1. í Airwaves – Straumur fer á flakk

Mynd: Alexander Matukhno

Það er alltaf mikil eftirvænting í loftinu fyrsta dag Airwaves hátíðarinnar og í ár var engin undantekning. Það er legið yfir útkrotuðum dagskrám og reynt að merkja við hljómsveitir sem maður er spenntur fyrir, skoða árekstra, og gá hvort að hægt sé að bæta þá upp með off-venue dagskránni. Fyrsta kvöldið voru nánast engin erlend bönd að spila en fréttaritari straums fór á gott flakk milli íslenskra hljómsveita þrátt fyrir nístingskuldann úti.

 

Leikurinn hófst á Kaffibarnum þar sem Gang Related höfðu komið sér fyrir úti í horni og sörf-rokkuðu fyrir bjórþyrsta hipstertúrista af mikilli innlifun. Reffileg riff og hressilegur samsöngur strákanna slógu góðan upptakt fyrir hátíðina og mér tókst að gleyma síberíska veðrinu úti og kúpla mig í rétta Airwaves-gírinn. Á eftir þeim tók stórsveitin Útidúr við með sitt hádramatíska indí popp. Þau léku mikið af nýju efni sem margt var undir sterkum áhrifum frá spagettívestratónlist Ennio Morricone, og tveir trompetleikarar sveitarinnar fóru á kostum.

Flæðandi fönk og seiðandi sveimur

Ég hafði hvorki séð né heyrt af bandinu Funk that shit! fyrir hátíðina en það var eitthvað við titilinn sem kallaði í mig svo ég hoppaði upp á hjólið og brunaði niður á Amsterdam. Á sviðinu voru þrír skjannahvítir strákar um tvítugt að fönka eins þeir væru að leika undir blaxplotation mynd frá 1972. Verkfærin voru gítar, bassi og trommur og þrátt fyrir að frumleikinn hafi ekki beint verið í fyrirrúmi var þetta afskaplega vandað og mikil flugeldasýning í hljóðfæraleik og sólóum. Þá hélt ég aftur upp eftir til að sjá raftónlistarmanninn Prince Valium spila á efri hæð Faktorý. Hann sat á bak við tölvu og mixer og uppsetningin var ekki mikið fyrir augun. Tónlistin var hins vegar gullfalleg; draumkennt, melódískt og seiðandi Ambíent sem er án efa gott að láta gæla við hljóðhimnurnar í góðum heyrnartólum.

Jakob Fusion Magnússon

Næst var förinni haldið í Hörpuna að sjá reggísveitina Ojba Rasta. Hún er að mínu mati eitt fremsta tónleikaband Íslands í dag og stóð svo sannarlega fyrir sínu í Silfurbergi í gær. Mikil orka og einlæg spilagleðin skein af þeim og undirritaður hefur sjaldan ef nokkurn tímann heyrt þau spila í jafn góðu hljóðkerfi. Þegar þarna var komið við sögu þurfti ég frá að hverfa í hljóðver X-ins til að ræða hátíðina í útvarpsarmi Straums. Eftir það var haldið aftur í Hörpuna til að sjá Jack Magnet Quintet-inn hans Jakobs Frímanns. Hann bauð upp á fusion djass með afrískum áhrifum með einvalaliði hljóðfæraleikara en Bryndís dóttir hans sá um söng.

Fer vel af stað

Lokaatriði kvöldsins voru svo Retro Stefson í Silfurbergi og þau tóku salinn með trompi. Þau spiluðu nánast einungi efni af nýútkominni plötu sem er samnefnd sveitinni og nutu aðstoðar Hermigervils á svuntuþeysurum, Sigtryggs Baldurssonar á áslætti og Sigríðar Thorlacios í bakröddum. Stuðstuðullinn var feikilega hár og náði hámarki í danskeppni sem Unnsteinn stjórnaði í lok tónleikanna.

 

Heilt yfir var fyrsta kvöld hátíðarinnar vel heppnað þrátt fyrir að hitastigið úti hafi verið álíka hátt og í Alaska. Þá er mikill missir af Nasa en margar sterkustu Airwaves minningar mínar eru þaðan og stemmningin í Hörpunni er einfaldlega ekki sú sama. Silfurberg er þó ágætis sárabót og um margt góður salur, sérstaklega þegar kemur að hljómburði og ljósabúnaði.

Davíð Roach Gunnarsson

Just Another Snake Cult Sjónvarpsviðtal

Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Fyrr þessu ári  gaf hljómsveitin út ep plötu í formi kasettu, Birds carried your song through the night, sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp. Við kíktum heim til Þóris Heydal söngvara og lagahöfundar Just Another Snake Cult þar sem hljómsveitin æfði fyrir Iceland Airwaves. Just Another Snake Cult koma fram á  Reykjavík Backpackers klukkan 20:00 í kvöld, í Bíó Paradís klukkan 15 á morgun og svo eru tónleikar þeirra á Iceland Airwaves á Gamla Gauknum annað kvöld klukkan 20:00.

Airwaves þáttur 5 – 31. október 2012

Í gærkvöldi var síðasti þátturinn af Airwaves sérþáttum Straums árið 2012 á dagskrá X-ins 977. Íslensku hljómsveitirnar Reykjavik! og Bypass kíktu í heimsókn, auk þess sem birt voru viðtöl við Dirty Projectors og Django Django.  Ritstjórn Straum.is fór einnig yfir það helsta á  hátíðinni í ár. Hlustið á viðtölin hér fyrir neðan.

 

1. hluti: viðtal við Reykjavík!

      1. air 5 1 reykjavík

2 hluti: viðtal við Django Django 

      2. air 5 2 django

3. hluti: viðtal við Bypass

      3. air 5 3 bypass

4. hluti: viðtal við Dirty Projectors

      4. Air 5 4 dirty

5. hluti: miði gefin og ritstjórn straum.is

      5. air 5 5 straum

 

 

 

 

Áhugavert á Airwaves – Seinni hluti

Django Django

Skoska hljómsveitin Django Django er tilnefnd til hinna virtu Mercury verðlauna í ár fyrir sína fyrstu plötu sem er samnefnd hljómsveitinni. Þar er á ferðinni ein af bestu plötu ársins þar sem sækadelía, þjóðlagatónlist og synþapopp mætast í afar bragðmikilli súpu. Django Django spila í Silfurbergssal Hörpu á miðnætti á laugardaginn.

Shabazz Palaces

Shabazz Palaces er skipuð bandaríska rapparanum Ishmael Butler og tónlistarmanninum Tendai ‘Baba’ Maraire. Ishmael þessi kallaði sig einu sinni Butterfly og var helsta sprautan á bak við hina dáðu og djössuðu hip hop sveit Digable Planets í upphafi tíunda áratugarins. Hann er ennþá að rappa en að þessu sinni er tónlistin tilraunakenndari og textarnir pólitískari. Fyrsta breiðskífa þeirra, Black Up, var gefin út af Sub Pop útgáfunni í fyrra og hlaut frábæra dóma gagnrýnenda. Shabazz Palaces koma fram á Þýska Barnum á miðnætti á fimmtudagskvöldinu.

Just Another Snake Cult

Lo-Fi skrýtipoppsveitin Just Another Snake Cult er einstaklingsverkefni Þóris Heydal en hann gaf út hina frábæru og fjölbreyttu plötu Dionysian Season árið 2010. Fyrr þessu ári gerðist hann svo li-fo að hann gaf út ep plötu í formi kasettu, Birds carried your song through the night, sem hefur að geyma draumkennt hljóðgerflapopp. Just Another Snake Cult koma fram klukkan 20:00 á Gamla Gauknum á föstudaginn.

 

Apparat Organ Quartet 

Orgelkvartettinn er fyrir löngu orðinn að stofnun í íslensku tónlistarlífi með tveimur plötum af rafrokkaðri orgeltónlist, meitlaðri sviðsframkomu og útpældri fagurfræði. Þeir spila þó ekki oft á tónleikum svo Airwaves er kærkomið tækifæri til að berja þessa snyrtilegu organista augum. Apparat stíga á stokk klukkan 22:10 í Silfurbergi á föstudagskvöldið.

Doldrums

Montrealbúinn Airick Woodhead hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir tónlist sem hann gefur út undir nafninu Doldrums. Kaótískt og brotakennt hávaðapopp hans ætti að vera ferskur andblær á Airwaves hátíðinni í ár en hann kemur fram klukkan 00:20 á fimmtudagskvöldinu í Iðnó.

Phantogram

Bandarísk indí-sveit sem hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir hugmyndaríkt popp og stóran hljóðheim. Stíga á svið í Listasafni Reykjavíkur klukkan 21:00 á fimmtudagskvöldið.

Hjálmar og Jimi Tenor

Reggísveitina Hjálma þarf ekki að kynna þar sem hún hefur verið með vinsælustu sveitum landsins undanfarin ár. Að undanförnu hafa þeir þó verið að vinna að plötu með finnska raftónlistarséníinu Jimi Tenor sem hefur spilað ótal sinnum á Íslandi, síðast í ágúst, og m.a. unnið með Gus Gus. Það eina sem hefur heyrst af samstarfinu er lagið fyrir neðan og verður spennandi að heyra meira. Hjálmarnir og tenórinn stíga á svíð á miðnætti í Silfurbergi á föstudagskvöldinu.

Theesatisfaction

Hip hop sveit frá Seattle skipuð rapparanum Stasiu “Stas” Iron og söngkonunni Catherine “Cat” Harris-White. Þær voru uppgvötaðar eftir að hafa verið gestir á Black Up plötu Shabazz Palaces og fyrsta breiðskífa þeirra var gefin út af Sub Pop útgáfunni á þessu ári. Þær koma fram á undan Shabazz Palaces klukkan 23:00 á Þýska barnum á fimmtudagskvöldið.

Ojba Rasta

Þessi mannmarga reggísveit hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir sína fyrstu breiðskífu sem kom út fyrir skemmstu og hafa fylgt henni eftir með miklu tónleikahaldi. Ojba Rasta spila klukkan 21:40 í Silfurbergi í kvöld.

 

Davíð Roach Gunnarsson

 

Áhugavert á Airwaves fyrri hluti

Fjórtánda Iceland Airwaves tónlistarhátíðin hefst í dag en hún hefur verið haldin í Reykjavík í októbermánuði ár hvert síðan 1999. Hátíðin hefur á þessum tíma þróast og tekið breytingum, en segja má að meginmarkmið hennar sé enn það sama – að kynna íslenska tónlist fyrir erlendum fjölmiðlum og plötuútgefendum. Á hverju ári er um margt úr að velja af öllum þeim frábæru erlendu og innlendu hljómsveitum og listamönnum sem fram koma á hátíðinni. Hér eru nokkur bönd sem við mælum með.

Dirty Projectors

Dirty Projectors hefur þróast á skömmum tíma úr því að vera skúffuverkefni eins manns yfir í eina af metnaðarfyllstu tilraunarokkhljómsveitum samtímans. Í sumar gaf hljómsveitin út sína sjöttu plötu Swing Lo Magellan. David Longstreth söngvari og lagasmiður sveitarinnar sá um allar upptökur á plötunni, sem stóðu yfir í heilt ár. Hann samdi yfir 40 lög fyrir hana þótt aðeins 12 þeirra hafi ratað á endanlega útgáfu hennar. Dirty Projectors munu spila í Listasafni Reykjavíkur á laugardaginn klukkan 0:00.

Hér má lesa um sögu Dirty Projectors

Hér er pistill um sögu Dirty Projectors:

      1. Útvarpspistill um Dirty Projectors

 

 

Purtiy Ring

Kanadíska dúóið Purity Ring gaf út nokkrar sterkar smáskífur á árinu 2011 og sendu frá sér sína fyrstu stóru plötu á þessu ári sem hefur fengið góðar viðtökur gagnrýnenda. Purity Ring samanstendur af þeim James og Corin Roddick sem hafa gefið fá viðtöl og haldið myndum af sér frá fjölmiðlum. Purity Ring mun spila á Listasafni Reykjavíkur klukkan 23:00 á fimmtudaginn.

 

DIIV

Brooklyn hljómsveitin DIIV sem hét upphaflega Dive var stofnuð árið 2011 sem sólóverkefni gítarleikara Beach Fossils – Zachary Cole Smith. Fyrsta stóra plata hljómsveitarinnar Oshin kom út í sumar. Platan er full af skemmtilega útpældu gítarrokki af bestu gerð. Hljómsveitin kemur fram á Bella Union kvöldinu í Iðnó á laugardaginn klukkan 0:25.

 

I Break Horses

Sænska hljómsveitin I Break Horses gaf út sína fyrstu plötu í fyrra sem ber nafnið Hearts. Á plötunni blandar hljómsveitin saman áhrifum frá shoe-gaze rokki tíunda áratugarins við nútíma raftónlist með góðum árangri. I Break Horses kemur fram á Bella Union kvöldinu í Iðnó á laugardaginn klukkan 23:30.

Viðtal sem við tókum við I Break Horses: 

      2. Airwaves 3 2

 

Ghostpoet

Breski rapparinn Ghostpoet sem heitir réttu nafni Obaro Ejimiwe kemur frá  Suður-London. Hann gaf út EP-plötu árið 2010 en hans fyrsta plata Peanut Butter Blues & Melancholy Jam kom út árið 2011 og var tilnefnd til Mercury-verðlaunanna.  Ghostpoet hefur verið líkt við listamenn á borð við Mike Skinner og Dizzee Rascal og má flokka undirspilið sem blöndu af allskyns nútíma raftónlist. Hann kemur fram á Þýska barnum á laugardaginn klukkan 23:20.

Friends

Nafnið á hljómsveitinni Friends kemur frá uppáhalds Beach Boys plötu Brian Wilsons. Hljómsveitin kemur frá Brooklyn í New York og spilar metnaðarfullt popp sem sungið er af hinni frábæru söngkonu Samantha Urbani. Hljómsveitin sem  hefur getið sér gott orð fyrir  tónleikahald mun koma fram á Listasafni Reykjavíkur klukkan 23:00 á laugardaginn.


Swans

Hljómsveitin Swans var stofnuð í New York árið 1982 af Michael Gira og starfaði til ársins 1997. Fyrir rúmum tveimur árum ákvað Gira að endurvekja þessa goðsagnakenndu  No Wave hljómsveit með nýjum áherslum. Sveitin hefur síðan gefið út tvær plötur sem báðar hafa fengið góða dóma. Swans spila í Norðurljósasal Hörpu á fimmtudaginn klukkan 23:30. Swans komast ekki útaf fellibylnum Sandy, en íslenski snillingurinn Mugison kemur í þeirra stað!

Viðtal sem við tókum við Swans: 

      3. Airwaves 2 4 hluti

Hér má heyra lagið Song For A Warrior af síðustu plötu Swans sungið af Karen O úr Yeah Yeah Yeahs

Haim

Systra tríóið Haim kemur frá Los Angeles og spila tónlist sem minnir á  rokksveitir 8. áratugarins. Hljómsveitin stefnir að útgáfu sinnar fyrstu plötu von bráðar. Haim spila á Gamla Gauknum fimmtudaginn 1. nóvember klukkan 0:10.

Captain Fufanu

Hrafnkell Flóki Kaktus Einarsson og Guðlaugur Halldór Einarsson skipa raftónlistar dúóið Captain Fufanu sem hefur verið starfrækt frá árinu 2008 og hefur getið sér gott orð fyrir öfluga tónleika sem svíkja engan sem hafa gaman af metnaðarfullri raftónlist. Captain Fufanu kemur frá á efri hæð Faktorý klukkan 0:20 á föstudaginn.

 

Pascal Pinon

Hljómsveitin sem  skipuð er tvíburasystrunum Jófríði og Ásthildi Ákadætrum hefur verið virk frá árinu 2009. Hljómsveitin sendir frá sér sína aðra plötu Twosomeness í dag sem óhætt er að mæla með.  Hljómsveitin kemur fram á sérstöku kvöldi Morr Music á Iceland Airwaves í Iðnó í kvöld.

Ekki Vanmeta – Pascal Pinon

      4. 01 Ekki Vanmeta

 

Sin Fang

Sindri Már Sigfússon forsprakki Sin Fang lísti því yfir í Iceland Airwaves sérþætti straums á dögunum að ný plata með hljómsveitinni væri væntanleg snemma á næsta ári. Hlustið á viðtalið hér fyrir neðan. Sing Fang kemur fram á sérstöku kvöldi Morr Music á Iceland Airwaves í Iðnó í kvöld og á Listasafni Reykjavíkur klukkan 22:00 á laugardaginn.

Viðtal við Sindra

      5. Airwaves 2 1 hluti

Nolo

Ívar Björnsson og Jón Lorange sem skipa hljómsveitina Nolo hafa sent frá sér nokkur frábær demó upp á síðkastið sem gefa til kynna að þriðja plata Nolo verði ekki úr þessum heimi. Sveitin kemur fram á Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn klukkan 20:00.

Elektro Guzzi

Austurríska teknósveitin Elektro Guzzi hefur vakið athygli fyrir skemmtilega sviðsframkomu á mörgum af helstu tónlistarhátíðum í Evrópu undanfarið ár. Hljómsveitin spilar á efri hæðinni á Faktorý á föstudaginn klukkan 1:10.

The Vaccines

Ein af vinsælustu gítarrokk hljómsveitum breta síðustu misseri inniheldur íslendinginn Árna Hjörvar sem áður var í hljómsveitunum Future Future og Kimono. Hljómsveitin spilar á Listasafni Reykjavíkur á föstudaginn klukkan 0:00.

Viðtal sem tókum við Árna Hjörvar úr The Vaccines: 

      6. Airwaves 2 2 hluti

Óli Dóri 

Remix og myndband með Ojba Rasta

Lagið Jolly Good með reggíhljómsveitinni Ojba Rasta hefur nú verið klætt upp í spánýjan búning með endurhljóðblöndun og myndbandi. Það er svuntuþeysarasérfræðingurinn Hermigervill sem sér um remixið en hann hefur á síðustu tveimur plötum sínum klætt íslensk dægurlög í rafrænan búning og telst því sérfræðingur í faginu. Myndbandið er eftir Hauk Valdimar Pálsson en í því fylgjumst við með einmana mótorhjólakempu í asa stórborgar sem að hverfur inn í afrískt draumaland eftir að hafa reykt skrýtna sígarettu. Horfið á myndbandið hér fyrir neðan.

Lagalisti vikunnar – Straumur 225

1. hluti

      1. 225 1

2. hluti

      2. 225 2

3. hluti

      3. 225 3

1) Lost Songs – …And You Will Know Us By The Trail Of Dead

2) Time Again – …And You Will Know Us By The Trail Of Dead

3) So Good To Me – Chris Malinchak

4) Jolly Good (Hermigervill remix) – Ojba Rasta

5) Braves – John Talabot & Pional

6) Enemy (Poupon’s Take It Slow’ Edit) – The Weeknd

7) Ekki Vanmeta – Pascal Pinon

8) Þerney (One Thing) – Pascal Pinon

9) Border Crosser – Trails And Ways

10) New York (King Krule remix) – Angel Haze

11) Cleanin’ Out My Closet – Angel Haze

12) Welcome To The Now Age – Prince Rama

13) Put Me To Work – PAPA

14) Here We Go – Christopher Owens

Önnur plata Pascal Pinon

Önnur plata íslensku hljómsveitarinnar Pascal Pinon  kemur út hjá þýska plötufyrirtækinu Morr Music á miðvikudaginn. Platan sem ber nafnið  Twosomeness var tekin upp af Alex Somers sem hefur áður unnið með Sin Fang, Úlfi, Jónsa og Sigur Rós. Hljómsveitin er  skipuð tvíburasystrunum Jófríði og Ásthildi Ákadætrum og hefur verið virk frá árinu 2009.

Hljómsveitin kemur fram á sérstöku kvöldi Morr Music á Iceland Airwaves í Iðnó á miðvikudagskvöld. Þar munu einnig koma fram hljómsveitarinnar FM Belfast, Prinspóló, Sóley og Sin Fang. Twosomeness inniheldur 12 lög og eru textar fluttir á íslensku, ensku og sænsku. Hlustið á þrjú lög af plötunni hér fyrir neðan.

Ekki vanmeta – á íslensku

      1. 01 Ekki Vanmeta

Þerney (one thing) – á ensku

      2. 02 Þerney (One Thing)

Fernando – á sænsku

      3. 10 Fernando