Tónleikahelgin 15.-17. maí

Fimmtudagur 15. maí

Trúbatrixan Elín Ey heldur uppi notalegri stemmningu á tónleikum á Loft Hostel. Aðgangur er ókeypis og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

 

Skúli mennski kemur fram með hljómsveit á hostelinu Hlemmur Square. Þau munu leika nokkra lauflétta blúsa í bland við tregafyllri tóna; lög um ástir og örvæntingu, vonir og þrár. Herlegheitin hefjast klukkan 20:00 og það er ókeypis inn.

 

Hljómsveitirnar VAR og Airelectric munu leiða saman hesta sína á Húrra (gamla Harlem). Gleðin hefst klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

Christoph Schiller heldur tónleika í Mengi við Óðinsgötu. Schiller er fæddur í Stuttgart árið 1963 og hefur haldið píanótónleika og spilað spunatónlist síðan 1987. Hin seinni ár hefur píanóið mátt víkja fyrir litlum sembal sem Christoph hefur þróað nýja tækni fyrir. Christoph hefur að auki unnið og lagt áherslur á verk fyrir raddir. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

The Dirty Deal Bluesband stígur á stokk á Dillon klukkan 22:00. Aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 16. maí

 

Hljómsveitirnar Mammút og Vio koma fram á ókeypis tónleikum á Húrra (gamla Harlem), en hljómsveitirnar eiga það sameiginlegt að hafa unnið Músíktilraunir; Mammút fyrir 10 árum og Vio í ár. Hljómleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 22:00.

 

Tékkneska hljómsveitin ILLE kemur fram í verslun 12 tóna á Skólavörðustíg.
ILLE hefur verið starfandi í nokkur misseri en í fyrra kom út fyrsta plata hljómsveitarinnar, Ve tvý skříni, og fékk hún frábæra dóma í tékknesku pressunni. Í framhaldi af því var ILLE tilnefnd til tékknesku Grammy verðlaunanna sem besta hljómsveitin og besti nýliðinn, auk þess sem Ve tvý skříni var tilnefnd sem plata ársins. Tónlist ILLE má lýsa sem draumkenndu dægurlagapoppi en tónleikarnir hefjast 17:30 og eru ókeypis og öllum opnir.

 

Mánaðarlegur reggae, dub og dancehall viðburður RVK Soundsystem verður haldinn á Paloma. Fögnuðurinn hefst upp úr miðnætti og stendur fram á nótt og það er ókeypis inn.

 

Hljómsveitin My bubba heldur útgáfutónleika fyrir plötuna Goes Abroader í Hannesarholti (Grundarstíg 10) en um upphitun sér Snorri Helgason. My bubba er skipuð hinni sænsku My og hinni íslensku Bubbu og var stofnuð fyrir 5 árum í Kaupmannahöfn þegar þær hittust fyrir helbera tilviljun. Þær hafa komið fram á Iceland Airwaves, Hróarskelduhátíðinni og hitað upp fyrir listamenn á borð við Matthew E. White og Nina Persson. Tónleikarnir hefjast kl. 20:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

 

Janel Leppin & Anthony Pirog eru rísandi stjörnur í tilraunatónlistargeira höfuðstaðs Bandaríkjanna en þeir munu koma fram á hljómleikum í Mengi. Anthony er fjölhæfur gítarleikari & Janel er klassískt menntaður sellóleikari sem hefur kafað sér ofan í klassíska persneska tónlist, spunatónlist og djass. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Laugardagur 17. maí

 

Það verður heljarinnar hip hop veisla á Húrra(gamla Harlem) en Cell7 kemur fram ásamt live bandi sem er skipað þeim Andra Ólafssyni, Magnúsi Trygvasyni Elissaen og Steingrími Teague. Blackfist mætir með nýtt efni beint frá Stockholm Sverige og Cheddy Carter er nýtt íslenskt hip-hop band sem inniheldur IMMO, Charlie Marlowe og pródúserinn Fonetik Simbol. Þá kemur goðsagnakennda rappsveitin Subterranean fram með upprunalegum meðlimum í fyrsta skipti síðan 1998. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og hægt er að kaupa miða hér.

 

Aðrir tónleikar með tilraunalistamönnunum Janel Leppin & Anthony Pirog verða í Mengi. Tónleikarnir hefjast eins og hinir fyrri klukkan 21:00 og aðgangeyrir er 2000 krónur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *