Hvað ert’að Sónar?

 

Fjórða Sónar hátíðin í Reykjavík hefst á morgun og býður upp á drekkfullt hlaðborð af tónlistarmönnum og plötusnúðum í hæsta gæðaflokki heimsins um þessar mundir. Straumur verður að sjálfsögðu á staðnum og mun flytja fréttir af herlegheitunum en hér að neðan getur að líta þá erlendu tónlistarmenn sem fá okkar allra bestu meðmæli.

 

Oneohtrix Point Never

 

Bandaríkjamaðurinn Daniel Lopatin framleiðir tilraunakennt hljómsalat úr sveimi, drónum og mismiklum óhljóðum sem dansar ballet á barmi ægifegurðar og tryllings. Platan hans R Plus Seven var ein besta skífa ársins 2013 og hefur dvalið langdvölum í heyrnartólum ritstjórnar Straums frá því hún kom út.

 

Ellen Allien

 

Tekknótæfan Ellen Allien hefur verið í farabroddi Berlínarsenunnar í hátt í tvo áratugi og rekur m.a. plötuútgáfuna Bpitch Control. Hún er Júpíter í sólkerfi alþjóðlegu klúbbasenunnar, bæði sem plötusnúður og pródúser, og enginn með bassatrommu í blóðinu ætti að láta settið hennar á Sónar fram hjá sér fara.

 

!!!

 

Upphrópunarmerkin þrjú eru með hressari tónleikaböndum starfandi í dag og danspaunkfönkið þeirra getur fengið óforbetranlega stirðbusa til að rísa á fætur og hrista alla mögulega skanka. Tónleikar þeirra á Airwaves hátíðinni 2007 voru danssturlun á heimsmælikvarða þar sem svitinn lak af súlunum á Nasa.

 

Angel Haze

 

Eitilharða rapppían Angel Haze fór sem hvirfilbylur um rappheiminn með smáskífunni New York sem kom út árið 2012. Þessi fantafæri rappari hefur vakið athygli fyrir opinskáa texta um viðkvæm málefni eins og kynferðisofbeldi og sjálfsmorðshugsanir og verið tilnefnd til MTV og BET verðlauna.

 

Floating Points

 

Breski pródúsantinn og plötusnúðurinn Sam Shepard hefur vakið geisilega mikið og verðskuldað lof fyrir sína fyrstu breiðskífu, Eleania. Það er einstakt verk sem er ekki hægt að flokka og skila – mismunandi stílar renna hver ofan í annan og mynda stórfljót af hljóði sem flæðir yfir bakka hefðbundinnar skynjunar og streymir beina leið í sálina.

 

Holly Herndon

 

Holly Herndon vinnur með mörkin milli hins vélræna og mannlega og skörun hins stafræna og líkamlega. Hún er framsækinn listamaður í mörgum geirum og tónleikar hennar eru samtal milli Herndon, áhorfenda, nýjustu tækni og vísinda.

 

Hudson Mohawke

 

Þessi knái Breti er einn allra færasti hljómverkfræðingur samtímans og hefur framleitt smelli fyrir listamenn á borð við Kanye West, Pusha T, Lil Wayne, Azeliu Banks og Drake. Hann er helmingur trap-dúettsins TNGHT og hans önnur breiðskífa, Lantern, hefur hlotið feikigóða dóma um víða veröld. Stílinn hans er meirimalískur með endemum og hann notar blásturshljóðfæri eins og enginn annar í bransanum eins og glöggt má heyra í neðangreindu lagi, sem var eitt það besta sem kom út á síðasta ári.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *