Secret Solstice – Funheitt fönk, iðnaðartekknó og allt þar á milli

Mynd af Anderson.Paak: Birta Rán

Fjórða Secret Solstice hátíðin var sett með pompi og prakt á fimmtudaginn og ég beið ekki boðanna og dýfði mér strax í tjörusvart myrkrið inni í Hel. Þar var plötusnúðurinn og prúdúsessan The Black Madonna að spila dúndrandi tekknó og hás tónlist sem stundum fór út í óldskúl diskó væb. Og það verður að segjast eins og er, Hel á Secret Solstice er eitt svalasta venue sem þú finnur á Íslandi. Kolniðasvart nema með geggjuðum neonljósum bak við plötusnúðinn, tilfinningin er eins og að vera í Berlín.

 

Það var ekki mikið í gangi fyrsta kvöldið en fönkdrottningin Chaka Khan var eitthvað sem maður varð að tékka á. Hún byrjaði ágætlega og greinilega þaulvön að koma fram en það var samt eins og það vantaði eitthvað oggulítið upp á. Þetta var full faglegt fönk fyrir minn smekk. Engar feilnótur og allt á réttum stað, og kannski var það það sem var að. Þetta var of slétt og fellt og ekki nógu skítugt. Leiðin lá síðan aftur inn í Hel þar sem Kerry Chandler dj-aði seiðandi hústónlist og stundum spilaði hann live-djössuð hljómborðssóló yfir settinu.

 

 Afró-rapp úr fortíðinni

 

Á föstudagskvöldinu sá fyrst Ata Kak, tónlistarmann frá Ghana sem spilar furðulega lo-fi blöndu af house, diskó og rappi með afrískum ryðmum. Hann á sér merkilega sögu, gaf út eina kasettu í snemma á 10. áratugnum sem enginn tók eftir, var svo uppgötvaður 20 árum seinna af grúskara sem endurútgaf plötuna Obaa Sima. Ata Kak sem var löngu hættur að gera tónlist túrar nú tónlistarhátíðir um heim allan og það skyldi engan undra. Hljómsveitin hans grúvaði grimmt og hann sjálfur er með ótrúlega einlæga útgeislun; dansar, syngur og rappar eins og ekkert annað skipti máli.

Breski rapparinn Roots Manuva var næstur á Gimli sviðinu og fór á kostum með döbb- og reggískotnum töktum þar sem bassinn smaug inn að beini, og völdugri rödd sem stjórnaði áhorfendum. Ég náði þremur lögum með Foo Fighters en það er ekki minn tebolli svo hélt aftur í Gimli þar sem rapparinn Pharoe Monch var að koma sér fyrir. Hann tók þrususett þar sem hann vitnaði í alla rappsöguna og leiddi mannfjöldann í hópsöng gegn lögreglunni. Þá lá leiðin enn og aftur í hel þar sem kvöldið var klárað í algleymi myrkurs dúndrandi danstónlistar.

 

Steinsteypuhart iðnaðartekknó 

 

Prodigy eru ein af burðarstoðunum í danstónlist 10. áratugarins og tónlistin þeirra og sviðsframkoma er svo orkumikil að hún gæti knúið tíu álver. Stuðið við stóra sviðið var ómælanlegt fólk missti sig í massavís, og það voru fleiri mosh pits á Prodigy heldur en rokktónleikum hátíðarinnar. Kiasmos fóru á kostum í Hel og tekknó-uðu þakið af Laugardalshöllinni. Það var troðstappað, hendur á lofti og epískar uppbyggingar, drop og taktsprengingar. Eftir það tók Exos við og myndaði berlínska Berghain stemningu í mökkdimmri höllinni. Þetta var steinsteypuhart iðnaðartekknó þar sem hver bassatromma smaug inn í merg og bein eins og pistóna úr bílvél.

 

 Daði Freyr frábær en Anderson.Paak bar af 

 

Á Sunnudeginum sá ég fyrst Gísla Pálma sem ekki hefur spilað mikið undanfarið. Hann hefur hins vegar engu gleymt og hoppaði og skoppaði um stóra sviðið ber að ofan og rappaði af lífs og sálar fítonskröftum. Hann tók meira að segja nýtt lag sem hljómaði mjög vel. Anderson .Paak var hins vegar nokkrum hæðum en önnur atriði hátíðarinnar. Hann byrjaði á stærsta hittaranum sínum, Come Down, sem ómerkilegri listamenn hefðu sparað þar til síðast. En svo keyrði hann bara stemninguna upp upp úr því. Hann er mergjaður rappari, frábær söngvari og taktvilltur trommari, og hljómsveitin hans The Free Nationals fór á kostum. Fyrir utan að vera svo sætur og sjarmerandi að allir í 500 metra radíus frá sviðinu vildu sofa hjá honum. Hann er smá Kendrick, smá Andre 3000, smá Marvin Gay en fyrst og fremst hann sjálfur. Með fullri virðingu fyrir öðrum frábærum listamönnum sem ég sá um helgina bar Anderson.Paak af. Bravóbravóbravó.

Ný-euro-styrnið Daði Freyr steig á stokk í Gimli og allar áhyggjur mínar um að hann væri one hit wonder voru þurrkaðar út. Hann er náttúrutalent og allur pakkinn; rödd, sviðsframkoma, lagasmíðar og hljómur. Hann tók bæði nýtt og gamalt eigið efni, plús frábær coverlög. Synþasólóið í lokin á Hvað með það var einn af hápunktum hátíðarinnar. Ég náði aðalhittaranum með Big Sean meðan ég fór í fallturninn og fór síðan á gömlu fönkhundana í Cyamande og labbaði inn í þeirra helsta slagara, Brothers On The Slide. Þeir voru líklega flestir milli sjötugs og áttræðs og voru í rokna stuði á sviðinu, gamlir grúvhundar sem vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Þá var það bara að halda inn í hel og mjólka síðustu dropana úr hátíðinni á yfirdrætti sunnudagsins.

Það voru margir frábærir tónleikar á hátíðinni en hún hefur líka bara einhvers konar anda sem þú upplifir bara á Secret Solstice. Það er svona meginlandsstemmning sem fylgir því að labba í grasi vaxnu svæðinu milli margra sviða og hafa ekki áhyggjur af neinu. Það var taumlaus nautn og gleði sem skein úr andlitum á fólki og það var gaman að vera lifandi. Mér finnst það hellings virði og vona að óþol nokkurra smáborgara fyrir því að búa í samfélagi við annað fólk komi ekki í veg fyrir að hátíðin verði haldin aftur að ári liðnu.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *