Tónleikahelgin 3.-5. apríl

 

Fimmtudagur 3. apríl

 

Mono Town fagnar útgáfu frumburðar síns „In The Eye Of The Storm“ með veglegum tónleikum í Gamla Bíói. Sveitin mun koma fram með strengjasveit og kór en tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant hitar upp. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 2900 krónur.

 

Bergur Thomas Anderson kemur fram á tónleikum í Mengi við Óðinsgötu. Bergur hefur getið sér gott orð sem bassaleikari með sveitum eins og Grísalappalísu, Oyama og Sudden Weather Change en hann hefur ekki komið fram einn síns liðs í þónokkurn tíma. Hann sækir efnivið í minningar, draumaóra, frjálsan spuna og einkennist flutningurinn af samtali sem stöðugt er í þróun. Gestum er því boðið í ský sem vex um sig og hverfur þegar á er litið. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

 

Í Grafarvogskirkju verður fyrsta kvöldið af þremur þar sem Megas flytur lög sín við Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Með Megasi verður einvalalið tónlistarfólks úr ýmsum áttum; Moses Hightower, CAPUT-hópurinn, Magga Stína, stór rokksveit, strengjasveit og þrír kórar. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 3.900 krónur.

 

Hemúllinn stundar samfélagsrýni af hörðust sort á Dillon í tilefni af því að aprílmánuður er nýhafinn. Stungið verður á kýlum og landlæg spilling upprætt með tölvupönki. Herlegheitin hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 4. apríl

 

Rappkonukvöld verður haldið á Harlem en þar munu Reykjavíkurdætur koma fram í sameiningu og frumflytja nýtt lag. Þá munu meðlimir þeirra einnig flytja eigið efni, sóló og í pörum, en Sunna Ben þeytir skífum á milli atriða. Kvöldið hefst klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Soizic Lebrat kemur fram í mengi og flytur verk sitt Blue Solo. Lebrat er franskur sellóleikari sem hefur leikið ‘Bleu Solo’ verkið á fjölda listahátíða frá því hún frumflutti það á Nexmap – Binary City hátíðinni í San Francisco listahátíðinni 2010. Flutningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Skúli mennski ætlar að mæta örlögum sínum á Café Rosenberg. Með honum verða góðir menn og óhætt að segja að enginn verði illa svikinn af því að mæta og leggja við hlustir. Hefst klukkan 22:00.

 

Eyðimerkurrokkararnir í Brain Police koma fram á tónleikum á Dillon. Leikar hefjast 22:00 og 500 krónur veita aðgang að þeim.

 

Elín Helena og Muck koma fram á Bar 11. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Laugardagur 5. apríl

 

Úrslitakvöld Músíktilrauna fer fram í Norðurljósasal Hörpu. Viðburðurinn hefst klukkan 17:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

DÓH tríóið kemur fram í Mengi við Óðinsgötu. Það er samansett af Helga Rúnari Heiðarssyni á saxófón, Daníel Helgasyni á gítar og Óskari Kjartanssyni á trommur sem allir er nýútskrifaðir úr Tónlistaskóla FÍH. Hljómsveitin hefur fengið mikið lof fyrir tónleika sína þar sem mikið er lagt uppúr dínamík, allt frá hvíslandi tónum upp í orkumikla spennu. Tríóið leikur lög úr ýmsum áttum, m.a. frumsamið efni þar sem spilagleði og spuni fær að njóta sín. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Það verða þungarokkstónleikar á Gauk á Stöng en fram koma Momentum, Angist, Malignant Mist og Future Figment. Þetta hefst klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Þeir Pétur Ben og Rúnar Þórisson koma fram á tónleikum á Bar 11 ásamt gestum. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og það er ókeypis inn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *