Fyrstu tvö kvöld Airwaves

Mynd: Rúnar Sigurður Sigurjónsson

Fyrsta kvöldið fór rólega af stað í erlendu deildinni enn var hins vegar þéttpakkað af því besta og nýjasta í íslensku Hip hop-i. Ég hóf leikinn á off-venue dagskrá Straums í Bíó paradís á kuldalegu ljóðanýbylgjunni sem Kælan mikla hefur verið að fullkomna á undanförnum árum. Þvínæst sá ég Good Moon Deer á sama stað sem bauð upp á nokkuð tilraunakenndan bræðing þar sem flóknar taktpælingar og æst óhljóð mynduðu órofa heild sem var í senn erfið og áhugaverð.

 

Ég sat áfram í Bíóinu og sá rapparna Hrannar og Smjörva skopp út um allt af ungæðislegum krafti og rappa eins og lífið lægi við. Þótt það sé um mjög auðgugan garð að gresja í rappsenunni um þessar mundir þessir strákar með þeim allra efnilegustu. En GKR er nú orðinn einn allra besti rappari landsins og hann kom, sá og rokkaði stappfullt bíóið með eiturhressu rítalínrappi sínu.

 

 Tyggjókúlu- og hryllingsrapp

 

Áfram hélt rappið og í Hafnarhúsinu var Alvia Ilandia að keyra fólk í gang með tyggjókúlurappi þar sem Hello Kitty fagurfræðin var í algleymingi. Cyber voru næstar á svið og hrekkjavakan var greinilega ekki farin úr blóðinu þeirra því átta manns í goth-búningum báru líkkistu á svið sem þær Cyber-stelpur risu svo upp úr framreiddu fjölbreytt og skemmtilegt sett ofan í mannskapinn.

 

Fever Dream hélt Hressó funheitum með steravöxnu attitúdi og rappi af fítonskrafti. Svo hélt hún líka uppi kósí fjölskyldustemmningu og fékk bróðir sinn upp á svið til að rappa með sér. Halldór Eldjárn spilar rómantíska en framsækna raftónlist með hjálp róbóta á Húrra sem minnti um margt á sveitir eins og Royksopp. Svo hélt rappið áfram í Listasafninu þar sem helstu vonarstjörnur landsins eins og Birnir og Jói Pé x Króli og Joey Christ rokkuðu þakið af Hafnarhúsinu þangað til lög um vínveitingastaði stoppuðu keyrsluna.

 

 Heill skröttum

 

Fimmtudagskvöldið hófst með látum og djöfulgangi á Bar Ananas. Skrattar eru sagðir hakkaðasta banda landsins og standa undir því. Öskur, sálarmyrkur og úrkynjuð partýstemmning. Að púlla svoleiðis klukkan fimm um eftirmiðdag er ekki á færi allra, en greinilega þeirra. Hail Satan. Þá sá ég Tonik í Bíó Paradís sem kom fram með Jón Þór á gítar og spilaði aðallega nýtt efni sem hljómaði dúndurvel. Djúpsjávartekknó með lævísum melódíum sem hentar jafnt til heimahlustunar og í sveittum tekknókjöllurum. Þá ætlaði ég aftur á Bar Ananas að sjá Fufanu en komst ekki inn vegna mannmergðar, en það kom ekki að sök þar sem kuldarokkið hljómaði mjög vel fyrir utan og rokkstælarnir sáust vel inn um gluggann.

 

Hatari eru eitt besta life-band landsins um þessar mundir og sviku engan í Gamla Bíói þetta kvöld. Þeir voru í búningum sem voru mitt á milli nasisma og S&M, voru með flotta dansara, og heimsósómarausið blastaðist úr hljóðkerfinu meðan dansinn dunaði. Grísalappalísa hafa síðan engu gleymt þrátt fyrir þeir hafi ekki verið mikið aktívir undanfarið og fóru rokkhamförum á sviðinu og Tumi saxafónleikari átti stjörnuleik. Ég lokaði svo kvöldinu með tónleikum aYia í Bíó Paradís sem framreiddu rökkvað og tilraunakennt trip hop í myrkum bíósalnum sem hentaði þeim ákaflega vel.

Davíð Roach Gunnarsson

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *