Fimmtudagskvöld á Sónar

Angel Haze í Silfurbergi. Mynd: Brynjar Snær

 

Ég hóf leikinn í myrkrakompunni Sonarlab sem er staðsett í bílastæðakjallara Hörpunnar. Fáir voru mættir um kvöldmatarleytið þegar fyrstu atriðin hófust en plötusnældan Julia Ruslanovna spilaði þokkafullt tekknó sem fengu fyrstu hræður kvöldsins til að hreyfa sig, en dansinn átti eftir að aukast umtalsvert eftir því sem kvöldinu leið fram.

 

Ég náði svo örfáum lögum með Vök í Silfurbergi þar sem stemmningin var myrk og tónlistin í anda the xx og Portishead með vænum skammti af saxafóni á völdum köflum. R’n’B söngvarinn Auður fór á kostum í Kaldalóni og flaut um sviðið með þokkafullum danshreyfingum og seyðandi söng. Hann er líka einn besti pródúser á landinu á sínu sviði og sándið hans minnir um margt á Weeknd, Frank Ocean og það besta sem gerist í þessum geira vestanhafs.

 

Reif í kjallarann

 

Í reifkjallaranum var Yamaho að matreiða hústónlist ofan í mannskapinn en talsvert hafði fjölgað í kjallaranum frá því fyrr um kvöldið og hreyfing komin á liðið. Ég náði svo í skottið á samstarfi Martin Kilvady & Mankan og Íslenska dansflokksins en í lok sýningarinnar fóru dansararnir af sviðunu og dönsuðu á meðal og jafnvel við áhorfendur á gólfinu í Norðurljósasalnum. Good Moon Deer var næstur í sama sal og hann hafði einnig nútímadansara með sér á sviðinu til stuðnings sundurklipptum töktum og annars konar rafsturlun.

 

En ég þurfti frá að hverfa til að sjá eitilhörðu rapppíuna Angel Haze í Silfurbergi. Hún var agnarsmá og mjó en með rödd og flæði á við Dettifoss á góðum leysingardegi. Gólfið nötraði undan bassanum og Angel Haze spítti út úr sér rímum á ógnarhraða og af fádæma krafti og öryggi. Eftir þessa bestu tónleika kvöldsins lá leið okkar enn og aftur í kjallarann þar sem Ellen Allien bauð upp á grjóthart tekknósett með miklum 90’s áhrifum. Ég dansaði í myrkrinu við ómstríðar hljómborðslínur, hvíslandi hæ-hatta, snerla sem slógu mig utan undir og bassadrunur sem fengu eistun til að titra.

 

Pall-íettu Power Ranger

 

Undir lok kvöldsins náði ég nokkrum lögum með Páli Óskari sem var eins og búast mátti við glysflugeldasýning kvöldsins. Hann kom fram í einhvers konar pallíettu Power Rangers galla og hafði sér til fulltingis fjóra dansara í diskókúlualbúningum. Glimrandi glimmerendir á skemmtilegu kvöldi. Í kvöld er það svo Oneohtrix Point Never, Squarepusher, Floating Points og fleiri, fylgist með áframhaldandi fréttum af Sónar á straum.is næstu daga.

 

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *