Sónarskoðun #1: Galsafullt geimdiskó og analog M-Band

Myndir: Aron Guðmundsson

Þriðja Sónarhátíðin í Reykjavík hófst með pompi og prakt í Hörpu í gær og fréttaritari Straums mætti galvaskur til að skrásetja stemmninguna. Ég rétt svo náði síðustu tónum Una Stefson þar sem hann söng af mikilli innlifun við tilkomumikla grafík sem varpað var á vegginn.

Unistefson

Þvínæst sá ég hús-tvíeykið Balsamic Boys á SonarPub sviðinu sem er staðsett á ganginum á efri hæð Hörpunnar. Þeir voru að spila lagið Rhodes Song þegar ég kom sem er mjög melódískur danssmellur sem minnir ansi mikið á slagarann Time með Pachanga Boys. Næsta lag sem þeir tóku var svo dúnmjúkt og silkislakt 90’s house grúv með heilum helling af saxafóni.

 

Stafræn bjögun á náttúrulegri fegurð

 

Sin Fang var í essinu sínu í Silfurbergi og tveir trommu- ásláttarleikarar hans börðu taktinn í indíkrádið af miklum móð. Hann nauð aðstoðar Jófríðar úr Samaris í nokkrum lögum og eins og alltaf hjá honum var sjónræna hliðin til fyrirmyndar, einhvers konar stafræn bjögun á náttúrulegri fegurð.

 

Dúettinn Mankan dútlaði í ýmsum tólum í Kaldalóni og hintuðu stundum að einhverju spennandi sem síðan aldrei kom, þetta var einum of stefnulaust og fálmkennt fyrir minn smekk. Drungalegur hljóðheimur Samaris naut sín hins vegar mjög vel í Silfurbergi og Jófríður söngkona fór á kostum.

samaris

M-Band er einn frjóasti raftónlistarmaður landsins og hann leggur líka frámuna mikinn metnað í tónleika sína sem var morgunljóst í Kaldalóni í gær. Hann býr til vegg af hljóðum og margfaldar og raddar eigin rödd með ótal effektum, en samt heyrir maður alltaf mennskuna undir niðri. Hann notast ekki við neina tölvu í sjóinu og þess vegna sér maður hann gera allt analog. Ég þurfti því miður frá að hverfa áður en tónleikarnir kláruðust til að fara á Todd Terje en langaði mjög að vera lengur.

 

Gleði og galsi

 

Þá var komið að stærsta númeri kvöldsins, hinum fúlskeggjaða norska prinsi geimdiskósins, Todd Terje. Hann dúndraði út flestum sínum helstu smellum af sviðinu í Silfurbergi og salurinn át þá úr höndum hans. Það var gleði og galsi í tónlistinni og honum og breið bros í öllum salnum. Það eina sem mætti setja út á var að það hefði verið gaman að sjá hljóðfæraleikara með honum og í byrjun var bassinn í hljóðkerfinu helst til yfirþyrmandi, vantaði aðeins tærari topp. En það lagaðist fljótlega meðan dansinn dunaði og svitinn flæddi. Frábær endir á fyrsta kvöldi Sónars sem var stórvel heppnað í alla staði. Topparnir fyrir mig voru þó Todd Terje og M-Band. Sjáumst í kvöld og fylgist með á næstu dögum með áframhaldandi umfjöllun Straums.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *