Danny Brown á Sónar Reykjavík 2018

Bandaríski rapparinn Danny Brown og hin upprennandi grime stjarna Nadia Rose frá London eru meðal þeirra sem staðfest eru að komi fram á Sónar Reykjavík hátíðinni í mars. Meðal innlendra listamanna sem nú eru kynntir til leiks er ein stærsta útflutningsvara íslenskrar tónlistar síðastliðið ár, Bjarki, sem fyrst kom fram í bílakjallara hátíðarinnar fyrir tveim árum og hefur síðan troðfyllt tónlistarhús og hátíðarsvið um heim allan. Hann kemur að þessu sinni fram á öðru af stóru sviðunum í Hörpu.

Aðstandendur hátíðarinnar eru sérstaklega stoltir yfir því að fá tónlistarkonuna Jlin, sem er að vekja gríðarlega athygli fyrir breiðskífuna Black Origami, til Íslands – og að hin eindæmum hæfileikaríka Eva808 muni loks stíga á stokk á tónlistarhátíð í heimalandi sínu. Koma tónlistarkonunnar og plötusnúðsins Lena Willikens á Sónar Reykjavík er einnig mikill fengur fyrir íslenska tónlistaráhangendur, sem og koma Bad Gyal sem oft hefur verið titluð spænska Rihanna. Ekki má heldur gleyma íslenska tónlistarmanninum Volruptus sem ekkert hefur komið fram hérlendis eftir að hann sprakk út í kjölfar útgáfna sinna hjá plötufyrirtækjunum bbbbbb og Trip.

Í kjölfar einstaklega vel heppnað samstarfs Exos og breska tónlistarmannsins Blawan á Sónar Reykjavík í fyrra (Exos b2b Blawan) hafa aðstanendur hátíðarinnar unnið að því því að halda áfram með viðlíka samstarfsgrundvöll innlendra og erlendra listamanna og plötusnúða. Í ár mun hin íslenska Yamaho og breska Cassy koma fram saman í bílakjallara Hörpu sem Yamaho b2b Cassy. Þá mun vinsælasta dúó landsins, JóiPé x Króli, hljómsveitin Vök og Högni, sem nýlega gaf út sína fyrstu sóló breiðskífu hjá Erased Tapes, einnig koma fram á Sónar Reykjavík 2018. Sannkölluð listahátíð framundan í Reykjavík.

Sónar Reykjavík fer fram í Hörpu dagana 16. og 17. mars 2018. Alls verður boðið upp á tónleika rúmlega 50 hjómsveita og listamanna á hátíðinni á fjórum sviðum, m.a. í sitjandi umhverfi Kaldalóns og bílakjallara hússins sem breytt verður í næturklúbb.

Listamenn sem nú eru kynntir til leiks eru:
Danny Brown (US)
Nadia Rose (UK)
Bjarki (IS)
Jlin (US)
Lena Willikens (DE)
Högni (IS)
Cassy b2b Yamaho (UK / IS)
Bad Gyal (ES)
Volruptus (IS)
JóiPé x Króli (IS)
Eva808 (IS)
Vök (IS)

Miðasala á hátíðina er hafin og fer fram á midi.is.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *