Panda Bear ræðir samstarf sitt við Daft Punk

Random Access Memories væntanleg plata Daft Punk kemur út 21. maí en hljómsveitin hefur verið dugleg við að kynda upp í aðdáendum sínum síðustu misseri með viðtölum við samstarfsaðila og fleira í þeim dúr. Nú hafa Daft Punk liðar sett á netið viðtal við Panda Bear öðru nafni Noah Lennox úr hljómsveitinni Animal Collective.

 

Hlustið á Get Lucky með Daft Punk

Fyrsta smáskífan af nýjustu plötu Daft Punk var loksins að detta á netið í nótt. Lagið Get Lucky er dúnmjúkur diskófönksmellur sem skartar Nile Rodgers á gítar og Pharrel Williams sér um sönginn. Rúmlega ein mínúta af laginu var spiluð í auglýsingu  í SNL þættinum síðasta laugardag og alla vikuna hafa falskar útgáfur af laginu sprottið upp eins og gorkúlur út um allt alnetið. En hér er það loksins komið í allri sinni dýrð. Breiðskífan Random Access Memories kemur út þann 21. maí og er beðið með mikilli eftirvæntingu. Hlustið á Get Lucky hér fyrir neðan og horfið á viðtöl við Nile Rodgers og Pharrel Williams um samstarf þeirra við vélmennadúettinn.


Frumflytja plötuna á landbúnaðarhátíð í Ástralíu

Nú hefur verið staðfest að væntanleg Daft Punk plata, Random Access Memories, verði frumflutt í heild sinni þann 17. maí á landbúnaðarhátíð í smábænum Wee Waa í Ástralíu. Platan verður spiluð af playbakki í heild sinni af sérsmíðuðu sviði og einungis 4000 þúsund miðar eru í boði á hátíðina, en ókeypis aðgangur er fyrir íbúa Wee Waa sveitarfélagsins. Á hátíðinni verða einnig í boði hefðbundnari skemmtiatriði eins og hundahástökk, trúðahópur, músakapphlaup og flugeldasýning. Wee Waa er 2100 manna bær í um 8 klukkustunda fjarlægð frá Sidney og hefur verið nefndur bómullarhöfuðborg Ástralíu. Random Access Memories kemur út 21. maí en fyrir neðan má horfa á viðtöl við Giorgio Moroder og Todd Edwards um aðkomu þeirra að plötunni.

Casablancas og Pharrel Williams á nýju Daft Punk?

Nýja Daft Punk platan sem allir diskóboltar og danstónlistarnerðir heimsins bíða eftir eins og endurkomu krists kemur út 21. maí en í dag bárust fregnir af öllum tónlistarmönnum sem leika gestahlutverk á henni. Áður hefur verið sagt frá því að Nile Rodgers og Giorgio Moroder hafi komið að gerð hennar en í dag upplýsti franska vefsíðan konbini.com að Julian Casablancas, söngvari Strokes, syngi í einu lagi og Pharrel Williams í tveimur. Þar kemur einnig fram að Noah Lennox úr Animal Collective syngi eitt lag og gamla House-kempan Todd Edwards, sem einnig söng á Discovery, annað. Þetta hefur þó ekki verið opinberlega staðfest af Daft Punk-liðum en upplýsingarnar koma þó heim og saman við það sem áður hefur komið fram um plötuna. Ef þetta er rétt er svo sannarlega enn meiri ástæða til að vera spenntur, fréttaritari straums er alla vega við það að pissa á sig. Fyrir neðan má skoða allan gestalistann á plötunni sem að kombini sagði frá en titlar laganna eru enn á huldu.

1 – Nile Rodgers (Guitar), Paul Jackson Jr. (Guitar) – 4:34
2 – Instrumental – 5:21
3 – Giorgio Moroder (Synth) – 9:04
4 – Gonzales (Piano) – 3:48
5 – Julian Casablancas (Vocals) – 5:37
6 – Loose yourself to dance – Nile Rodgers (Guitar), Pharrell Williams (Vocals) – 5:53
7 – Paul Williams (Vocals and Lyrics) – 8:18
8 – Nile Rodgers (Guitar), Pharrell Williams (Vocals) – 6:07
9 – Paul Williams (Lyrics) – 4:50
10 – Instrumental – 5:41
11 – Todd Edwards (Vocals) – 4:39
12 – Noah Benjamin Lennox (Panda Bear – Vocals) – 4:11
13 – Dj Falcon – 6:21

Viðtal við Giorgio Moroder um samstarf hans við Daft Punk

Nýju Daft Punk plötunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu og var um daginn settur útgáfudagur á gripinn, 21. maí. Þá var jafnframt tilkynnt um titilinn sem er Random Access Memories og umslag plötunnar. Nú hafa Daft Punk liðar sett á netið viðtal við upptökustjórann fræga Giorgio Moroder um samstarfið við þá á plötunni, hægt er að horfa á viðtalið hér fyrir neðan.

 

Daft Punk platan kemur út 21. Maí

Nýju Daft Punk plötunnar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu en nú hefur loksins verið settur útgáfudagur á gripinn, 21. maí. Þá var jafnframt tilkynnt um titilinn sem er Random Access Memories og umslag plötunnar má sjá í fréttamyndinni. Þá kemur fram að á plötunni eru 13 lög og hversu löng þau eru, en fyrir áhugasama má geta þess að lengsta lag hennar er níu mínútur og fjórar sekúndur en hið stysta rúmlega fjórar og hálf mínúta. Við upptökur skífunnar nutu þeir aðstoðar Nile Rodgers, Giorgio Moroder og Panda Bear en enn hefur ekkert lag af henni heyrst. Ef hljóðbúturinn sem fylgdi auglýsingu fyrir plötuna er lýsandi fyrir hana má þó ljóst vera að hún er ákveðið afturhvarf til hljómsins sem einkenndi sveitina á skífunni Discovery frá árinu 2002. Meðfylgjandi fyrir neðan er auglýsingin fyrir plötuna auk myndbands við lagið Digital Love af plötunni Discovery.

Uppfært 23. mars 2013: Önnur auglýsing með hljóðbúti frá Daft Punk var birt í síðasta þætti af Saturday Night Life skemmtiþættinum.  Hlustið hér fyrir neðan.


Dularfull auglýsing frá Daft Punk

Dularfull auglýsing frá frönsku róbótunum í Daft Punk var birt í síðasta þætti af Saturday Night Life skemmtiþættinum. Í auglýsingunni birtist lógó hljómsveitarinnar og að lokum mynd af dúettinum meðan mjúkt diskófönk ómar undir. Nýjustu plötu sveitarinnar er beðið með mikilli eftirvæntingu en hana unnu þeir meðal annars í samstarfi við Chic-liðann Nile Rodgers og Giorgio Moroder. Enginn útgáfudagur hefur verið settur á plötuna en Nile Rodgers skrifaði á vefsíðu sína fyrir stuttu að hún kæmi út á þessu ári. Hvort að auglýsingin sé fyrirboði plötunnar eða hvort vélmennatvíeykið sé bara að minna á sig veit enginn en áhugasamir geta rýnt í skilaboðin og lesið milli línanna hér að neðan. Heil níu ár eru síðan síðasta hljóðversplata sveitarinnar, Human After All, kom út þannig að aðdáendur eru orðnir nokkuð langeygir eftir framhaldinu.