Aphex Twin – Syro forhlustun

 

Breska plötuútgáfufyrirtækið Warp Records  sem þekkt er fyrir þá mörgu raftónlistarmenn sem það hefur á sínum snærum, auglýsti nýverið viðburði tengda tónlistarmanninum Aphex Twin víðsvegar um heim, nánar tiltekið á tónleikastöðum í borgunum London, París, New York, Los Angeles, Chicago, Toronto, Brussel og Utrecht. Þar voru tækifæri fyrir áhugasama að heyra nýja plötu Aphex Twin, Syro, hátt í tveimur vikum áður en útgáfudagur hennar rennur í garð. Platan inniheldur tólf lög sem hann hefur unnið að síðasta áratug og er hans fyrsta breiðskífa síðan árið 2001. Eitt var að búa í nálægð við einhvern þessa viðburða en annað að fá tækifæri til að sækja einn slíkan. Innganga var ókeypis en til þess að fá hana þurfti að finna auglýsingu frá einum tónleikstaðanna sem sagði til um framhaldið. Reglan var sú að hver staður mátti einungis dreifa fimmtíu miðum hver.

Það vildi svo heppilega til að ég hóf námsdvöl mína nýlega í borginni Utrecht í Hollandi. Hún er rétt sunnan við Amsterdam og þar búa tæplega jafn margir og á Íslandi. Verandi bæði tónlistarunnandi og Aphex Twin aðdáandi, fann ég hvar hlustunarpartýið yrði haldið og sendi tölvupóst í von um það að fá miða. Ég var himinlifandi þegar mér barst svar þar sem mér var tilkynnt að ég væri í hópi þeirra sem kæmu til með að hlýða á plötuna að kvöldi 10. september. Leiðinni var heitið á lítinn, virtan og framsækinn tónleikastað sem heitir EKKO.

 

Ólívugrænn er liturinn


Á meðan ég bíð eftir því að staðurinn opni virði ég fyrir mér ólívugræn (sem er augljóslega sértilvalinn litur Syro) Aphex Twin merkin í gluggum staðarins. Þegar inn er komið bíður mín fatahengi þar sem vinalegur starfsmaður tekur við frakka mínum til geymslu. Dyravörður í jakkafötum leitar á mér og fullvissar sig um það að ég sé með enga myndavél, upptökutæki eða síma (sem ég skyldi eftir í frakkanum). Þar á eftir er mér afhendur bæklingur með myndefni ásamt lagalista plötunnar á bakhlið. Ég skelli mér á barinn, fæ mér einn bjór og lendi í spjalli við aðra gesti. Því næst skrái ég mig á lista til þess að fá meldingu þegar platan komi út og hvar ég geti keypt hana í bænum. Ég fæ varning með merki tónlistarmannsins: plastpoka sem ég get sett plötuna í þegar ég eignast hana, límmiða og gervi-greiðslukort. Spennan er þegar mikil.

Spennan nær hámarki þegar hurðir tónlistarsalsins opnast upp á gátt og gestirnir streyma inn. Við okkur blasir græn lýsing og merki Aphex Twin sem varpað er á sviðið með sitthvorum skjávarpanum. Ég tek eftir tveimur einmana diskókúlum í loftinu sem fá líklega ekki að njóta sín þetta kvöld. Eftir örlitla bið tekur til orðs maður, líklega viðburðastjórinn, sem talar á hollensku og segir að enginn annar bær í landinu hefði komið til greina fyrir þetta hlustunarpartý en Utrecht. Hann biður alla einnig hjartanlega velkomna og lýkur ræðu sinni á orðunum „Come to daddy”, sem er vísun í samnefnt lag Aphex Twin frá árinu 1997, og þá byrjar Syro að hljóma.


 

Draumkenndur og duttlungafullur


Hljóðstyrkurinn er nægilegur í kerfinu á EKKO. Platan er hvorki spiluð of hátt né lágt að mínu mati. Fyrsta lag plötunnar er minipops 67 [120.2] [source field mix] sem var gert aðgengilegt á alnetinu nýverið sem forsmekkur af því sem koma skyldi. Þéttur en slitróttur takturinn er kunnuglegur þeim sem hafa hlustað á Aphex Twin áður. Raddirnar sem spila stórt hlutverk í laginu eru eins og sögumenn sem leiða mann inn í draumkenndann og duttlungafullan heim Aphex Twin. Ég byrja strax að dilla höfði og öxlum. Sumir gestanna tóku með sér skriffæri og rita niður hjá sér athugasemdir. Lögin halda áfram að rúlla og eru jafn mislynd og þau eru mörg. Það sama má segja um gestina sem fáir virðast þekkja hvorn annan. Ég lít við og við í bæklinginn sem tilgreinir nöfn laganna og hversu mörg slög eru í þeim á mínútu. Ég reyni að fylgja listanum eftir en missi mig oft í eigin hugsunum. Platan byrjar í um 120 slögum á mínútu en þau verða fleiri með hverju lagi. Það er við miðbik plötunnar sem ég finn fyrir mikilli samrýni meðal gestanna sem klappa og fagna þegar hverju lagi lýkur. Hver og einn er að njóta á sinn hátt. Nokkrir dansa með tilþrifum, aðrir sitja á gólfinu og sumir liggja. Platan endar á fallegum píanóleik eins og platan hans, Drukqs, gerði einnig 13 árum áður. Ég loka augum mínum á meðan aitsatsana spilast og er sem mjúk fiðursæng sem faðmar mig og biður mig að hvílast.

Alsæll, agndofa, uppskrúfaður, örlítið sveittur og verulega sáttur geng ég út úr tónleikasalnum. Á meðan ég trappa mig niður ræði ég upplifun mína við aðra gesti á barnum. Ég kveð að lokum, nappa auka bæklingi og límmiða fyrir vin, gleymi að pissa og hjóla heim.

 

Snilldarlegur hrærigrautur


Það sem ég heyrði þetta kvöld væri hægt að eyða löngum tíma í að reyna að skilgreina. Teknó ýmiskonar (acid og ambient), IDM og slitrur af ýmsum stefnum sem ég þekki ekki nægilega vel. Þessi plata er þó töluvert mýkri en Drukqs sem dæmi og minnir frekar á hans fyrri plötur. Eins og við mátti búast voru lögin margslungin og kaflaskipt. Sannkallaður hrærigrautur, snilldarlega framreiddur af Aphex Twin. Ég hreyfði mig allan tímann. Þetta var í senn eins og að stunda íhugun og að fara út á lífið í leit að ást. Snilld þessa tónlistarmanns var gefin góð skil þetta kvöld. Viðstaddir meðtóku músíkina og sýndu viðbrögð sín persónubundið. Við vorum þarna saman komin til að deila þessari upplfun í návist hvors annars en í sitt hvoru lagi.

Alexander Jean Edvard Le Sage de Fontenay

 

Syro kemur út 22. september. Hægt að forpanta hana hér. (https://bleep.com/release/53848-aphex-twin-syro)

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *