Charlotte Gainsbourg syngur Hey Joe

Franska söng- og leikkonan Charlotte Gainsbourg hefur nú gert ábreiðu af laginu Hey Joe, sem er frægast í flutningi Jimi Hendrix. Það er sjálfur Beck sem sá um upptökur á laginu en hann vann með Charlotte að breiðskífunum IRM og Stage Whisper. Hljómur lagsins svipar óneitanlega til History De Melody Nelson, einnar bestu plötu föður Charlotte, Serge Gainsbourg.

 

Lagið var tekið upp fyrir hljóðrás kvikmyndarinnar Nymphomaniac sem er væntanleg frá danska meistaranum Lars Von Trier. Charlotte Gainsbourg leikur aðalhlutverkið í myndinni, persónu sem heitir einmitt Joe, en myndin ku vera ansi djörf svo ekki sé meira sagt. Hlustið á ábreiðuna hér fyrir neðan og horfið á stiklu úr myndinni. Í kaupbæti fylgir svo upphafslag History de Melody Nelson með Serge Gainsbourg.


Dj Premier rímixar Disclosure

Bandaríski hip hop pródúserinn Dj Premier hefur nú endurhljóðblandað Latch, lag garage-bræðradúettsins Disclosure. Upprunalega lagið er af plötunni Settle sem kom út í sumar sem er full af danssmellum og að mati síðuhaldara ein af betri plötum ársins. Dj Premier hægir taktinn niður í hip hop tempó með kraftmiklum trommum og smekklegu píanói. Endurhljóðblöndunin er af væntanlegri rímix-plötu Disclosure sem kemur út 17. desember. Dj Premier er helst þekktur sem taktsmiður hins sögufræga rappdúetts Gang Starr. Hlustið á endurhljóðblöndunina og upprunalega lagið hér fyrir neðan.

Raftónar 2013 – safnskífa

Raftónar hafa gert upp árið 2013 með því að bjóða fólki upp á að hala niður safndisk með nokkrum af bestu raftónum ársins. Árið hefur verið viðburðarríkt og sem dæmi um það fjallaði síðan um alls 14 breiðskífur, 28 stuttskífur og tvo safndiska. Safndiskurinn hefur að geyma, að mati aðstandendum síðunnar, mörg af betri lögum ársins. Raftónar er vefsíða sem fjallar um íslenska raftónlist og hefur verið starfandi frá árinu 2011. Hér er hægt að hlaða niður safndisknum.

 

The Pizza Underground

Fyrrverandi barnastjarnan Macaulay Culkin stofnaði fyrr á árinu Velvet Underground ábeiðuband sem syngur um Pizzur. Hljómsveitin kallar sig The Pizza Underground og tók upp demó heima hjá Culkin í nóvember þar sem þau fara yfir nokkur vel þekkt lög með Velvet og Lou Reed.

The Rentals snúa aftur

Fyrrum bassaleikari hljómsveitarinnar Weezer Matt Sharp hefur ákveðið að endurvekja hliðarverkefni sitt The Rentals. Hljómsveitin gaf út 2 plötur á 10. áratugnum sem að aflaði þeim fjölda aðdáenda. The Rentals munu snúa aftur með nýja plötu á næsta ári ásamt nýjum meðlimi Black Keys trommaranum Patrick Carney sem spilar á öllum 10 lögunum sem verða á plötunni. Fyrsta plata The Rentals frá árinu 1995 hét einmitt því skemmtilega nafni The Return of the Rentals. 

 

Úrvalslisti Kraums 2013 tilkynntur

Öldungaráð Kraums hefur tilnefnt 20 plötur á Úrvalslista Kraums en þann 18. desember næstkomandi verður tilkynnt hvaða 6 plötur af þessum tuttugu koma til með að skipa Kraumslistann 2013. Öldungaráðið vann mikið og gott starf en yfir 170 nýjar íslenskar útgáfur voru teknar fyrir. Markmið Kraumslistans er að kynna og styðja við plötuútgáfu íslenskra hljómsveita og listamanna með sérstöku tilliti til þeirra sem yngri eru. Viðurkenna og vekja sérstaka athygli á þeim verkum sem skara fram úr í gæðum, metnaði og frumleika.

Framkvæmd Kraumslistans 2013 er með þeim hætti að níu manna dómnefnd útnefnir 20 plötur á Úrvalslista Kraums en við honum tekur svo 20 manna dómnefnd og velur bestu plöturnar þannig að eftir standa 5 til 6 verðlaunaplötur.

Dómnefnd Kraumsverðlaunanna er skipuð fólki sem hefur mikla reynslu af því að hlusta á og fjalla um íslenska tónlist á ýmsum sviðum. Formaður dómnefndar er Árni Matthíasson.

Í Öldungaráði sem vann að forvalinu áttu sæti ásamt  Árna Matthíassyni:

Benedikt Reynisson, Elísabet Indra Ragnarsdóttir, María Lilja Þrastardóttir, Ólafur Halldór Ólafsson (Óli Dóri), Ragnheiður Eiríksdóttir, Trausti Júlíusson, Valdís Thor og Þórunn Edda Magnúsdóttir.

 

 

Úrvalslisti Kraums 2013 – Listinn er birtur í stafrófsröð

 

·         Benni Hemm Hemm – Eliminate Evil, Revive Good Times

·         Cell7 – Cellf

·         Daníel Bjarnason – Over Light Earth

·         Dj. flugvél og geimskip – Glamúr í geimnum

·         Futuregrapher, Gallery Six & Veronique – Crystal Lagoon (EP)

·         Grísalappalísa – Ali

·         Gunnar Andreas Kristinsson – Patterns

·         Jóhann Kristinsson – Headphones

·         Just Another Snake Cult – Cupid Makes A Fool of Me

·         Lay Low – Talking About The Weather

·         Mammút – Komdu til mín svarta systir

·         Múm – Smilewound

·         Per:Segulsvið – Tónlist fyrir Hana

·         Ruxpin – This Time We Go Together

·         Samúel J. Samúelsson Big Band – 4 hliðar

·         Sin Fang – Flowers

·         Strigaskór nr. 42 – Armadillo

·         Tilbury – Northern Comfort

·         Úlfur – White Mountain

·         Þórir Georg – Ælulykt

 

 

 

 

Tónleikahelgin 5.-7. desember

Á þessari annarri helgi í aðventu er ýmislegt að gerast í tónleikahaldi á Höfuðborgarsvæðinu og hér verður farið yfir það helsta.

Fimmtudagur 5. desember

 

Caterpillarmen og MC Bjór & Bland blása til tónleika á Gauk á Stöng. Caterpillarmen hafa verið starfandi frá árinu 2009 og spila tilraunakennda progg tónlist sem einkennist af spilagleði og líflegri sviðsframkomu. Drengirnir segjast sækja áhrifavalda til apa en einnig hljómsveita á borð við King Crimson, Yes og Gentle Giant. MC Bjór er rappari sem hefur bruggað list sína neðanjarðar um nokkurt skeið en er nú loks að freyða upp á yfirborðið. MC Bjór sýður magnaða orðasúpu úr naglaspýtum íslenskunnar þar sem súrrealískur húmor og leikrænir tilburðir eru kryddaðir með vænum skammti af virðingaleysi fyrir öllum helstu gildum samfélagsins. Hljómsveitin Bland mun síðan elta orð Bjórsins uppi með funheitu fönki og almennum hrynhita. Leikar hefjast klukkan 21:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Texas Muffin og skerðing spila Dillon og gleðin hefst 22:00. Texas Muffin spila boogie rokk með blús ívafi og aðdáendur JJ Cale og ZZ Top ættu að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Skerðing er pönksveit í orðsins fyllstu merkingu. Aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 6. desember

 

Emiliana Torrini leikur á tvennum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu, þeir fyrri eru klukkan 19:00 en hinir seinni 22:30. Miðaverð er frá 4900 upp í 7900 eftir sætum og miðasala er á miði.is.

 

Benni Hemm Hemm gaf út sína fimmtu breiðskífu á dögunum og kallast hún Eliminate Evil, Revive Good Times. Til að fagna plötunni og aðventunni mun Benni spila nokkur lög af plötunni í Bókabúð Máls og Menningar kl. 17:00 og bjóða uppá léttar veitingar.

 

Hljómsveitin Bellstop fagnar útgáfu nýjustu plötu sinnar á Gauk á Stöng en um upphitun sjá Indigó Wolfie og Slow Mountains. Aðgangseyrir er 1500.

 

Laugardagur 7. desember

 

Bandaríski diskókóngurinn Sleazy McQueen þeytir skífum á Harlem. Sleazy er einn af forsprökkum nýbylgjudiskósenunnar vestanhafs og rekur útgáfufyrirtækið Whiskey Disco, sem m.a. hefur gefið út tónlist hins íslenska B.G. Baarregaard. Á Harlem mun Sleazy leika bæði nýja diskótónlist auk gamalla gullmola úr vínylsafninu. Steindór Jónsson hitar upp mannskapinn en dansinn hefst um miðnætti og stendur yfir til 04:30. Aðgangur er ókeypis.

 

Harðkjarnasveitirnar Aterna, I Com T og Ophidian I koma fram á Gauk á stöng. Aðgangseyrir er 700 krónur.