Sónar – heill hellingur af gleði í Hörpu

Föstudagskvöldið byrjaði í skóginum, með tónleikum breska listamannsins Forest Swords í Norðurljósasalnum. Þeir voru tveir á sviðinu, annar við tölvu og apparöt og hinn lék undir á bassa. Þetta var trippy raftónlist með alls konar skrýtnum hljóðum og heimstónlistaráhrifum, indverskum sítörum og afrískum áslætti. Allt í allt, áhugavert.

 

Það var síðan áframhaldandi útivistarstemmning í Norðurljósasalnum því á tónleikum Sin Fang var söngvarinn Sindri Már inni í litlu kúlutjaldi sem var staðsett á miðju sviðinu. Hann var þar með kameru og andliti hans varpað á risatjald á sviðinu, sem skapaði skrýtna – á svona Blair Witch Project-legan hátt – stemmningu. Þetta var áhugavert í byrjun en gimmikkí og þreytt eftir þrjú lög, og ég hefði viljað sjá hann stíga út úr tjaldinu á endanum.

 Nýtt Gusgus og massívir magnarar

Þá var haldið yfir á Gusgus sem voru að koma fram í fyrsta skipti (eftir því sem ég best veit?) eftir að Högni sagði skilið við sveitina. Þeir tóku ýtt efni sem hljómaði prýðisvel, voru með rosalega flott lazer-show og renndu meirað segja í gamla slagarann David, þó að Urður hafi verið fjarri góðu gamni.

 

Þvínæst héldum við á hávaðapoppbandið Sleigh Bells í Norðurljósasalnum. Tveir gítararleikarar voru fyrir framan risastóra veggi af magnarastæðum og framkölluðu risastór riff meðan söngkonan Alisson Krauss lék á alls oddi. Kvöldið endaði svo á berlínsku rafhetjunum í Moderat sem léku melódískt tekknó af fádæma krafti og fágun.

Djassaður Dilla 

Á laugardeginum byrjaði ég á því að sjá íslenska rafrökkurbandið aYia. Þau voru klædd í svartar hettupeysur og spiluðu dimmt og tilraunakennt trip hop. Næst á svið í Silfurbergi var heiðursbandið Dillalude. Það er tileinkað tónlist bandaríska taktsmiðsins J Dilla og félagarnir léku djassaðan spuna yfir takta meistarans af einstakri smekkvísi og lipurð.

 

Alva Islandia hélt uppi nafni sínu sem “Bubblegum Bitch” og drefði tyggjói um allan Norðurljósasalinn og bleik og japönsk Hello Kitty fagurfræði var allt um lykjandi. Kött Grá Pjé rokkaði Silfurberg með bumbuna út eins og honum einum er lagið en leið okkar lá niður í Kaldalón að sjá hina kanadísku Marie Davidson. Það var eitt allra besta atriði hátíðarinnar og Marie bauð upp á ískrandi analog tekknó og rafpopp, þannig það var ekki sitjandi sála í Kaldalóni. Eftir þetta var Fatboy Slim hálfgerð vonbrigði. En Sónar-hátíðin stóð fyllilega fyrir sínu þetta árið og ég er strax farinn að hlakka til næstu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *