John Carpenter á ATP 2016

Bandaríski leikstjórinn og tónskáldið John Carpenter kemur fram á ATP  á Ásbrú á næsta ári. Þetta verður í fyrsta sinn í sögunni þar sem John Carpenter flytur tónlist sína opinberlega og í eigin persónu. Hann kemur til með að leika mörg af sínum þekktustu verkum ásamt lögum af nýju plötunni sinni Lost Themes auk nýrra tónverka.

John Carpenter er brautryðjandi þegar kemur að tónlist og kvikmyndum. Hann hefur samið tónlist við eigin kvikmyndir en um leið gert nokkur eftirminnilegustu kvikmyndaskor sem samin hafa verið fyrir spennu- og hryllingsmyndir. Nefna má myndir eins og Dark Star (1974), Assault on Precinct 13 (1976), Halloween (1978), The Fog (1980), Escape from New York (1981), Christine (1983), Starman (1984), Big Trouble in Little China (1986), Prince of Darkness (1987) og They Live (1988) sem dæmi um það.

Kvikmyndatónlist Carpenters er þeim gæðum gædd að hún lifir góðu lífi fyrir utan bíósalinn. Það má auðveldlega fjarlægja hana úr kvikmyndunum sem hún fylgir og njóta áfram. Áhrif tónlistarinnar eru slík. Kaldur hljómur endurtekninga og rafmögnuð tónlistin hrífa hlustandann með sér í ferðalag um undraheima fulla af fegurð en líka ævintýra, tryllings og spennu. Það er nánast ómögulegt að hugsa sér kvikmyndaáhugafólk sem ekki þekkir hljóðheim John Caprenters því hann er í einu orði sagt einstakur. Nægir að nefna tónlistina úr Halloween því til sönnunar.

Í febrúar síðastliðnum sendi John Carpenter frá sér sína fyrstu plötu á löngum ferli sem saman stendur af nýjum tónsmíðum og lögum sem ekki eru saman sérstaklega fyrir bíómyndir. PlatanLost Themes, gefin út hjá Sacred Bones Records, hefur fengið einróma lof gagnrýnenda en hún hefur einnig komist inn á vinsældarlista bæði í Bretlandi og í Bandaríkjunum. Lost Themeshljóðritaði John Carpenter með syni sínum Cody Carpenter og Daniel Davies en þeir munu koma fram á tónleikunum á Íslandi ásamt tónskáldinu auk hljómsveitar og tilkomumikillar sviðssetningar.

Tilkynnt verður um fleiri listamenn síðar en ATP á Íslandi er líkt og áður haldið á Ásbrú í Keflavík. Boðið er upp á tónlist á tveimur sviðum innandyra auk þess sem sýndar verða sérvaldar kvikmyndir, keppt í PopQuiz, dansað við dj-tóna í diskósal og margt fleira. Meðal listamanna sem komið hafa fram á ATP á Íslandi síðustu þrjú ár má nefna Nick Cave and the Bad Seeds, Portishead, Iggy Pop, Neil Young & Crazy Horse og Public Enemy.