Lög ársins 2013

 

10) Open Eye Signal – Jon Hopkins

Open Eye Signal er dúndrandi klúbbatekknó með áferð ambíents. Átta mínútna stigmagnandi ferðalag með bassatrommu á hverju slagi. Eins og Brian Eno að rímixa Underworld, á jafn vel heima í klúbbnum og stofunni.

 

 

9) Hanging Gardens – Classixx

Hanging Gardens er líkt og ferðalag sem hefst á yfirgefinni strönd sem á augabragði fyllist og endar í brjáluðu strandpartí. Gæða rafpoppi sem á svo sannarlega heima á dansgólfinu.

 

 

 

8) More Than I Love Myself – Sean Nicholas Savage

Allir þeir sem voru viðstaddir tónleika Sean Nicholas Savage á Iceland Airwaves hátíðinni í nóvember urðu vitni af því gríðarlega tilfinningaflóði sem einkennir flutning hans. Savage sendi þetta lag frá sér í maí sem er gott dæmi um þetta enda var það hápunktur einstakra tónleika hans hér á landi.

 

 

7) Birth In Reverse – St. Vincent

Sum lög þurfa yfirlegu og talsverðan tíma áður en hægt er að njóta þeirra eða meta gæði þeirra almennilega. Birth in Reverse er ekki eitt af þeim heldur skynjar maður á fyrstu hálfu mínútunni að hér er eitthvað sérstakt í gangi. Grúvið er algjört skrímsli, tempóið geysihratt og fáir í heiminum nota rafmagnsgítar á jafn hnitmiðaðan hátt og St. Vincent. Það er ástæðan fyrir því að þetta lag er svona ofarlega á lista þrátt fyrir að vera nánast nýkomið út.

 

 

 

6) ODB – Danny Brown

ODB er besta rapplag ársins en það var ekki einu sinni á Old, plötu Danny Brown. Takturinn fer í margar áttir í einu og Danny Brown rappar eins og berserkur yfir hann.  Eins og titillinn gefur til kynna svífur andi Old Dirty Bastards heitins yfir vötnum, bæði í lyfjuðum taktinum og brjálæðislegu flæði Danny Brown.

 

 

 

5)  When a Fire Starts to Burn – Disclosure

Platan Settle var troðfull og grípandi slögurum og eftirminnilegum gestasöngvurum en að okkar mati var ósungna upphafslagið, When a Fire Starts to Burn, það besta. Garage-takturinn framkallar strax líkamleg viðbrögð og þú færð kippi í útlimana og getur ekki annað en hreyft þig í takt. Raddbúturinn „When a Fire Starts to Burn“ er síðan meira grípandi en nokkurt viðlag og hefur kveikt í þakinu á mörgum skemmtistöðum á árinu.

 

 

 

4) Full Of Fire – The Knife

Að okkar mati var platan Shaking The Habitual ójöfn, of löng og full innhverf en fyrsta smáskífan er eitt það magnaðasta sem sænski systkinadúettinn hefur gefið frá sér. Full of Fire er níu mínútna hryllingsmynd í hljóðum, diskótek í draugahúsi og rave í helvíti. Ryðminn er ískaldur iðnaður og sjaldan hefur kynuslandi rödd Karen Drejer verið snúin og beygluð í jafn margar áttir og hér. Lag sem fær þig til að dansa og vera hræddur á sama tíma.

 

 

3) No Destruction – Foxygen

Annað lagið af plötunni We Are The 21st Century Ambassadors of Peace & Magic (sem var efst í vali okkar á plötum ársins) er hið stórkostlega No Destruction. Lagið hljómar svolítið eins og blanda af Velvet Underground, Bob Dylan og Pavement. Letilegur sögurinn nær hámarki með línunni “You don’t need to be an asshole, you’re not in Brooklyn anymore”.

 

 

 

2) Reflektor – Arcade Fire

Arcade Fire fundu loksins grúvið sitt og leiðina á diskótekið í fyrstu smáskífunni af samnefndri plötu. Reflektor er eins og fullkominn samruni milli Arcade Fire og LCD Soundsystem. Takturinn er fönkí tekknó með hnausþykkum botni í anda James Murphy en raddirnar og fiðlurafmagnsgítar-dramatíkin gætu ekki hafa komið frá neinum öðrum en Arcade Fire. Það eitt og sér hefði verið nóg en í ofanálag fáum við seiðandi saxafón frá Colin Stetson og bakrödd frá David Bowie. Við skulum kalla þetta kombakk.

 

 

1) Ya Hey – Vampire Weekend

Magnaður fluttningur Ezra Koenig á samtali sínu við guð er okkar lag ársins 2013. Furðulegustu bakraddir síðari ára (hraðaðar Chipmunks raddir) skapa fullkomið jafnvægi við einlæga en jafnframt stöðuga frammistöðu Koenig. Lagið er gott dæmi um það frábæra samstarf sem ríkt hefur á milli hljómsveitarinnar og upptökustjórans Ariel Rechtshaid. Hljóðheimur lagsins er sá stærsti í sögu bandsins enda í fyrsta skipti sem það vinnur með utanaðkomandi upptökustjóra. Mikilvægasta lag á ferli Vampire Weekend.

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *