Tónleikahelgin 5.-7. desember

Á þessari annarri helgi í aðventu er ýmislegt að gerast í tónleikahaldi á Höfuðborgarsvæðinu og hér verður farið yfir það helsta.

Fimmtudagur 5. desember

 

Caterpillarmen og MC Bjór & Bland blása til tónleika á Gauk á Stöng. Caterpillarmen hafa verið starfandi frá árinu 2009 og spila tilraunakennda progg tónlist sem einkennist af spilagleði og líflegri sviðsframkomu. Drengirnir segjast sækja áhrifavalda til apa en einnig hljómsveita á borð við King Crimson, Yes og Gentle Giant. MC Bjór er rappari sem hefur bruggað list sína neðanjarðar um nokkurt skeið en er nú loks að freyða upp á yfirborðið. MC Bjór sýður magnaða orðasúpu úr naglaspýtum íslenskunnar þar sem súrrealískur húmor og leikrænir tilburðir eru kryddaðir með vænum skammti af virðingaleysi fyrir öllum helstu gildum samfélagsins. Hljómsveitin Bland mun síðan elta orð Bjórsins uppi með funheitu fönki og almennum hrynhita. Leikar hefjast klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Texas Muffin og skerðing spila Dillon og gleðin hefst 22:00. Texas Muffin spila boogie rokk með blús ívafi og aðdáendur JJ Cale og ZZ Top ættu að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Skerðing er pönksveit í orðsins fyllstu merkingu. Aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 6. desember

 

Emiliana Torrini leikur á tvennum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu, þeir fyrri eru klukkan 19:00 en hinir seinni 22:30. Miðaverð er frá 4900 upp í 7900 eftir sætum og miðasala er á miði.is.

 

Benni Hemm Hemm gaf út sína fimmtu breiðskífu á dögunum og kallast hún Eliminate Evil, Revive Good Times. Til að fagna plötunni og aðventunni mun Benni spila nokkur lög af plötunni í Bókabúð Máls og Menningar kl. 17:00 og bjóða uppá léttar veitingar.

 

Hljómsveitin Bellstop fagnar útgáfu nýjustu plötu sinnar á Gauk á Stöng en um upphitun sjá Indigó Wolfie og Slow Mountains. Aðgangseyrir er 1500.

 

Laugardagur 7. desember

 

Bandaríski diskókóngurinn Sleazy McQueen þeytir skífum á Harlem. Sleazy er einn af forsprökkum nýbylgjudiskósenunnar vestanhafs og rekur útgáfufyrirtækið Whiskey Disco, sem m.a. hefur gefið út tónlist hins íslenska B.G. Baarregaard. Á Harlem mun Sleazy leika bæði nýja diskótónlist auk gamalla gullmola úr vínylsafninu. Steindór Jónsson hitar upp mannskapinn en dansinn hefst um miðnætti og stendur yfir til 04:30. Aðgangur er ókeypis.

 

Harðkjarnasveitirnar Aterna, I Com T og Ophidian I koma fram á Gauk á stöng. Aðgangseyrir er 700 krónur.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *