Nú hefur verið staðfest að tónlistarhátíðin All Tomorrows Parties verði haldin á varnarliðssvæðinu í Reykjanesbæ þann 28. og 29. júní næstkomandi. Áður hefur komið fram að viðræður við aðstandendur hátíðarinnar stæðu yfir en samkvæmt heimildum Fréttablaðsins munu 6-7 erlendar sveitir koma fram, þar á meðal hljómsveitin Deerhoof. Í tilkynningu frá aðstandendum í dag kemur þó ekkert slíkt fram, aðeins að full dagskrá hátíðarinnar verði kynnt þann 16. þessa mánaðar eða eftir 2 vikur. Hátíðin var fyrst haldin árið 2000 í Bretlandi en hefur síðan fært út í kvíarnar undanfarin ár og meðal annars átt útibú á Spáni, Ástralíu, Japan og Bandaríkjunum og ávallt lagt áherslu á óháða og framsækna tónlistarmenn. Íslenska hátíðin mun fara fram í fyrrum herstöð Bandaríkjamanna, Ásbrú, en þar verða tvö svið þar sem hljómsveitir koma fram og eitt kvikmyndahús sem mun sýna tónlistartengdar myndir meðan á hátíðinni stendur. Nánari upplýsingar og miðasölu má finna á heimasíðu hátíðarinnar.