Tónleikahelgin 10. – 12. apríl

Fimmtudagur 10. apríl 

Kammersveit Hallvarðs Ásgeirssonar kemur fram í Mengi við Óðinsgötu. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það kostar 2000 kr inn. 

Bugun, Drulla og Pungsig koma fram á Dillon. Það er frítt inn og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00

Á Gamla Gauknum heldur hátíðin Gerum upp Gaukinn áfram með rapp og hipp hopp kvöldi þar sem Reykjavíkurdætur, Cryptochrome, Cesar A, Lamako og MC Bjór og Bland koma fram.  Festivalpassi kostar 5000 kr en stök kvöld 1500 kr. Húsið opnar 21:00

 

Föstudagur 11. apríl 

Belgíska hljómsveitin Augures kemur fram í Lucky Records klukkan 16:15

Sin Fang tónleikar í Mengi við Óðinsgötu. Miðaverð er 2000 kr og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00

Hljómsveitirnar Elín Helena, Morgan Kane og Pungsig leiða saman hesta sína með tónleikum á Dillon. Frítt inn og hefjast leikar klukkan 21:35

Canis og Trust The Lies halda tónleika á Dillon. Það er frítt inn og hefjast tónleikarnir klukkan 21:00

Á Gamla Gauknum heldur hátíðin Gerum upp Gaukinn áfram með þunkarokks kvöldi þar sem Darknote, Wistaria, Endless Dark, Bootlegs, Angist og Muck koma fram.  Húsið opnar 21:00

 

 

Laugardagur 12. apríl 

Á Gamla Gauknum fer fram lokakvöld hátíðarinnar Gerum upp Gaukinn með með tónleikum frá Nolo, Kviku, Johnny and the rest og kimono. Húsið opnar 21:00

Belgíska hljómsveitin Augures kemur fram ásamt Godchilla og Pyrodulia á Harlem. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00

Blúshátíð í Reykjavík hefst  kl. 14 á Skólavörðustígnum með böski frá  fremstu blúsurum landsins.  Landslið blúsara böska frá kirkju og niðurúr. Tónleikar á Borgarbókasafni kl 16. Urmull óvæntra atriða alla hátíðadagana en hátíðin stendur til 17. apríl. 

The War on Drugs á Iceland Airwaves

Skipuleggjendur Iceland Airwaves tilkynntu í dag fleiri listamenn sem koma fram á hátíðinni í ár en alls verða þeir um 200. Iceland Airwaves-hátíðin verður haldin í sextánda sinn í ár, dagana 5. til 9. nóvember og er undirbúningur í fullum gangi. Miðasalan er hafin á heimasíðu Iceland Airwaves.

Þeir listamenn sem nú bætast við listann eru:
The War on Drugs (US), sem munu loka hátíðinni ásamt Flaming Lips sunnudaginn 9. nóvember.
Caribou (CA)
Future Islands (US)
Oyama
Farao (NO)
Kaleo
Zhala (SE)
Spray Paint (US)
Rökkurró
Emilie Nicolas (NO)
Endless Dark
Kippi Kaninus
King Gizzard & The Lizard Wizard (AU)
Brain Police
Beneath
Þórir Georg
Fufanu
Epic Rain
Skurken
AMFJ
Kontinuum
Ophidian I
Var
Atónal Blús
Mafama
Vio
Lucy in Blue
Conflictions

Rafmagnsstólinn: Jón Gabríel í Nolo

 

Á dögunum áskotnaðist ritstjórn Straums forláta stóll úr yfirgefnu fangelsi í Texas. Þetta gerðarlega húsgagn væri synd á láta liggja ónotað og þess vegna kynnum við til leiks nýjan lið á síðunni; Rafmagnsstólinn! Í hverri viku fáum við tónlistarmann til að setjast í stólinn, bindum hann niður og hleypum á hann 2400 volta straumi þannig hann grillist vel og vandlega. Í fyrstu leiðir þetta til þvag- og saurmissis en að lokum endar raflostið með því að listamennirnir segja okkur frá sínum dýpstu órum og leyndarmálum, sem við munum svo birta samviskusamlega hér á síðunni.

Að þessu sinni var það Jón Gabríel Lorange söngvari og gítarleikari Nolo sem var grillaður en hann hefur síðustu misseri einbeitt sér ásamt öðrum hljómsveitarmeðlimum að nýrri Nolo plötu.

 

Hvaða tónlistarmann/hljómsveit myndiru mest vilja hita upp fyrir? 

Ég væri mest til í að hita upp fyrir Kalla Bjarna, ekki grín.

 

Hvað er besta tónlistin sem þú hefur uppgötvað á árinu? 

lagið Dance of the Knights með Serguei Prokofiev.

Hvað er uppáhalds kvikmyndatónskáldið þitt/uppáhalds tónlist í bíómynd?

Uppáhalds kvikmyndatónskáldið mitt er Howard Shore, uppáhalds tónlist í bíómynd er í Stanley Kubrick myndinni Barry Lyndon eða Shining!

 

Hvað er uppáhalds tímabilið þitt í tónlistarsögunni (og af hverju?)

Ég á mér ekkert eitt uppáhalds tímabil í tónlistarsögunni en 20. öldin stendur þó uppúr.

 

 

Hvað er 5 mest spiluðu lögin og í iTunes-inu þinu?

Ég er eiginlega bara með Nolo lög og mín lög á Itunes. Þannig það er svarið við því. Annars nota ég Youtube, vínyl og ipod til að hlusta á aðra tónlist.

 

 

Hvað eru bestu tónleikar sem þú hefur séð nýlega (undanfarið ca. ár)?

Bestu tónleikar sem ég hef séð “nýlega” eru örugglega Dirty Projectors á Airwaves 2012.

Hvað er uppáhalds tónleikastaðurinn þinn (íslandi / erlendis)?

Það eru ekki margir tónleikastaðir á Íslandi um þessar mundir en mér fannst Faktorý alltaf bestur. Annars eigum við eftir að spila á Paloma! Og gerum það 19. apríl!

 

Uppáhalds plötuumslag? 

líklegast þarna Santana platan með svörtum manni að halda á hvítum fugli. Man ekki hvað hún heitir… (Greatest Hits)

 

Þekkirðu Jakob Frímann (ef svo hvernig? hefurðu hitt hann?)? 

Hver er Jakob Frímann? Er hann á Bylgjunni?

 

Hvaða tónlistarmönnum lífs eða liðnum værirðu helst til í að taka jam-session með?

Ég myndi vilja taka jam-session með mjög mörgum en fyrsti sem kemur upp í huga er Bob Marley. Ég sendi honum e-mail um árið um hvort hann vildi syngja með Nolo, ekkert svar borist enn.

 

Ef þú mættir velja einn rappara til að vinna með, hver væri það?

Ég væri mest til í að vinna með TUPAC SHAKUR!

 

Ef þú gætir unnið með hvaða upptökustjóra sem er , hver myndi það vera?

Ég myndi mest vilja vinna með upptökustjóranum George Martin, fimmti bítillinn.

 

 

Hvaða plata fer á á rúntinum? 

eitthvað rokkað og sultað eins og Master of Reality með Black Sabbath.

Hvað var síðasta tónlist sem þú keyptir?

Síðasta tónlist sem ég keypti var Leonard Cohen plata sem gjöf.

 

Hvað er neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í á tónleikum?

Þegar ég sleit 3 strengi í einni stroku.

 

Hvað lætur þú á fóninn í fyrirpartínu á laugardagskvöldi?

Líklega þessa Santana plata sem ég minntist á áðan.

 

Enn í eftirpartínu?  

Í eftirpartíinu myndi ég setja á einhverja seiðandi píanótónlist með Debussy, já eða Erik Satie.

 

Hver er frægasti Facebook vinur þinn?

Ívar Björnsson er frægasti facebook vinur minn.

 

Uppáhalds borgin þín?  Reykjavík

 

 

Þið eruð að vinna að nýrri plötu, hvaða fimm orð myndu lýsa henni best?

sniðug, snúin, safarík, inlegg og epli.

 

Hvaðan kemur nafnið Nolo?

Nafnið Nolo birtist Ívari í draumi þar sem hann var á ferðalagi um Tyrkland með ferðafélaga sem var fjallageitin Nolo.

Joan Jett frontar Nirvana

Tónlistarkonan Joan Jett mun að öllum líkindum koma fram með Nirvana þegar hljómsveitin verður vígð inn í frægðarhöll rokksins núna á fimmtudaginn. Dave Grohl trommari sveitarinnar birti mynd á Instagram síðu  Foo Fighters af bassa Krist Novoselic, gítar Pat Smear, sínu eigin trommusetti auk gítar Joan Jett. Myndina má sjá hér fyrir ofan. Fyrir neðan má sjá Jett flytja tvö af sínum frægustu lögum ásamt Foo Fighters. Á laugardaginn voru 20 ár frá því að Kurt Cobain söngvari, gítarleikari og lagahöfundur Nirvana lést.

Beðið eftir tUnE-yArDs

Lagið Wait For A Minute með tónlistarkonunni tUnE-yArDs var rétt í þessu sleppt á internetið en það er önnur smáskífan af breiðskífunni Nikki Nack sem kemur út 5. maí á vegum 4AD útgáfunnar. Lagið fylgir í kjölfarið á hinu frábæra Water Fountain sem kom fyrir um mánuði síðan. Nikki Nack er þriðja breiðskífa tUnE-yArDs en önnur plata hennar, Whokill, skoraði hátt á árslistum flestra gagnrýnenda þegar hún kom út árið 2011. Sama ár sótti hún Ísland heim á Iceland Airwaves hátíðina og lék á frábærum tónleikum fyrir stappfullum Nasa salnum. Þessi fyrstu lög sem heyrast af nýju plötunni sverja sig í ætt við fyrri verk tónlistarkonunnar, en hljóðheimurinn er þó ögn stafrænni og slípaðri en áður. Hlustið á Wait For A Minute og Water Fountain hér fyrir neðan.

Straumur 7. apríl 2014

Í Straumi í kvöld kíkjum við á nýtt efni frá Avey Tare, Hamilton Leithauser, White Hinterland, Lone og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur 7. apríl 2014 by Straumur on Mixcloud

1) 2 is 8 – Lone
2) 11 O’clock Friday Night – Hamilton Leithauser
3) A Sender – Avey Tare’s Slasher Flicks
4) Duplex Trip – Avey Tare’s Slasher Flicks
5) That It Won’t Grow – Avey Tare’s Slasher Flicks
6) Echo – Architecture In Helsinki
7) Goodess – Chrome Sparks
8) Still Amateaur – Amateur Dance
9) New Light – Woods
10) Moving To The Left – Woods
11) Twin Steps – Woods
12) High Ball Stepper – Jack White
13) Coming Down – Clap Your Hands Say Yeah!
14) In These Arms Of Love – Cut Copy
15) Ring the Bell – White Hinterland
16) Baby – – White Hinterland
17) Blabb Í Bátnum – Syrgir Digurljón

Tónleikahelgin 3.-5. apríl

 

Fimmtudagur 3. apríl

 

Mono Town fagnar útgáfu frumburðar síns „In The Eye Of The Storm“ með veglegum tónleikum í Gamla Bíói. Sveitin mun koma fram með strengjasveit og kór en tónlistarmaðurinn Júníus Meyvant hitar upp. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 2900 krónur.

 

Bergur Thomas Anderson kemur fram á tónleikum í Mengi við Óðinsgötu. Bergur hefur getið sér gott orð sem bassaleikari með sveitum eins og Grísalappalísu, Oyama og Sudden Weather Change en hann hefur ekki komið fram einn síns liðs í þónokkurn tíma. Hann sækir efnivið í minningar, draumaóra, frjálsan spuna og einkennist flutningurinn af samtali sem stöðugt er í þróun. Gestum er því boðið í ský sem vex um sig og hverfur þegar á er litið. Aðgangseyrir er 2000 krónur og tónleikarnir hefjast klukkan 21:00.

 

Í Grafarvogskirkju verður fyrsta kvöldið af þremur þar sem Megas flytur lög sín við Passíusálma Hallgríms Péturssonar. Með Megasi verður einvalalið tónlistarfólks úr ýmsum áttum; Moses Hightower, CAPUT-hópurinn, Magga Stína, stór rokksveit, strengjasveit og þrír kórar. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 3.900 krónur.

 

Hemúllinn stundar samfélagsrýni af hörðust sort á Dillon í tilefni af því að aprílmánuður er nýhafinn. Stungið verður á kýlum og landlæg spilling upprætt með tölvupönki. Herlegheitin hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis.

 

Föstudagur 4. apríl

 

Rappkonukvöld verður haldið á Harlem en þar munu Reykjavíkurdætur koma fram í sameiningu og frumflytja nýtt lag. Þá munu meðlimir þeirra einnig flytja eigið efni, sóló og í pörum, en Sunna Ben þeytir skífum á milli atriða. Kvöldið hefst klukkan 21:00 og það er ókeypis inn.

 

Soizic Lebrat kemur fram í mengi og flytur verk sitt Blue Solo. Lebrat er franskur sellóleikari sem hefur leikið ‘Bleu Solo’ verkið á fjölda listahátíða frá því hún frumflutti það á Nexmap – Binary City hátíðinni í San Francisco listahátíðinni 2010. Flutningurinn hefst klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Skúli mennski ætlar að mæta örlögum sínum á Café Rosenberg. Með honum verða góðir menn og óhætt að segja að enginn verði illa svikinn af því að mæta og leggja við hlustir. Hefst klukkan 22:00.

 

Eyðimerkurrokkararnir í Brain Police koma fram á tónleikum á Dillon. Leikar hefjast 22:00 og 500 krónur veita aðgang að þeim.

 

Elín Helena og Muck koma fram á Bar 11. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og það er ókeypis inn.

 

Laugardagur 5. apríl

 

Úrslitakvöld Músíktilrauna fer fram í Norðurljósasal Hörpu. Viðburðurinn hefst klukkan 17:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

 

DÓH tríóið kemur fram í Mengi við Óðinsgötu. Það er samansett af Helga Rúnari Heiðarssyni á saxófón, Daníel Helgasyni á gítar og Óskari Kjartanssyni á trommur sem allir er nýútskrifaðir úr Tónlistaskóla FÍH. Hljómsveitin hefur fengið mikið lof fyrir tónleika sína þar sem mikið er lagt uppúr dínamík, allt frá hvíslandi tónum upp í orkumikla spennu. Tríóið leikur lög úr ýmsum áttum, m.a. frumsamið efni þar sem spilagleði og spuni fær að njóta sín. Tónleikarnir hefjast 21:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

 

Það verða þungarokkstónleikar á Gauk á Stöng en fram koma Momentum, Angist, Malignant Mist og Future Figment. Þetta hefst klukkan 22:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Þeir Pétur Ben og Rúnar Þórisson koma fram á tónleikum á Bar 11 ásamt gestum. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og það er ókeypis inn.

Spennumælir: It’s Album Time með Todd Terje

Norsarinn Todd Terje hefur í yfir áratug verið einn af fánaberum hinnar svokölluðu geimdiskó-senu ásamt samlöndum sínum Lindstrom og Prins Thomas. Sá geiri keyrir mikið á samruna diskótónlistar og bernskuára raftónlistarinnar, retrófútúrisma með áherslu á  rómantíska framtíðarsýn 7. og 8. áratugarins á tækniframfarir og geimferðir. Hugsið um kokteilboð í skýjaborginni úr Empire Strikes Back, diskótek í Deep Space Nine geimstöðinni, grafíkina á Moon Safari plötunni og búningahönnun og leikmynd Barbarellu.

 

Hann hefur getið sér gott orð fyrir ep-plötur og smáskífur á borð við Eurodans, Ragysh, Here come the Arps og nú síðast Inspector Norse sem tröllreið öllum dansgólfum sem fætur á festi sumarið 2012. Þá liggja eftir hann tugir ef ekki á annað hundrað endurhljóðblandanir, bæði af gömlum diskósmellum og nýrri listamönnum. En þrátt fyrir langan feril hefur hann aldrei áður reynt við breiðskífuformið fyrr en nú, á plötu sem ber hinn sjálfsmeðvitaða og galsafulla titil It’s Album Time … with Todd Terje.

Ástæðan fyrir þessum langa biðtíma er augljóslega ekki skortur á efni heldur að hann vildi vanda til verka og árangurinn er auðheyrður. Þetta er ekki samansafn af smáskífum heldur breiðskífa með stóru B- og R-i og áherslu á breidd. Hún hefur upphaf, miðju, endi og útpældar brýr og uppbyggingar þar á milli. Á plötunni er Terje er með annan fótinn á ströndinni en hinn út í geimi. En svo er hann líka með fullt af aukafótum sem hlaupa um dansgólf, kokteilboð, kvikmyndir, karnívöl og bara hvert sem þeim og Terje sýnist. Hann er tónlistarmaður með húmor fyrir sjálfum sér – en hann tekur húmorinn alvarlega og af barnslegri einlægni frekar en útjaskaðri kaldhæðni.

 

Upphafs- og titillagið er eins og tónlistin áður en tjaldið fellur og sýningin byrjar, upptaktur sem er ætlað að skapa eftirvæntingu. Leisure Suit Preben er fágaður lounge-djass með kosmískum undirtónum og Alfonso Muskedunder er 70’s spæjarafönk af bestu sort sem hljómar eins og eitthvað úr smiðju argentínska kvikmyndatónskáldsins Lalo Schifrin. Delorean Dynamite flýgur með þig upp fyrir gufuhvolfið og í fullkomnum heimi væri Strandbar þematónlist Ibiza frekar en David Guetta.

Terje sannar á plötunni að hann er algjört sándséní og hljóðheimurinn er hreint út sagt virtúósó. Þar dansa sembalar samba við sílófóna og bongótrommur bjóða léttfönkuðum gíturum upp í villtan vals. Í honum má líka finna píanó, strengi og örugglega tugi fermetra af effektarekkum sem líma alla þessa mismunandi parta saman. En hryggjarstykkið er samt hljóðgervlarnir sem eru undirliggjandi og alltumlykjandi og Todd Terje er yfirburðarmaður í þeirri deild. Hljómurinn stundum bjartur og tær eins og lækir í vorleysingum eða ægidjúpur bassi úr botni Kyrrahafsins. Synþarnir  hljóma sitt á hvað eins og geimskip í flugtaki, ölduniður eða geislabyssur, allt eftir því hvaða andrúmslofti lagið kallar eftir. Sólóið í Preben goes to Acapulco á eftir að framkalla bros út að eyrnasneplum og glott upp að hársverði hjá öllum með púls sem á það hlýða.

Um miðbik plötunnar róar hann hana niður með hægasta tempóinu og eina sungna laginu, Johnny and Mary, sem Bryan Ferry ljær rödd sína og aldraðan elegans. Það líður þó ekki á löngu áður en hann keyrir allt í gang aftur og Swing Star Pt. 1 og 2 eru crescendó-ið yfir í lokahluta verksins. Oh Joy er sjö mínútna lúxusútsýnisferð um fjarlægar vetrarbrautir og innan þess má finna kjarnað þykkni af Giorgio Moroder, Vangelis, Jean Michel Jarre og Yellow Magic Orchestra. Lotningarfullur virðingarvottur við synþameistara fortíðarinnar og það lag á plötunni sem er mest í anda I Feel Space, flagggeimskips senunnar sem Lindstrom lagði úr höfn með fyrir ríflega tíu árum síðan.

Rúsínan í háfleygum pylsuendanum er svo Inspector Norse sem með sínu hoppandi skoppandi sci-fi diskói gæti fengið hreyfihamlaðan mann til að rísa upp úr hjólastólnum og valhoppa í takt. Það sem einkennir plötuna er tilgerðarlaus og óbeisluð gleði ásamt óskammfeilnum tilvísunum í ótöff tónlistarstefnur sem eru miklu meira hylling en hæðni. Platan er heilsteypt og aðgengileg og á erindi til aragrúa fleiri en venjulegra raftónlistarhausa. Þetta tónlistarár þarf að vera virkilega gott ef að þetta telst ekki með því allra besta sem gerðist á því við lok þess. Todd Terje hefur með þessum fljúgandi diski tekið forystuna í geimkapphlaupinu.

It’s Album Time with Todd Terje: 21 Volt af 24 mögulegum.

Davíð Roach Gunnarsson

Lady Boy Records 004

Útgáfufyrirtækið Lady Boy Records sem stofnað var í fyrra gaf í gær út sína aðra  safnplötu Lady Boy Records 004. Að plötuútgáfunni standa þeir Frímann Ísleifur Frímannsson og Nicolas Kunysz og kom safnplatan út á kassettu í 50 eintökum. Fist Fokkers, AMFJ, Dj. Flugvél og geimskip eiga lög á plötunni ásamt fleirum. Hlustið hér fyrir neðan

Aldrei fór ég suður 2014 listi

Tíu ára afmælishátíð Aldrei fór ég suður fer fram á Ísafirði dagana 18. og 19. apríl næstkomandi. Umstillingarnefnd hátíðarinnar tilkynnti fyrr í dag listamennina sem koma fram í ár.

★ Cell7
★ Contalgen Funeral
★ Dj. Flugvél og geimskip
★ Dusty Miller
★ Glymskrattinn
★ Grísalappalísa
★ Helgi Björnsson og stórsveit Vestfjarða
★ Hemúllinn
★ Hermigervill
★ Highlands
★ Kaleo
★ Kött grá pjé
★ Lína Langsokkur
★ Lón
★ Mammút
★ Markús and the Diversion Sessions
★ Maus
★ Retro Stefson
★ Rhythmatic
★ Rúnar Þórisson
★ Sigurvegarar músíktilrauna 2014 (að því gefnu að þeir vilji koma)
★ Snorri Helgason
★ Sólstafir
★ Tilbury
★ Þórunn Arna Kristjánsdóttir og búgíband Skúla mennska