Portishead og Interpol á ATP

Portishead og Interpol verða stærstu hljómsveitirnar á ATP-hátíðinni á Ásbrú  dagana 10.-12. júlí en hvorug hljómsveitin hefur komið fram áður á Íslandi. Portishead verður stærsta nafnið föstudaginn 11. júlí og Interpol stærsta nafnið laugardaginn 12. júlí. Hljómsveitirnar Mammút, For a minor Reflection, Samaris, Sóley og Low Roar verða einnig á meðal þeirra hljómsveita og tónlistarmanna sem koma fram á hátíðinni. Á næstu vikum verður tilkynntur fjöldinn allur af erlendum og íslenskum hljómsveitum til viðbótar.  Áætlað er að tónlistardagskrá hátíðarinnar standi frá 19:00-02:00 alla hátíðardagana og munu í heildina um 25 hljómsveitir koma fram.

Miðasala fer fram á midi.is, í verslunum Brim og atpfestival.com. Þriggja daga hátíðarpassar kosta 18.500 kr. og dagspassar kosta 12.900 kr. Einnig er hægt að kaupa hátíðarpassa og dagspassa með rútuferðum frá BSÍ. Nánari upplýsingar á midi.is.

ATP verður haldin á Ásbrú, fyrrum varnarliðssvæðinu, sem á sér sögu sem rekur aftur til ársins 1941 en bandaríski herinn yfirgaf svæðið árið 2006. Svæðið er staðsett í fimm mínútna aksturfjarlægð frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Reykjanesbæ, um korter frá Bláa Lóninu og hálftíma frá höfuðborgarsvæðinu. Á hátíðarsvæðinu verða tvö svið sem bæði eru innandyra, auk annars konar skipulagðrar dagskrár sem felur meðal annars í sér kvikmyndasýningar, Popppunkt, fótboltamót þar sem hljómsveitir etja kappi við gesti hátíðarinnar o.fl.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *