Norsarinn Todd Terje hefur í yfir áratug verið einn af fánaberum hinnar svokölluðu geimdiskó-senu ásamt samlöndum sínum Lindstrom og Prins Thomas. Sá geiri keyrir mikið á samruna diskótónlistar og bernskuára raftónlistarinnar, retrófútúrisma með áherslu á rómantíska framtíðarsýn 7. og 8. áratugarins á tækniframfarir og geimferðir. Hugsið um kokteilboð í skýjaborginni úr Empire Strikes Back, diskótek í Deep Space Nine geimstöðinni, grafíkina á Moon Safari plötunni og búningahönnun og leikmynd Barbarellu.
Hann hefur getið sér gott orð fyrir ep-plötur og smáskífur á borð við Eurodans, Ragysh, Here come the Arps og nú síðast Inspector Norse sem tröllreið öllum dansgólfum sem fætur á festi sumarið 2012. Þá liggja eftir hann tugir ef ekki á annað hundrað endurhljóðblandanir, bæði af gömlum diskósmellum og nýrri listamönnum. En þrátt fyrir langan feril hefur hann aldrei áður reynt við breiðskífuformið fyrr en nú, á plötu sem ber hinn sjálfsmeðvitaða og galsafulla titil It’s Album Time … with Todd Terje.
Ástæðan fyrir þessum langa biðtíma er augljóslega ekki skortur á efni heldur að hann vildi vanda til verka og árangurinn er auðheyrður. Þetta er ekki samansafn af smáskífum heldur breiðskífa með stóru B- og R-i og áherslu á breidd. Hún hefur upphaf, miðju, endi og útpældar brýr og uppbyggingar þar á milli. Á plötunni er Terje er með annan fótinn á ströndinni en hinn út í geimi. En svo er hann líka með fullt af aukafótum sem hlaupa um dansgólf, kokteilboð, kvikmyndir, karnívöl og bara hvert sem þeim og Terje sýnist. Hann er tónlistarmaður með húmor fyrir sjálfum sér – en hann tekur húmorinn alvarlega og af barnslegri einlægni frekar en útjaskaðri kaldhæðni.
Upphafs- og titillagið er eins og tónlistin áður en tjaldið fellur og sýningin byrjar, upptaktur sem er ætlað að skapa eftirvæntingu. Leisure Suit Preben er fágaður lounge-djass með kosmískum undirtónum og Alfonso Muskedunder er 70’s spæjarafönk af bestu sort sem hljómar eins og eitthvað úr smiðju argentínska kvikmyndatónskáldsins Lalo Schifrin. Delorean Dynamite flýgur með þig upp fyrir gufuhvolfið og í fullkomnum heimi væri Strandbar þematónlist Ibiza frekar en David Guetta.
Terje sannar á plötunni að hann er algjört sándséní og hljóðheimurinn er hreint út sagt virtúósó. Þar dansa sembalar samba við sílófóna og bongótrommur bjóða léttfönkuðum gíturum upp í villtan vals. Í honum má líka finna píanó, strengi og örugglega tugi fermetra af effektarekkum sem líma alla þessa mismunandi parta saman. En hryggjarstykkið er samt hljóðgervlarnir sem eru undirliggjandi og alltumlykjandi og Todd Terje er yfirburðarmaður í þeirri deild. Hljómurinn stundum bjartur og tær eins og lækir í vorleysingum eða ægidjúpur bassi úr botni Kyrrahafsins. Synþarnir hljóma sitt á hvað eins og geimskip í flugtaki, ölduniður eða geislabyssur, allt eftir því hvaða andrúmslofti lagið kallar eftir. Sólóið í Preben goes to Acapulco á eftir að framkalla bros út að eyrnasneplum og glott upp að hársverði hjá öllum með púls sem á það hlýða.
Um miðbik plötunnar róar hann hana niður með hægasta tempóinu og eina sungna laginu, Johnny and Mary, sem Bryan Ferry ljær rödd sína og aldraðan elegans. Það líður þó ekki á löngu áður en hann keyrir allt í gang aftur og Swing Star Pt. 1 og 2 eru crescendó-ið yfir í lokahluta verksins. Oh Joy er sjö mínútna lúxusútsýnisferð um fjarlægar vetrarbrautir og innan þess má finna kjarnað þykkni af Giorgio Moroder, Vangelis, Jean Michel Jarre og Yellow Magic Orchestra. Lotningarfullur virðingarvottur við synþameistara fortíðarinnar og það lag á plötunni sem er mest í anda I Feel Space, flagggeimskips senunnar sem Lindstrom lagði úr höfn með fyrir ríflega tíu árum síðan.
Rúsínan í háfleygum pylsuendanum er svo Inspector Norse sem með sínu hoppandi skoppandi sci-fi diskói gæti fengið hreyfihamlaðan mann til að rísa upp úr hjólastólnum og valhoppa í takt. Það sem einkennir plötuna er tilgerðarlaus og óbeisluð gleði ásamt óskammfeilnum tilvísunum í ótöff tónlistarstefnur sem eru miklu meira hylling en hæðni. Platan er heilsteypt og aðgengileg og á erindi til aragrúa fleiri en venjulegra raftónlistarhausa. Þetta tónlistarár þarf að vera virkilega gott ef að þetta telst ekki með því allra besta sem gerðist á því við lok þess. Todd Terje hefur með þessum fljúgandi diski tekið forystuna í geimkapphlaupinu.
It’s Album Time with Todd Terje: 21 Volt af 24 mögulegum.
Davíð Roach Gunnarsson