Annar í Sónar

Mynd: A. Albert

Föstudagskvöldið mitt hófst í Norðurljósasalnum þar sem Starwalker, hljómsveit Barða Bang Gang og J.B. Dunckel úr Air, lék á sínum fyrstu tónleikum. Þau voru þó greinilega þaulæfð því engan byrjendabrag var að heyra á flutningnum. Þetta er feikilega vandað og stílhreint rafpopp og Duncel fór á kostum í villtu synþasólói í lokalaginu.

GP með make-up

Næst á dagskrá var furðufyrirbærið Gísli Pálmi sem lék á alls oddi í Sónarflóanum. Hann var með svaðalega augnmálningu og að sjálfsögðu ber að ofan og hoppaði og skoppaði um allt sviðið auk þess að klifra upp á hátalara og rappa úr sér lungun. Taktarnir voru framreiddir af tveimur mönnum með klúta sem huldu andlit sín, en þeir eru mjög flottir, einhvers konar mínímalískur fútúrismi.

Eftir að hafa fengið ráðlagðan kvöldskammt af GP hélt ég í Silfurberg þar sem Bonobo hafði komið sér fyrir á sviðinu ásamt hljómsveit. Þau léku áheyrilegt trip hop með exótískum áhrifum frá hinum ýmsu heimsálfum auk þess að njóta aðstoðar söngkonu í nokkrum lögum. Ég hoppaði svo aðeins niður til að sjá hina eitilhörðu rapppíu Cell7 og sá ekki eftir því. Fyrsta sólóplatan hennar var með betri íslensku plötum síðasta árs og lögin af henni skiluðu sér vel á sviðið en hún naut aðstoðar meðlima Moses Hightower við flutninginn.

Dökkt og bjart tekknó

Þá var röðin komin að Jon Hopkins en hann nýtti hljóðkerfi Silfurbergs til hins ýtrasta, keyrði allt í botn svo þú fannst fyrir drungalegu tekknóinu með öllum líkamanum en ekki bara eyrunum. Klúbbastemmningin var allsráðandi og Hopkins stjórnaði dansandi skaranum eins og her af strengjabrúðum. Ég hljóp síðan yfir í Norðurljósasalinn til að sjá restina af Kölch sem bauð líka upp tekknó, en þó nokkuð bjartara og poppaðra en Hopkins. En ekki síður skemmtilegt og ég hélt dansandi út í nóttina með bassatrommu í hverju hjartslagi.

Kvöldið var vel heppnað og hátíðin almennt farið mjög vel fram hingað til. Í kvöld eru það svo Major Lazer, James Holden og Trentemoller sem ég hlakka hvað mest til að sjá. Lesið um það á morgun en hér er hægt að lesa umfjöllun um fyrsta kvöld hátíðarinnar.

 

Davíð Roach Gunnarsson