Nú hafa fyrstu listamennirnir sem munu spila á næstu Sónar hátíð í Reykjavík verið tilkynntir og þar ber hæst Major Lazor hópinn sem leiddur er af Diplo. Lagið Get Free var feikivinsælt á síðasta ári og að mati þessarar síðu annað besta lag ársins, og platan Free The Universe sem kom út í byrjun þessa árs var reggískotinn partýbræðingur af bestu sort. Þá mun Daphni koma fram á hátíðinni, en það er hliðarverkefni Daniel Snaith sem er best þekktur sem Caribou, en hann sótti Ísland heim undir því nafni árið 2011 og hélt stórbrotna tónleika á Nasa. Þá hefur þýski plötusnúðurinn Kölsch verið bókaður og íslensku sveitirnar Hjaltalín, Sykur og Sometime hafa verið staðfestar. Sónar hátíðin fer fram í Hörpu dagana 13. til 15. febrúar næstkomandi en hún var fyrst haldin hér á landi í febrúar á þessu ári en umfjöllun straum.is um hátíðina má nálgast hér. Miðasala á hátíðina fer fram á midi.is og hægt er að hlusta á Major Lazer og Daphni hér fyrir neðan.