Airwaves – Laugardagskvöld + PJ Harvey

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

 

Ég tók daginn snemma á laugardaginn til að sjá dönsku sveitina Let’s Eat Grandma á Kex Hostel. Hún samanstendur af tveimur kornungum stelpum sem spilaði ansi hreint hressandi synþapopp sem vakti mig svo um munar. Ég sá svo aftur Sæk-rokkarana í Par-Ðar á off-venue dagskrá Straums í Bíó Paradís og þeir stóðu sig jafn vel og síðast. Sérstaklega er gaman að sjá þá koma alltaf fram með eldgamalt timburorgel, menn sem nenna að róta þannig á milli eru sko alls ekkert að grínast.

 

Fyndið en ekkert grín

 

Talandi um grín, þá hélt ég fyrst að Krakk og Spagettí væri einhvers konar grínband. Hafði heyrt nafnið lengi út undan mér en aldrei tékkað á þeim. Tvær stelpur að rappa og kvenlegur strákur á mixernum rifu gjörsamlega þakið af Bar Ananas. Þó textarnir hafi á köflum verið mjög fyndnir þá eru þau sannarlega ekkert grín. Stelpurnar röppuðu af færni og feiknakrafti um kapitalískt vændi, íslenska sumarið, Lagarfljótsorminn, frjálsar geirvörtur og fresca – svo fátt eitt sé nefnt. Bítin voru fjölbreytt og frumleg, viðlögin grípandi og sviðsframkoman fyrsta flokks.

 

Ég náði svo nokkrum lögum með rapparanum Mælgin sem var í miklu stuði á Húrra og hafði frábært live band með sér. Ég hafði verið kynntur fyrir bandinu The Internet stuttu fyrir hátíðina og verið mjög hrifinn af plötu þeirra Ego Death þannig ég var mættur spenntur að sjá þau í Vodafone höllina. Þau stóðust allar væntingar og meira til. Frontkonan kallar sig Syd The Kid og er meðlimur í Odd Future genginu og með frábæri rödd og rokkar mjög töff kynlaust lúkk.

 

Engri nótu ofaukið

 

En The Internet er ekki eins og flest nútíma R’n’B; söngvari og nokkrir mismunandi pródúsantar og svo kannski splæst í örfáa sessjon leikara fyrir tónleikaferðir. Þau eru alvöru band þar sem hljóðfæraleikararnir eru partur af lagasmíðaferlinu og það heyrðist á grúvinu í Valsheimilinu þar sem ekki var einni nótu ofaukið. Þó fóru áreynslulaust úr hörðu fönki yfir í mjúka sálartónlist og tóku meira að segja ábreiðu af laginu Prototype eftir Andre 3000 úr Outkast. Mögulega besta giggið sem ég sá á hátíðinni.

 

Þá voru það Digable Planets næst sem eiga á ferilskránni eina mína allra uppáhalds hip hop plötu, Reachin’ (a new refutation of tima and space). Það er kannski afleiðing af gígantískum væntinum en ég varð fyrir nettum vonbrigðum með Digable. Þau hefði líklega notið sín betur á aðeins minna og persónulega venue-i. Stundum vantaði smá kraft og ég hefði verið til í að heyra fleiri lög af Reachin’, en þegar best lét var þetta þó fáránlega djasstöffað grúv og rappararnir náttúrulega í heimsklassa. Þá var það bara að fara á Fm Belfast í smá stund og loka svo kvöldinu með kraftelektrópoppinu hjá Sykur. Þrátt fyrir að það væri langt liðið á kvöld var enginn þreyttur, hvorki á sviðinu né í áhorfendasalnum, og allir fóru dansandi inn í nóttina.

 

Gott band – lélegt loft

 

Ég er ekki brjálað PJ Harvey fanboy en hlustaði þó talsvert mikið á plötuna Let England Shake sem kom út fyrir nokkrum árum síðan. Hún kom fram í Valshöllinni á sunnudagskvöldinu með risastóru bandi og lúðrasveitafíling í trommum og brassi. Bandið stóð algjörlega fyrir sínu en loftræstingin í íþróttahöllinni síður, ég þurfti nánast frá að hverf á köflum til að anda að mér fersku lofti.

 

Þessi Airwaves hátíð var þrusustuðfengin og nokkrir hápunktar fyrir mig voru til dæmis The Internet, Kiasmos, Hatari, Frankie Cosmos og Krakk og Spagettí.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *