Tónleikahelgin 8.-11. janúar

Miðvikudagur 8. janúar

Hljómsveitirnar Oyama, Halleluwah og Hljómsveitt munu troða upp á nýja skemmtistaðnum Paloma sem er fyrir ofan Dubliners í Naustinni 1-3. Oyama hyggjast spila nýtt efni á tónleikunum en sveitin vinnur nú að sinni fyrstu breiðskífu. Halleluwah er verkefni Sölva Blöndal sem áður var í Quarashi en honum til halds og trausts er söngkonan Rakel Mjöll. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

Á Gamla Gauknum stíga sveitirnar Skerðing og While My City Burns á stokk. Aðgangur er ókeypis og leikar hefjast klukkan 21:00.

Fimmtudagur 9. janúar

Michael Anderson, betur þekktur undir listamansnafninu DREKKA, kemur fram á tónleikum á Dillon. DREKKA spilar draumkennda industrial tónlist sem mætti líkja við hljómsveitir á borð við Coil og The Shadow Ring. Á næstunni kemur út plata frá honum á DAIS útgáfunni (Iceage, Psychic TV, Cold Cave) sem tekin var upp á Íslandi. Honum til halds og trausts verða tónlistarmaðurinn Þórir Georg, Kælan Mikla og Börn. Tónleikarnir hefjast 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Það verður þungarokksveisla á Gamla Gauknum þar sem Blood Feud, Darknote og Wistaria munu þeyta flösu. Tónleikarnir hefjast upp úr 21:00 og ókeypis er inn.

Föstudagur 10. janúar

Reggístórsveitin Ojba Rast kemur fram á Gamla Gauknum en önnur breiðskífa sveitarinnar, Friður, kom út í vetur og hefur fengið feikna góðar viðtökur. Dyrnar opna 21:00, tónleikarnir byrja 22:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

Stuð- og gleðisveitin Babies kemur fram á hip hop staðnum Prikinu. Aðgangseyrir er ekki til staðar og fjörið hefst klukkan 22:00.

 

Tónskáldahópurinn S.L.Á.T.U.R. fagnar nýju ári með tónleikum í Mengi við Óðinsgötu 2. Þar verður flutt glæný tónlist fyrir klarinettur sem hafa verið undirbúnar sérstaklega, breyttar og endurhannaðar til að kalla fram nýjan hljóðblæ, nýjar stillingar og framlengja möguleika hljóðfærisins. Fjórir klarínettuleikarar munu flytja tónlistina en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Það verður metalveisla á Dillon og hljómsveitirnar Darknote og Jötunmóð koma fram. Aðgangseyrir er enginn og málmurinn byrjar að óma á slaginu 22:00.

Laugardagur 11. janúar

Skóglápsrokkararnir í Oyama verða aftur á ferðinni á laugardagskvöldinu, að þessu sinni í Gym & Tonik salnum á Kex Hostel. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Það verður bluegrass hátíð á Gamla Gauknum en þar kemur fram hljómsveitin Illgresi ásamt Hjalta Þorkelssyni (var í sveitinni Múgsefjun) og öðrum góðum gestum. Hljómleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

Hljómsveitirnar Fivebellies og Dýrðin stíga á stokk á Dillon. Lætin hefjast 22:00 og aðgangseyrir er ókeypis.

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *