Íslensk-kanadískur hrærigrautur á Faktorý

Tónleikahaldararnir Oki Doki sjá um íslensk-kanadíska risahrærigrautstónleika sem fram fara á Faktorý í kvöld. Viðburðurinn hefur fengið nafnið Sonic Waves og fram koma Prins Póló og Benni Hemm Hemm ásamt kanadísku tónlistarmönnunum Woodpigeon, Clinton St. John, Samantha Savage Smith og Laura Leif.

Tónlistarmennirnir vinna um þessar mundir saman að umfangsmiklu verkefni, þar sem þeir leika á tónleikum á Íslandi og í Kanada. Tónleikarnir verða með óhefðbundnu sniði þar sem allir munu bæði koma fram með eigið efni sem og saman í einum hrærigraut. Miðaverð á tónleikana er 1000 kr og hefjast þeir á slaginu 22:00. Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Oki Doki tóku á æfingu hjá tónlistarmönnunum á dögunum.