Lokakvöld Sónar

Mynd: A. Albert

Lokakvöld Sónar-hátíðarinnar fyrir mig hófst með tónleikum Low Roar í flóanum. Hljómsveitin sem leidd er af Ryan var á sinni fyrstu plötu á ljúfsárum akústískum nótum hefur nú aukið við hljóðheiminn og er komin út í talsvert rafrænni pælingar og er það vel. Sveitin kom fram í viðhafnarútgáfu en auk Loga Guðmundssonar sem sér um trommur og hljómborð nutu þeir liðsinnis Mike úr Tung og Leifs Bjarnasonar á synþa. Því miður voru fáir mættir svona snemma því tónleikarnir voru hreint afbragð og sérstaklega var flutningur lokalagsins tilkomumikill. Þvínæst hljóp ég upp í Norðurljósasal þar sem ég náði síðasta lagi með Highlands, en bílskúrs og hússkotin popptónlistin þeirra lofar mjög góðu.

 

Reif í bergið

 

Þá var röðin komin að Mind in Motion, íslenskri rafsveit sem var starfandi á rave-tímabilinu í byrjun 10. áratugarins, en hafði komið saman aftur í tilefni Sónar eftir hvatningu á facebook. Þeir léku hreint og tært óldskúl hardcore, með hröðuðum raddsömplum og öllum pakkanum, og köstuðu meira að segja glowsticks út í salinn. Þá voru aðdáendur þeirra fremst við sviðið með dómaraflautur og það mátti sjá miðaldra reivara með bros á vör út um allan sal.

 

Fm Belfast voru í feikna stuði í Silfurbergi en löngu nóturnar hans Árna Vil komu öllum í mikið stuð, ekki síst í nýlegri lögum eins og Faster Than You. Þá sá ég Sykur í flóanum en þau nýttu tækifærið einnig í að koma með nýtt efni og sérstaklega hljómaði lagið Strange Loops, frábærlega sungið af Agnesi söngkonu, eins og verðandi slagari. Það geislaði af þeim á sviðinu og hljómurinn var hreint út sagt óaðfinnanlegur.

 

Fínir penslar og breiðir bassar

 

Ég gat hreinlega ekki ákveðið mig hvort ég færi á Trentemöller eða Major Lazer svo ég rölti bara á milli og tók inn sitt lítið af hvoru. Bæði atriði voru frábær en á mjög svo ólíkan hátt. Trentemöller var með hljómsveit með sér af mjög færum músíköntum og bauð upp á drungalegt tekknó með útpældum uppbyggingum og alls konar hljóðrænum smáatriðum.

 

Major Lazer hópurinn keyrði hins vegar allt í botn og sló áhorfendur í hausinn með tónlistarlegu ígildi sleggju, samsettri úr dancehall, dub step og hip hoppi. Það voru engin fíngerð blæbrigði í tónlistinni en bassinn var blastaður og sjóið í fyrirrúmi, með dönsurum, konfettí-sprengjum og öllum pakkanum. Á ákveðnum tímapunkti steig svo forsprakkinn Diplo inn í risastóra glæra plastkúlu og rúllaði í henni yfir áhorfendaskarann sem öskraði af ástríðu.

 

Á sama tíma að ári

 

Þegar ég fór aftur inn í Norðurljósasalinn hafði Trentemoller heldur betur gefið í í lokalaginu en þá var gítarleikarinn kominn út í villtan feedback kafla í anda Sonic Youth. Ég hélt svo út í nóttina þrunginn af bassa og með suð í eyrunum sem entist langt fram á kvöld.

 

Hátíðin í ár var feikilega vel heppnuð í nánast alla staði, hljóð og myndskreytingar voru í heimsklassa, tímasetningar stóðust og framkvæmd og hegðun hátíðargesta var til fyrirmyndar. Það er þess vegna mikið gleðiefni að þegar sé búið að tilkynna að hátíðin verði haldin aftur að ári. Umfjöllun straums um fyrri kvöld hátíðarinnar má lesa hér og hér.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *