Paper Beat Scissors á Faktorý

Kanadíska einsmannshljómsveitin Paper Beat Scissors heldur tónleika á Faktorý á fimmtudagskvöld. Um er að ræða verkefni tónlistarmannsins Tim Crabtree, sem er Englendingur að uppruna, en hefur verið búsettur í Halifax í Kanada frá árinu 2008. Tónlistinn einkennist af einstakri rödd hans í bland við gítarplokk, blásturshljóðfæri og dáleiðandi lúppur.

Fyrsta plata Paper Beat Scissors, sem er samnefnd, kom út í vor. Við gerð plötunnar naut hann liðsinnis fjölda lykilmanna í kanadísku tónlistarsenunni. Platan er hljóðblönduð af Jeremy Gara úr Arcade Fire og spilar m.a. Sebastian Chow úr Islands á henni.

Tim hitar stuttlega upp á Hemma og Valda miðvikudagskvöldið 15. ágúst, en heldur svo tónleika ásamt Snorra Helgasyni og Boogie Trouble á Faktorý fimmtudagskvöldið 16. ágúst. Miðaverð á tónleikana er 1000 krónur og hefjast þeir klukkan 21:00.

Fyrir neðan má sjá Paper Beat Scissors flytja lag sitt „Rest Your Bones“ undir berum himni, og hér er hægt að hlusta á plötu hans í heild sinni.