Sónar fer vel af stað

Önnur útgáfa Reykjavíkurútibús Sónar hátíðarinnar hófst í gær og það er vonandi að hún festi sig í sessi sem árlegur viðburður.

 

Sax í Tonik

 

Það var gleðilegt að vel var mætt rétt upp úr 8 þegar fyrstu atriði kvöldsin voru að hefjast og það fyrsta á minni dagskrá var íslenski tónlistarmaðurinn Tonik. Hann spilaði frábært sett en með honum á sviðinu var Hörður úr M-Band sem söng og græjaðist auk selló- og saxafónleikara. Hljómurinn var dökkt og seyðandi tekknó og sálarfullur söngur Harðar var löðrandi í tilfinningu. Þrátt fyrir að hlaða raddbreytandi effektum á sönginn var mennskan undir niðri óyggjandi. Sellóið og saxafónninn voru síðan notuð á mjög óhefðbundinn hátt, oft ekki til að spila laglínur, heldur meira eins og hljóðgervlar sem byggðu ofan á hljóðheiminn. Allt í allt til mikillar fyrirmyndar og góður upptaktur að hátíðinni.

 

Minna er stundum of lítið

 

Ryuichi Sakamoto er stórmerkilegur tónlistarmaður en hann var meðlimur í japönsku sveitinni Yellow Magic Orchestra sem voru frumkvöðlar í raftónlist seint á 8. áratugnum og eru í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Þá hefur hann unnið mikið við kvikmyndatónlist og fékk meðal annars óskarsverðlaun í þeim flokki fyrir stórmyndina The Last Emperor. Það sem hann bauð upp á í Silfurbergi ásamt samstarfsmanni sínum Taylor Deupree var hins vegar einhvers konar öfgafull naumhyggja. Einni píanónótu haldið í hálfa mínútu í bland við rafhljóð sem voru svo fíngerð að þau voru nánast ógreinanleg.

 

Ég skil hugmyndina á bak við mínímalisma og get alveg notið hans en þetta var fullmikið af því góða, eins og æfing í engu, eða pínku ponsu meira heldur en þögn. Það lágstemmt að þú heyrðir nánast í fólki anda, svo ekki sé talað um stöðuga bassatrommuna sem drundi í gegnum gólfið frá neðri hæðinni. Þegar ákveðnum punkti er náð hættir minna að verða meira og heldur bara áfram að minnka. Risastór salurinn vann reyndar ekki með þeim og þetta hefði án efa virkað betur í Kaldalóni, en var í það minnsta full daufur kaffibolli fyrir minn smekk.

 

Hús og Högni

 

Eftir Sakamoto þurfti ég nauðsynlega að koma hreyfingu á blóðrásina og fékk hana í nokkrum lögum með Introbeats á Flóasvæðinu. Intro hefur um árabil verið einn fremsti hip hop taktsmiður landsins en er í seinni tíð farinn að færa sig yfir í hústónlistina. Hann var í feikna stuði og pumpaði út bassatrommu á hverju slagi í bland við fönkí bassalínur og bjartar melódíur og loksins var fólk farið að dansa af einhverri alvöru.

 

Þvínæst fylgdist ég með Högna úr GusGus og Hjaltalín frumflytja einstaklingsverkefni sitt, sem hann nefnir HE. Þetta voru metnaðarfull tónverk og dramatíkin keyrð í botn með slatta af strengjum, kórum og framsæknum rafpælingum. Stundum var tónlistin eins og GusGus í helmingi hægara tempói og stundum fór hún út í tilraunakennda raftakta í anda Autechre og Aphex Twin.
Tónlistin var fyrir utan söng Högna mestmegnis spiluð af bandi en magnaðar myndskreytingar bættu það upp. Það var skærum ljósgeisla beint á Högna og myndum af eldgosum, sólmyrkvum og afrískum sléttum var varpað á vegginn og sjónræna hliðin öll hin mikilfenglegasta. Í lokalaginu fékk hann svo heilan karlakór til að syngja með sér en það verður gaman að fylgjast með þessu verkefni í framtíðinni.

 

Klippt og skorið

 

Það var röð inn í Kaldalón en ég náði þó lokasprettinum með Good Moon Deer þar sem forsprakki hennar, Guðmundur Ingi Úlfarsson, klippti, límdi, bjagaði og beygði hljóðbúta af öllum stærðum og gerðum við villtan trommuleik Ívars Péturs. Það kom flott grafík úr skjávarpanum og lagið Again and Again var sérstaklega tilkomumikið, ég hefði viljað ná meira af þeim.

 

Þvínæst sá ég Danann Eloq í Silfurbergi sem var andstæðan við Sakamoto, skrúfaði allt í botn og engar fínhreyfingar í blæbrigðum eða framsetningu. Hann blastaði maximalískt dub step með hip hop áhrifum, og hljóðkerfið í Silfurbergi er svo gott að stundum var eins og bassinn ætti í samræðum við innyflin í þér. Þetta var alveg skemmtilegt en samt ekki sérlega merkileg tónlist, og þónokkur ostakeimur af henni.

 

Upplifun og Elegans

 

GusGus lokuðu svo kvöldinu með skynfæraupplifun á heimsmælikvarða eins og þeirra er von og vísa. Þeir léku mikið af nýju efni sem hljómaði mjög vel og ég er orðinn ansi spenntur fyrir plötunni sem er væntanleg. Högni og Daníel Ágúst sveimuðu elegant um sviðið og samsöngurinn í Crossfade, sem hlýtur að verða smáskífan af plötunni, var ægifagur og tær meðan Silfurbergið nötraði undan taktfastri bassatrommunni og dunandi dansi.

Heilt yfir var fyrsta kvöld Sónar vel heppnað og í kvöld hlakka ég til að sjá gúmmúlaði eins og Bonobo og Jon Hopkins. Fylgist með á straum.is næstu daga því við munum halda áfram með daglegar fréttir af Sónar.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *