Airwaves yfirheyrslan – Jón Þór Love & Fog

Tónlistarmaðurinn Jón Þór Ólafsson hefur margoft spilað á Iceland Airwaves bæði með hljómsveitum og með sólóverkefni sínu. Jón Þór kemur fram með hljómsveit sinni Love & Fog á hátíðinni í ár.

 

 

Hver var fyrsta Airwaves hátíðin sem þú fórst á sem gestur og hvað var eftirminnilegast á henni?

 

Airvaves árið 2003 var fyrsta hátíðin sem ég spilaði á og naut sem gestur. Ég skemmti mér vel á á Nasa. Trabant voru góðir en The Kills voru lummó. Ég spilaði í fyrsta skipti á Airwaves þá á gítar með íslenska raftónlistarmanninum Tonik. Ég man ómögulega hvar þeir voru en stemmingin var örugglega góð. Það er alltaf góð stemming á Tonik.

Á hversu mörgum hátíðum hefur þú spilað?

Hátíðin í ár er tíunda IE hátíðin sem ég spila á. Það hlýtur að þýða að hún verði magiKul!!!

 

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur sótt sem gestur?

Foreign Monkeys árið 2009 eru í fljótu bragði eftirminnilegastir. Líklega út af því að ég endaði inni í trommusettinu í lokalaginu þeirra.

 

 

Hvað eru eftirminnilegustu tónleikarnir sem þú hefur spilað á sjálfur? 

Það er erfitt að velja eftirminnilegustu tónleika sem ég hef spilað sjálfur á. Það var rosalega gaman að spila með Lada Sport árið 2006. Þá vorum við nýbyrjaðir að taka upp plötuna okkar Time And Time Again og blésum upp tvöhundruð hjartalaga blöðrur sem gengu á milli áhorfenda á Grand Rokk. Einnig eru off-venjú tónleikarnir Mjódd-waves á föstudeginum í fyrra frábærir. Ég var að spila órafmagnað sett af sólóskífunni minni. Óveðrið var þá sem mest, alveg brjálað rok og nötrandi kuldi. Gluggarnir sveifluðust til og kannski 15 manns að horfa á.

 

Hvernig finnst þér hátíðin hafa breyst og þróast í gegnum árin?

Hátíðin hefur aðallega verið að festa sig í sessi sem ein magnaðasta tónlistarhátíð í heimi. Hún hefur alltaf haldið fjölbreytileika sínum og mikið af sama fólki kemur til landsins ár eftir ár og sækir hátíðina vegna þess að andrúmsloftið í miðbænum er rafmagnað og nánast ólýsanlegt. Fólk gengur brosandi um með stjörnur í augunum.

 

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn?

Nasa er besti tónleikastaður sem íslendingar hafa átt og munu nokkurn tíma eiga. Það er virkilega grátlegt að missa hann.

 

Hvaða tónleikum sérðu mest eftir að hafa misst af ?

Ég hef, eins og væntanlega margir, misst af mörgum geðveikum tónleikum. Mest sé ég þó eftir að hafa misst af Vampire Weekend og Klaxons.

 

Hefurðu einhver góð ráð handa tónlistarmönnum sem eru að spila á Airwaves í fyrsta skiptið?

Já, vertu þú sjálf(ur) og skemmtu þér vel.

 

Hverju ertu spenntust/spenntastur fyrir á hátíðinni í ár? Erlent/innlent?

Ég er spenntur að sjá Mac DeMarco, auk þess sem Yo La Tengo mun eiga fimmtudaginn fyrir mér. Af íslenskum böndum sé ég sjaldnast það sem ég ætla mér að sjá en oftast sé ég vini og kunningja búa til e-ð gúmmelaði.

 

 

Hvaða þýðingu hefur Iceland Airwaves fyrir íslensku tónlistarsenuna?

Íslenska tónlistarsenan er líklega sífellt að snúast meir og meir í kringum hátíðina í stað þess að hátíðin sé að snúast í kringum tónlistarsenuna. Það er örugglega bara kostur frekar en galli því hljómsveitir og listamenn reyna oft að koma plötum og afurðum sínum út í kringum hátíðina. Iceland Airwaves er þar af leiðandi ákveðinn hápunktur á tónlistarárinu, í senn drifkraftur og uppskeruhátíð.

 

Hvað hefur þú spilað mest á mörgum tónleikum yfir eina hátíð?

Ég held að ég hafi spilað á níu tónleikum á hátíðinni í fyrra. Það var gaman!

 

Uppáhalds Iceland Airwaves hátíðin þín í gegnum árin? Af hverju?

Hátíðin í fyrra er í miklu uppáhaldi. Óveðrið gerði hana extra eftirminnilega.

 

Kraftwerk eða Yo La Tengo?

Bæði! En ég sá Kraftwerk 2004 í Kaplakrika þannig að í ár heyri ég Yo La Tengo hjartað slá sem eitt!

 

Listasafnið eða Harpa? 

Listasafnið

 

Með hvaða hljómsveit/hljómsveitum ertu að spila á þessari hátíð og hvar er hægt að fylgjast með þér?

Ég er að spila með Love & Fog á Harlem á miðvikudagskvöldinu og á Hressó á fimmtudagskvöldinu. Off-venjú á eftir að koma í ljós.

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *