Tónleikar helgarinnar

Nú sem aðrar helgar er straum.is með heildarsýn á tónleika helgarinnar sem að þessu sinni er í lengri kantinum útaf þjóðhátíðardegi Íslands.

Föstudagur 14. júní

Ensími aflýstu hljómleikum sínum á tónlistarhamförunum Keflavík Music Festival síðustu helgi og ætla þess vegna að halda sárabótartónleika í kvöld klukkan 17:30 í Hljóðfærahúsi Reykjavíkur í Síðumúla 20. Aðgangur er ókeypis og ekkert aldurstakmark.

Laugardagur 15. júní

Baráttutónleikar gegn niðurrifi tónleikastaðarins Nasa verða haldnir á Austurvelli klukkan 14:00. Listamennirnir sem koma fram eru: Ágústa Eva, Daníel Ágúst, Ellen Kristjáns, Högni Egilsson, Páll Óskar, Ragga Gísla, Raggi Bjarna og Valgeir Guðjónsson, Bryndís Halla Gylfadóttir, Eyþór Gunnarsson, Guðmundur Pétursson, Pétur Grétarsson, Róbert Þórhallsson og Sigrún Eðvaldsdóttir. Þá flytja Áshildur Haraldsdóttir frá Torfusamtökunum, Biggi Veira úr GusGus og Ragnar Kjartansson myndlistar- og tónlistarmaður ávörp.

Fyrsta árlega hjólreiðakeppni Kex Hostels og Kría Cycles hefst kl. 15. Stuttu áður mun Borgarstjóri vor, Jón Gnarr, vígja nýjan almenningsgarð í Vitahverfinu en garðurinn hefur fengið nafnið VItagarður. Eftir keppnina verður boðið upp á tónlist í garðinum þegar hljómsveitirnar Grísalappalísa og Bloodgroup koma þar fram.

Rafsveitin Bloodgroup slær upp hljómleikum á Faktorý. Sveitin sendi frá sér sína þriðju breiðskífu fyrr á þessu ári sem hefur fengið einróma lof gagnrýnenda. Tónleikarnir eru á efri hæð staðarins sem opnar klukkan 22:00 en tónleikarnir hefjast klukkutíma síðar og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Skúli mennski telur í blússandi blúsa, búgílög og nokkur vel valin aukalög ásamt Þungri byrði á Café Rosenberg. Hljómsveit skúla skipa Hjörtur Stephensen á gítar, Matthías Hemstock á trommur, Tómas Jónsson á rhodes-orgel, Valdimar Olgeirsson á bassa og Þorleifur Gaukur Davíðsson á munnhörpu. Aðgangseyrir er 1500 krónur.

Sunnudagur 16. júní

Ojba Rasta, Caterpillarmen, Babies og Love and Fog ætla sér að trylla allan þann lýð sem mætir á 30 ára afmælistónleika Rásar 2 og Gamla Gauksins sem fara fram á áðurnefndum Gauk. Aðgangseyrir er 1500 krónur, húsið opnar klukkan 22:00 og fyrir þá sem ekki eiga heimangengt verður þeim varpað út beint á Rás 2.

Artwork úr hinni virtu dubstep hljómsveit Magnetic Man þeytir skífum á Faktorý ásamt landsliði íslenskra plötusnúða, svo sem Ewok, Kára og Bensol. Aðgangur er ókeypis og dansinn byrjar að duna um miðnæturbil.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *