Tónlistarkonurnar Kira Kira, Flying Hórses frá Montréal og Portal 2 xtacy halda tónleika á Kex Hostel í kvöld. Tónleikarnir hefjast stundvíslega kl. 21:00 og er aðgangur ókeypis. Flying Hórses er tvíeyki frá Montréal í Kanada og er skipað þeima Jáde Berg og Raphael Weinroth-Browne. Tónlist þeirra er ósunginn nýklassík og er að mestu flutt á píanó og selló. Sveitin hefur verið að vinna sína fyrstu breiðskífu í Sundlauginn í Mosfellsbæ og mun hún koma út á fyrri hluta næsta árs. Hljómsveitin hefur verið að koma fram erlendis með Lindy sem spilaði hér á nýafstaðinni Iceland Airwaves og Memoryhouse sem gefur út hjá Sub Pop í Bandaríkjunum.
Kira Kira er sólóverkefni Kristínar Bjarkar Kristjánsdóttur og hefur hún verið í framlínu tilraunakenndrar raftónlistar í hátt í tvo áratugi. Hún hefur gefið út þrjár breiðskífur undir merkjum Smekkleysu, Afterhours í Japan og Sound of a Handshake sem er undirmerki Morr Music í Þýskalandi.
Portal 2 xtacy er tvíeyki skipað þeim Áslaugu Brún Magnúsdóttur og Jófríði Ákadóttur sem þekktastar eru fyrir að vera meðlimir í þríeykinu Samaris.