Fyrsti í Iceland Airwaves

Mynd: Florian Trykowski

Útvarp Airwaves. Klukkan er margt.

Davíð Roach Gunnarsson les fréttir:

Þó þetta sé 15. Iceland Airwaves hátíðin mín finn ég ennþá alltaf fyrir fiðringi í maganum á fyrsta degi. Bærinn fyllist af fólki og óræð spennuþrungin boð um yfirvofandi uppgötvanir þeysast um andrúmsloftið. Þannig leið mér þegar ég brunaði á hjólinu mínu gegnum bæinn eftir vinnu til að ná nýja rafpoppbandinu aYia í últra off off office-venue tónleikum á skrifstofu The Reykjavík Grapevine. aYia spila einhvers konar ofur nútímalegt trip hop, kinka kolli til FKA Twisgs og Kelelu en samt tilraunakenndari. Þau gera síðan mjög vel í að framreiða flókna elektróníkina á tónleikum með alls konar trommupödum, hljóðborðum og mixerum. Frábær byrjun á hátíðinni.

 

Níhílískt ljóðapönk

 

Næst sá ég annað spánýtt bandi sem heitir Hatari (fyrst hélt ég að það væri borið fram hatarí, en komst síðan að því að þetta er íslenskun á hater, þ.e. hatari). Þeir voru í einu orði sagt stórkostlegir á sviðinu í Iðnó og ólíkt öllu öðru í íslensku senunni. Þetta er nokkurs konar elektrópönk undir áhrifum frá slam-ljóðum og gjörningalist. Trommarinn spilar standandi á raftrommur með leðurgimp-grímu í andlitinu. Hinier tveir eru klæddir í eitthvað sem lítur út eins og nasista einkennisklæðnaður og annar þeirra syngur angurvært og spilar á gítar, en hinn ljóðarantar ómengaðan níhílisma. Textarnir eru kapítuli út af fyrir sig og ég var aftur og aftur dolfallinn af orðsnilldinni. Línur eins og „Saltinu úr grautnum er / er stráð, í sárin“ ómuðu í kollinum á mér löngu eftir að tónleikarnir voru búnir.

 

Næst á svið í Iðnó var Sigrún, sem áður hefur gert garðinn frægann með böndum eins og Orphic Oxtra. Hún framreiddi rosalega fríkí tilraunapopp með alls konar skrýtnum slaufum, óhljóðum, röddunum og kaflaskiptingum. Mjög áhugavert en það var dálítið erfitt að koma á eftir sprengju eins og Hatara, samanburðurinn verður aldrei sanngjarn.

 

Rafræn síkadelía

 

Þegar hér er komið við sögu er ekki hægt að komast hjá því að minnast á að fyrsta kvöld Airwaves var ansi rakt, og þá er ég ekki bara að tala um áfengisinntöku. Það er mjög hlýtt miðað við nóvember og stanslaus útlandarigning, það mikil að ég er alvarlega að íhuga að festa kaup á regnhlíf þar sem þegar þetta er ritað er ekki ennþá hætt að rigna. En út í þessa rigningu fór ég samt til að sjá Gunnar Jónsson Collider á Húrra. Hann byrjaði einn með tölvu og gítar og spilað ambíent í anda Boards Of Canada. Síðan bætust við trommu-, bassa- og hljómborðsleikari og helltu sér út í helsíkadelískt rokk sem blastaði skynfærin. Þvínæst fóru þeir út í rafindírokk sem minnti mig talsvert á Radiohead. Allt í allt, mjög gott stöff.

 

Eftir þetta þurfti ég því miður frá að hverfa þar sem ég er þræll í kapítalísku hagkerfi og þurfti að mæta snemma til vinnu í morgun. En fylgist með næstu daga því Straumur heldur áfram að segja daglegar fréttir af hátíðinni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *