Raftónlist með óperuívafi

Í gær þann 17. júní kom út platan Olympia sem er önnur breiðskífa kanadísku raf hljómsveitarinnar Austra. Bandið inniheldur þau Katie Stelmanis sem syngur og spilar á hljómborð,  bassaleikarann Dorian Wolf og Maya Postepski sem lemur skinn. Árið 2011 gaf Austra út frumraun sína Feel It Break við góðar viðtökur og fjölda tilnefninga til verðlauna. 

Mike Haliechuk úr  hljómsveitinni Fucked Up sá um upptökur á Olympia ásamt Damian Taylor sem vann með hljómsveitinni á fyrstu plötunni ásamt því að hafa unnið með t.d. Björk og Killers. Á nýju plötunni blandast saman léttleikandi danstónar og drungaleg svefnherbergistónlist og á hvort tveggja vel við kraftmikla rödd Katie Stelmanis. Hún er lærð óperusöngkona sem hikar ekki við að reyna á raddböndin og minnir helst á Florence Welch úr Florence and the Machine bæði hvað röddina og útlitið varðar. Gagnrýnendur sem hafa tjáð sig um Olympia eru flestir jákvæðir í garð plötunnar og telja margir hverjir hana framför frá Feel it Break. Textagerðin á plötunni er stundum ekki uppá marga fiska en Katie kemur þeim samt sem áður vel til skila og þeir ættu ekki að skemma áheyrnina fyrir neinum, það væri heldur umslagið sem gæti fælt einhverja frá.

-Daníel Pálsson


Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *