Tónleikar helgarinnar

Hér verður veitt heildarinnsýn inn í allt það markverðasta í tónleikahaldi á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Njótið á eigin ábyrgð og gangið greiðlega um gleðinnar dyr.

 

Fimmtudagur 3. október

Hljómsveitin Grísalappalísa mun stíga á stokk í verslunarkjarnanum Mjóddinni í Mjóddinni. Tónleikarnir eru hugsaðir sem menningarinnslag Grísalappalísu til Breiðholtsins en þeir hefjast klukkan 18:00 og aðgangur að þeim er ókeypis.

 

Fönkkvöld verður haldið á Gauk á Stöng en þar verður á boðstólum sálarfull angist frá Fox Train Safari, skaðræðisfönk frá helvíti í boði Óreglu og groovy goodness frá krökkunum í Babies, sem loka kvöldinu. Aðgangseyrir er 1000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

Föstudagur 4. október

Á undiröldunni, tónleikaröð Hörpu og 12 tóna, koma fram noise- og raffrumkvöðlarnir í Stilliuppsteypu og einyrkinn Rafsteinn. Aðgangur að tónleikunum er að venju ókeypis og þeir hefjast klukkan 17:30.

 

Plötusnúðatvíeykið It Is Magic kemur fram í hliðarsal Harlem en þeim til halds og traust verða strákarnir í Nolo. Fyrstu skífunni verður þeytt á slaginu 22:01 og dansinn mun duna eins lengi og lög um vínveitingar leyfa, eða til 04:30.

 

Kvikmyndin Days of Gray verður frumsýnd á RIFF kvikmyndahátíðinni í Gamla bíói á Ingólfsstræti. Myndin er þögul en hljómsveitin Hjaltalín samdi tónlist við hana og mun í þetta eina skipti flytja tónlistina live við myndina. Kvikmyndatónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og miðaverð er 2900 kr. en passahöfum á RIFF býðst miðinn á 2400.

Laugardagur 5. október

Á þessum degi eru 50 ár síðan Hljómar komu fram á sínu fyrsta balli og í tilefni þess er blásið til stórtónleika til heiðurs sveitarinnar í Eldborgarsal Hörpu. Tónlistarstjóri er Eyþór Gunnarsson en um söng sjá Stefán Hilmarsson, Valdimar Guðmundsson, Unnsteinn Manuel og Ágústa Eva Erlendsdóttir. Sérstakir gestir verða hinir upprunalegu Hljómar; Engilbert Jensen, Gunnar Þórðarson, Erlingur Björnsson ásamt syni Rúnars Júl, Júlíus Frey Guðmundssyni. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og miðaverð er frá 4990 til 10990 eftir sætum.

 

Jackass-æringinn Bam Margera býður í brúðkaupsveislu og tónleika til styrktar hjólabrettamenningu í Reykjavík. Veislan verður haldin í Hafnarhúsinu og fram koma Endless Dark, Kaleo, Emmsjé Gauti, SÍSÍ EY og Fuckface Unstoppable. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 3500 krónur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *