er reglulega uppgötvuð af þeim sem á eftir komu. Mjúk eins og silki, djössuð eins og Dizzie og spikfeit af andblásinni þekkingu.

 

The Internet

Nútíma R’n’B innblásið af sálartónlist framtíðarinnar. Seiðandi draugur sem smýgur undan rúminu þínu til að ríða þér milli svefns og vöku.

 

Santigold

Ein skærasta stjarna heimstónlistarpoppsins og sem slík hefur hún ekki klikkað ennþá. Ekki alveg jafn beitt og M.I.A. en bætir það upp með exótískum aðgengileika.

 

Frankie Cosmos

Bandaríska söngvara/lagahöfundar pían Frankie Cosmos lítur bæði til fortíðar og framtíðar í undur hugvitssömum lagasmíðum, áhyggjulausum söng og textum sem kinka kolli í áttina að tregablandinni sjálfsmeðvitund.

 

The Sonics

Bandið sem fann upp bílskúrsrokkið. Jafn sækó og þeir eru gamlir.

 

PJ Harvey

Indídrottningin sem hristi upp í Englandi svo það er ekki ennþá samt. Við sáum hana á Primavera í sumar og hún hefur engu gleymt. Klassík en ekki klisja. Sjáið hana.

 

Julia Holter

Kanadísk söngkona sem galdrar fram undurfallegt tilraunapopp með rafrænni áferð þar sem ímyndunaraflið er í aðalhlutverki.

 

Warpaint

Desemberdimmt draumapopp framreitt af fjórum konum frá Los Angeles af fádæma listfengi.

Straumur off-venue í Bíó Paradís

Straumur verður með öfluga off-venue dagskrá í samstarfi við Bíó Paradís yfir Iceland Airwaves. Tónleikarnir sem fara fram í Bíó Paradís og hefjast á slaginu 13:00 miðvikudaginn 2. nóvember. Meðal þeirra sem spila eru Frankie Cosmos (US), Beliefs (CA), Skrattar, Snorri Helgason og Just Another Snake Cult.

 

Dagskrána má sjá hér fyrir neðan:

 

 

Miðvikudagur: 2. nóvember

13:00 Svavar Knútur

14:00 Birth Ctrl

15:00 Andy Svarthol

16:00 Andi

17:00 Stafrænn Hákon 

18:00 Rythmatik

Fimmtudagur 3. nóvember

13:00 Skrattar

14:00 Mikael Lind

15:00 Ragnar Ólafs

16:00 Wesen 

17:00 Beliefs (CA)

18:00 Frankie Cosmos (US)

Föstudagur 4. nóvember

13:00 VAR

14:00 Just Another Snake Cult

15:00 Snorri Helgason

16:00 Jón Þór

17:00 Suð

18:00 Kiriyama Family

Laugardagur 5. nóvember

14:00 Sveinn Guðmundsson

15:00  Vil

16:00  Par-Ðar

17:00  Puffin Island

Straumur 31. október 2016 – seinni Airwaves þáttur

Í Straumi í kvöld verður haldið áfram að fara yfir það helsta á Iceland Airwaves í ár.  Airwaves Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

1) It’s Your Love – Hannah Lou Clark
2) Tipzy King – mugison
3) Minds (Ark Patrol remix) – Chinah
4) We Die – Kate Tempest
5) FUU (ft. Fever Dream) – Dream Wife
6) Frúin í Hamborg – Jón Þór
7) Moonshiner – Kevin Morby
8) Feel You – Julia Holter
9) Crazy About Me – Delores Haze
10) Dark Creedence – Nap Eyes
11) Ran Ran Run – Pavo Pavo
12) Bad Rockets – Fufanu
13) Australia – Conner Youngerblood
14) Thinking of You – Mabel
15) Girl (ft. Kaytranada – The Internet
16) Good Fortune – PJ Harvey

Jón Þór – Frúin í Hamborg (2mf021)

Íslenski tónlistarmaðurinn og lagahöfundurinn Jón Þór sem áður gerði garðinn frægan í hljómsveitum á borð við Isidor, Lödu Sport og Dynamo Fogmun mun senda frá sér stuttskífuna “Frúin í Hamborg” (2mf021) þann 10. nóvember 2016, undir merkjum skosk/pólsku plötuútgáfunnar Too Many Fireworks. Þessi fjögurra laga stuttskífa mun bæði verða fáanleg á 180g vínylplötu og í formi niðurhals og streymis á hinum helstu tónlistarveitum.

Á væntanlegri plötu er Jón Þór á heimaslóðum, í gítardrifnu og glymjandi indípoppi með viðlögum sem límast við heilabörkinn. Líkt og á frumraun Jóns Þórs leiða opinskáir íslenskir textar hlustandann á viðkvæmar slóðir.

Hægt er að streyma plötunni af soundcloud hér fyrir neðan:

Straumur 24. október 2016 – fyrri Airwaves þáttur

Í Straumi næstu tvö mánudagskvöld munum við fara yfir það helsta á Iceland Airwaves í ár.  Airwaves Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

1) Psycho – The Sonics
2) Disparate Youth – Santigold
3) Big Boss Big Time Business – Santigold
4) Jus’ a Rascal – Dizzee Rascal
5) Birthday Song – Frankie Cosmos
6) Sinister – Frankie Cosmos
7) Sax In The city – Let’s Eat Grandma
8) 1992 – Beliefs
9) Suburban Suicide (demo) – Birth Ctrl
10) Rebirth Of Slick (Cool like dat) – Digable Planets
11) Whiteout – Warpaint
12) Billie Holiday – Warpaint

 

 

Tónleikahelgin 14.-15. október

 

Föstudagur 14. október

 

Hin virta bandaríska indísveit Jeff The Brotherhood spilar á Húrra. Tónlist Jeff the Brotherhood mætti lýsa sem blöndu af bílskúrsrokki, sýrurokki, pönki og indie poppi og hafa þeir gefið út fimm stórar plötur sem hlotið hafa mikið lof gagnrýnenda. Tónleikarnir byrja 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur á tix.is eða við hurð.

 

Laugardagur 15. október

 

FM Belfast og Kött Grá Pje sameina krafta sína á Húrra. Tónleikarnir byrja 21:00 og miðaverð er 2500 krónur.

 

Hljómsveitin Rythmatík heldur útgáfutónleika á Loft Hostel. Þeir hefjast 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Þungarokkssveitin Skálmöld spilar tvo tónleika á Gauknum, þeir fyrri eru klukkan 17:00 og þeir seinni 22:00. Uppselt er í forsölu en eitthvað af miðum verður selt við hurð, miðaverð er 2000 krónur á fyrri tónleikana en 3900 á þá síðari.

JEFF the Brotherhood spilar á Húrra 14. október

Bandaríska hljómsveitin JEFF the Brotherhood spilar á skemmtistaðnum Húrra föstudaginn 14. október. Sveitin sem hefur verið starfandi frá árinu 2001 samanstendur af bræðrunum Jake og Jamin Orrall frá Nashville í Tennessee. Jamin er fyrrverandi meðlimur í hljómsveitinni Be Your Own Pet sem gerði garðinn frægan um miðjan síðasta áratug og bræðurnir eru synir tónlistarmannsins Robert Ellis Orrall sem á seinni árum hefur verið þekktastur fyrir að semja lög og vinna plötur fyrir Taylor Swift og Lindsay Lohan.

Tónlist Jeff the Brotherhood mætti lýsa sem blöndu af bílskúrsrokki, sýrurokki, pönki og indie poppi og hafa þeir gefið út fimm stórar plötur, en sú síðasta kom út núna í haust og nefnist Zone. Þar að auki gaf sveitin út tónleikaplötu hjá plötufyrirtæki Jack White – Third man Records árið 2011 sem nefnist einfaldlega Live at Third Man. Flestar plötur þeirra hafa fengið góða dóma gagnrýnenda.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 föstudaginn 14. október og ætti enginn tónlistaráhugamaður að láta þá fram hjá sér fara en það kostar aðeins 2000 kr inn á þá og hægt er að kaupa miða hér.

 

Straumur 10. október 2016

Í Straumi í kvöld verður fjallað um nýtt efni frá Amber Coffman, Pond, Blank Banshee, Julian Civilian, D∆WN og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977.

1) Boo Hoo (Cole M.G.N remix) – Nite Jewel
2) White Ferrari (Jacques Greene) – Frank Ocean
3) All To Myself – Amber Coffman
4) Sweep Me Off My Feet – Pond
5) Slow D’s – Lully
6) Renegades – D∆WN
7) Engar Myndir – Smjörvi
8) Ecco Chamber – Blank Banshee
9) Juno – Blank Banshee
10) Eating Hooks (Siriusmo Remix / Solomun Edit) – Moderat
11) Go (Animal Collective/Deakin remix) – M83
12) Oddaflug – Julian Civilian

Berndsen – Shaping The Grey

Tónlistarmaðurinn Davíð Berndsen sendi í dag frá sér myndband við nýtt lag að nafninu Shaping The Grey. Með honum í laginu eru þau Elín Ey og Högn Egilsson en það verður að finna á plötunni Alter Ego… sem er væntanleg. Í myndbandinu má sjá þau Davíð Berndsen og Elínu Ey keyra um landið á Porsche bifreið.