Topp 10 erlent á Secret Solstice

 

Secret Solstice hátíðin hefst á fimmtudaginn í Laugardalnum og þar er boðið upp á dekkað hlaðborð af erlendum og innlendum listamönnum á heimsmælikvarða í sínum geirum. Þetta er í fjórða skiptið sem hátíðin er haldin og Straumur hefur mætt á þær allar og haft feikilega gaman að eins og lesendur hafa tekið eftir. Þar sem hátíðin er alveg að skella á er ekki úr vegi að fara yfir það helsta í erlendu deildinni sem við erum spenntastir fyrir.

 

Anderson.Paak & The Free Nationals

Bandaríski rapparinn, söngvarinn og fönkhetjan Anderson.Paak er einn allra ferskasti hip hop listamaður sem komið hefur fram á undanförnum árum. Það sem gerir tónleikana sérstaklega spennandi er að Anderson.Paak kemur fram með live hljómsveit, The Free Nationals, sem ætti að gefa hörðustu grúvhundum helling fyrir sinn snúð.

 

Uknown Mortal Orchestra

UMO hafa á þremur plötum þróað einstaka hljóðmynd þar sem striginn er Rubber Soul/Revolver Bítlasíkadelía en pensla svo ofan í með djúpu fönki, hráum trommutöktum og dáleiðandi röddum. Við höfum séð þá live áður og þeir svíkja engann, síst af öllu sjöunda áratuginn.

 

Cymande

Breskir fönkfrumkvöðlar frá 8. áratugnum sem hrærðu saman R&B, sálartónlist og karabískum ryðmum. Eiga eitt besta fönklag allra tíma, Brothers on the Slide, og þó ekki nema bara þess vegna eiga þeir skilið virðingu og mætingu á tónleika.

 

Roots Manuva

Brautryðjandi og afi bresku rappsenunnar. Blandaði saman reggí og hip hoppi á máta sem enginn hefur leikið eftir. Rosaleg rödd og yfirgengilegt hreysti. Witness the Fitness:

 

The Black Madonna

Bandaríska plötusnældan og pródúsantinn The Black Madonna hristir saman ómóstæðilegan bræðing úr diskói, house-tónlist, fortíð og framtíð. Að sleppa því að dansa er taugakerfislegur ómöguleiki.

 

Prodigy

Þrátt fyrir ofspilun og það sé nokkuð langt síðan þeir voru relevant er ekki hægt að neita því að Prodigy er gríðarlega mikilvæg hljómsveit í sögu danstónlistarinnar. Á blómaskeiði þeirra um miðjan 10. áratuginn dældu þeir út slögurum sem voru akkúrat í hárréttum skurðpunkti hugmyndaauðgis, hörku og aðgengileika. Svo höfum við heyrt út undan okkar að þeir hafi engu gleymt á tónleikum.

 

Princess Nokia

New-York söngkonan Princess Nokia sækir áhrif úr öllum heimshornum, eimar úr þeim kjarnann, og skapar eitthvað algjörlega nýtt í feikilega framsæknu furðupoppi sínu.

 

Lane 8

Eiturhress house-bolti frá Bandaríkjunum sem dúndrar út bassatrommu á hverju slagi og hver einasta þeirra fer beint í mjaðmirnar.

 

 Rhye

Áreynslulaust og fagmannlega framreitt indípopp með heillandi hljóðheimi og seiðandi söng.

 

Soulclap

DJ-dúett sem er frægur fyrir sex klukkutíma maraþon-sett og hafa rímixað listamenn eins og Laid Back, Metronomy, Little Dragon, Robert Owens, DJ Harvey og sjálfan Chris Isaac.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *