Grísalappalísa syngur Megas

Reykvíska hljómsveitin Grísalappalísa gefur út 7 tommu vinylplötu á morgun, fimmtudaginn 14. nóvember.  Platan ber nafnið Grísalappalísa syngur Megas en hljómsveitin heiðrar verndara sinn og upprunalega andagift og leggur fram sínar eigin útgáfur af tveim tónsmíðum meistara Megas. Hið fyrra heitir Björg og kom upphaflega út á hljómplötunni Loftmynd árið 1987, en seinna lagið, Ungfrú Reykjavík, kom út á hljómplötunni Hættuleg hljómsveit og glæpakvendið Stella árið 1990.

Í tilefni útgáfunnar, sem hljómsveitin stendur á bak við, mun eiga sér stað útgáfuhóf annað kvöld í plötubúðinni Lucky Records á Rauðarárstíg á milli 20:00 og 22:00. Hljómsveitin býður upp á léttar veigar, áritanir eftir óskum og þeytir skífum.

Platan var tekinn upp á einum degi í æfingahúsnæði hljómsveitarinnar, Járnbraut. Upptökustjóri var Albert Finnbogason, en Finnur Hákonarson sá um hljómjöfnun. Ljósmynd á kápu á Magnús Andersen en umslagsskrift á Tumi Árnason. Einnig má geta að þetta er fyrsta hljóðritun Grísalappalísu sem 7-manna sveitar, en Rúnar Örn Marínóson hóf leik með sveitinni stuttu eftir útgáfu breiðskífunnar ALI. Hér fyrir neðan má heyra lögin.

 

 

Two Step Horror á Harlem í kvöld

Hljómsveitin Two Step Horror kemur fram ásamt Rafsteini og Captain Fufanu á Harlem í kvöld en ritstjórar straum.is munu sjá um að þeyta skífum á milli atriða. Two Step Horror hafa getið sér gott orð á undanförnum árum fyrir hægfljótandi og draumkennt trommuheilarokk sem sækir áhrif jafnt í shoegaze, rokkabillí og kvikmyndir David Lynch. Tónleikarnir eru haldnir til fjáröflunar fyrir væntanlega ferð sveitarinnar til Berlínar þar sem hún kemur fram í tónleikaröðinni Fifth Floor Event í desember ásamt The Blue Angel Lounge og The Third Sound.

Þá er væntanleg breiðskífan Nyctophilia frá sveitinni sem kemur út á vínil öðru hvoru megin við áramótin. Áður hafa Two Step Horror gefið út plöturnar Living Room Music árið 2011 og Bad Sides and Rejects í fyrra en báðar hlutu afbragðs dóma gagnrýnanda.

Einyrkinn Rafsteinn sem einnig kemur fram leikur framsækinn rafbræðing undir áhrifum frá sveimtónlist og sækadelíu. Þá kemur fram fyrrum tekknódúettinn Captain Fufanu sem nýlega hafa umbreyst í live hljómsveit með gítar, trommum og tilheyrandi, en þeir stóðu sig frábærlega á nýyfirstaðinni Airwaves hátíð.

Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur. Hlustið á tóndæmi með sveitunum hér fyrir neðan.



Miami Horror með nýja afurð

Áströlsku diskó drengirnir úr Miami Horror hafa sent frá sér lagið „Coulors In The Sky“. Þetta er annar smellurinn sem bandið sendir frá sér á stuttum tíma en lagið „Real Slow“ kom út fyrir um tveimur mánuðum síðan. „Coulors In The Sky“ byggist á töluvert hægara tempói en venjan er þegar Miami Horror á í  hlut. Samt sem áður gleðilegt lag með björtum og sumarlegum syntha tónum. Það vantar þó eitthvað uppá og lagið verður heldur flatt þegar líður á og spurning hvort það þurfi ekki aðeins að spýta í lófana ef næsta plata á að vera eitthvað í líkingu við frumburðinn „Illumination“.

Nýtt frá Stephen Malkmus

Pavement söngvarinn Stephen Malkmus tilkynnti fyrr í dag um útgáfu á nýrri plötu með hljómsveit sinni Stephen Malkmus & the Jicks. Platan heitir Wig Out at Jagbags og fylgir á eftir hinni frábæru plötu Mirror Traffic sem var í 7. sæti á lista Straums yfir bestu plötur ársins 2011. Hljómsveitin sendi jafnframt frá sér myndband við fyrsta lagið til að heyrast af plötunni sem nefnist Lariat.

Straumur 11. nóvember 2013

Í Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni frá Destroyer, M-band, Just Another Snake Cult, Wooden Shjips, M.I.A, Cut Copy mörgum fleirum. Straumur með Óla Dóra í kvöld klukkan 23:00 á X-inu 977!

Straumur 11. nóvember 2013 by Straumur on Mixcloud

1) Here Comes the Night Time – Arcade Fire

2) I’m Aquarius – Metronomy

3) I Know She Does – Just Another Snake Cult

4) Never Ending Ever – M-band

5) When Girls Collide (Jónsi Ibiza Anthem remix) – mum

6) Free Your Mind – Cut Copy

7) Meet Me In A House Of Love – Cut Copy

8) Karmageddon – M.I.A.

9) Y.A.L.A. – M.I.A.

10) Ghouls – Wooden Shjips

11) These Shadows – Shjips

12) Bye Bye – Destroyer

13) Alive – Autre Ne Veut x Fennesz

14) Let It Spill – Los Campesinos!

15) I’ll Keep Coming – Low Roar

16) Hið Síðsta Lag – Gímaldin

17) Jamaica Plain – Kurt Vile & Sore Eros


Busta Rhymes og Q-Tip í feiknaformi

Á næsta ári er væntanleg ný plata frá vélbyssukjaftinum og flippsveitarmeðlimnum Busta Rhymes, Extinction Level Event 2, sem er framhald af hinni geysivinsælu skífu með óþjála titilinn E.L.E. (Extinction Level Event): The Final World Front. Sú frábæra plata kom út 1998 og innhélt slagara á borð við Gimme Some More og What’s It Gonna Be?! Ýmsir rapparar hafa í gegnum tíðina gert eins konar framhöld af sínum frægustu plötum -oft mörgum árum seinna- svo sem Raekwon með Cuban Linx pt. 2, Dr. Dre með Chronic 2001, Jay-Z með Blueprint 2 og 3, og nú síðast Eminem með Marshall Mathers 2 sem kom út í þessari viku.

 

Fyrsta smáskífan af Extinction Level Event 2, Twerk It, kom út í júní og er eins og nafnið gefur til kynna óður til rassadansins alræmda sem Mily Cyrus hefur undanfarið vakið mikla athygli fyrir. Lagið er með hægum og fútúrískum takti og gestaversi frá Nicki Minaj, en í því ber lítið á ljóshröðu flæðinu sem rapparinn er hvað þekktastur fyrir. Það kveður hins vegar við allt annan tón í laginu Thank You sem kom út á dögunum. Undirspilið er byggt á óldskúl diskófönki og Busta nýtur aðstoðar síns gamla félaga Q-Tip, auk þess sem Lil Wayne og Kanye West líta inn og kasta kveðju. Busta Rhymes og Q-Tip eru í fantaformi og rappa á ógnarhraða af miklu áreynsluleysi í lagi sem minnir um margt á hin svokölluðu gullaldarár rappsins um miðjan 10. áratug síðustu aldar.

 

Busta Rhymes og Q-Tip eiga sér langa sögu en það var einmitt í lagi með sveit hins síðarnefnda, A Tribe Called Quest, sem að Busta Rhymes vakti fyrst athygli. Það var með ódauðlegu gestaversi sem hreinlega slátraði partýslagaranum Scenario, af plötunni Low End Theory frá 1991. Þá má geta þess að einnig er von á nýrri plötu, The Last Zulu, frá Q-Tip á næsta ári. Hlustið á Thank You, Twerk It og Scenario hér fyrir neðan og horfið á dramatískt kynningarmyndband fyrir Extinction Level Event 2.

Davíð Roach Gunnarsson



E.LE. 2 Trailer from Dazed One on Vimeo.

 

 

Svalasta þemalag allra tíma – You’re So Cool

Flestir sem séð hafa bandarísku kvikmyndina True Romance ættu að þekkja stefið sem er út alla myndina. Stefið heitir Your So Cool eftir hið fræga þýska kvikmyndatónskáld Hanz Zimmer. Hann byggir reyndar stefið á laglínu landa síns, Carl Orfs, úr kvikmyndinni Badlands eftir Terrence Malick frá árinu 1973. Sá byggir hins vegar á laginu Gassenhauer eftir enn eldri þjóðverja, lútuleikarinn Hans Neusiedler, og er frá árinu 1536. Hér fyrir neðan má heyra allar útgáfur af stefinu.

11 Lou Reed ábreiður

 

Lewis Allan Reed kvaddi þennan heim sunnudaginn fyrir viku 71. árs að aldri. Áhrif hans á tónlistarsögu og poppkúltur síðustu aldar verða seint vanmetin. Ritstjórar þessarar síðu hafa ósjaldan  yljað sér við verk Reed í gegnum tíðina. Við minnumst þessa áhrifamikla tónlistarmanns með 11 frábærum ábreiðum af lögum hans sem sýna kannski best þau áhrif sem hann hafði á aðra listamenn á ferli sínum – Satellite’s gone up to the skies!

 

 

Morrisey -Satellite of love

Morrisey hefur aldrei farið leynt með hrifningu sína á Reed. Fyrir tveim árum breiddi hann yfir þetta einstaka lag sem kom út á  Transformer árið 1972, á tónleikum sínum á Glastonbury hátíðinni..

 

 

Cowboy Junkies – Sweet Jane

Lou Reed lagði blessun sína yfir þessa mögnuðu útgáfu kanadísku hljómsveitarinnar Cowboy Junkies af laginu Sweet Jane sem upprunalega kom út á síðustu plötu Velvet Underground, Loaded, árið 1970. Útgáfan vakti mikla athygli árið 1995 í kvikmynd Oliver Stone, Natural Born Killers, í eftirminnilegri senu.

 

David Bowie & The Riot Squat – Waiting For The Man

Útgáfu fyrstu plötu Velvet Underground var seinkað vegna dómsmáls sem snerti umslag plötunnar. David Bowie fékk eintak gefins frá umboðsmanni sínum áður en það gerðist en sá hafði fengið plötuna afhenta í ferð sinni til New York árið 1966. Bowie var svo hrifinn af því sem hann heyrði að hann gaf út lagið Waiting For The Man af plötunni með hljómsveit sinni The Riot Squat áður en Velvet höfðu náð að leysa úr lagaflækju sinni sem gerðist ári seinna.

 

Nirvana – Here She Comes Now

Velvet Underground platan White light/White heat var ein af uppáhalds plötum Kurt Cobain. Árið 1991 gaf hljómsveit hans Nirvana út sameiginlega 7 tommu með Melvins  þar sem þeir breiddu yfir Here She Comes Now af plötunni og Melvins – Venus In Furs.

 

Big Star – Femme Fatale

Hljómsveitin Big Star með Alex Chilton í broddi fylkingar tók lagið Femme Fatale á sinni fyrstu plötu Third/Sister Lovers árið 1978.

 

The Runaways – Rock ‘N Roll

Eitt af þekktari lögum stúlkna bandsins The Runaways var ábreiða þeirra af Velvet Underground laginu Rock ‘N Roll sem þær gerðu svo sannarlega að sínu.

 

The Strokes – Walk On The Wild Side

Áhrif Lou Reed á New York hljómsveitina The Strokes á þeirra fyrstu plötu Is This It? eru augljós. Það kom þvi kannski fáum á óvart þegar að hljómsveitin sýndi fyrirmynd sinni þann heiður að breiða yfir lag hans Walk On The Wild Side á tónleikum árið 2006 með afslöppuðum og skemmtilegum hætti.

 

Twin Shaddow – Perfect Day

Fljótlega eftir að fréttir þess efnis að Lou Reed væri allur tóku að berast fóru tónlistarmenn útum víða veröld að sýna honum virðingu sína með ábreiðum af lögum hans. Twin Shaddow sendi frá sér þessa drungalegu útgáfu af heróín laginu Perfect í byrjun síðustu viku.

 

The Kills – Pale Blue Eyes

Fyrir tveim árum gáfu breska tvíeykið The Kills út þessa frábæru útgáfu af laginu Pale Blue Eyes af samnefndir plötu Velvet Underground frá árinu 1969. 

 

Rainy Day – I’ll Be Your Mirror

Hljómsveitin Rainy Day var einhverskonar stjörnuband meðlima hljómsveita úr Paisley Underground senunni í Kaliforníu um miðjan 9. áratuginn. Hljómsveitin gaf út eina plötu sem var safn laga hljómsveita sem höfu haft áhrif á senuna. Þar á meðal var þessi yndislega útgáfa þeirra af laginu I’ll Be Your Mirror af fyrstu plötu Velvet.

Emiliana Torrini – Stephanie Says

Þessi magnaða útgáfa Emiliönu af Stephanie Says kom út á plötu hennar Merman frá árinu 1996. Þó hún vilji ekki mikið kannast við þessa plötu í dag (hún hefur aldrei endurútgefið hana fyrir erlendan markað) þá er þessi ábreiða nóg til að réttlæta tilveru hennar.

Óli Dóri

Tónleikahelgin

Svona stuttu eftir Airwaves er líklega nokkur þreyta í flestum tónlistarmönnum landsins og tónleikahald því með rólegra móti þessa helgi. En það er þó alltaf eitthvað og það er hérmeð tekið saman.

Fimmtudagur

Sálarsveitin Moses Hightower fagnar  útgáfu plötunnar Mixtúrur úr Mósebók en á henni er að finna 16 endurhljóðblandanir eftir valinkunna listamenn af lögum af Annarri Mósebók, síðustu breiðskífu þeirra. Í tilefni útgáfunnar verður haldið hlustunarteiti í plötubúðinni Lucky Records þar sem platan mun óma og boðið verður upp á léttar veitingar, en gleðin hefst klukkan 20:00.

Hljómsveitin Slow Mountains verður með tónleika ásamt tónlistarmanninum Jón Þór á Dillon. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og aðgangur er ókeypis.

Föstudagur

Hið mánaðarlega jaðarkvöld kaffi Hressó heldur áfram
og nú er komið að Oyama og Knife Fights. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:30 og aðgangur er ókeypis.

Hljómsveitirnar Vintage Caravan, Nykur og Conflictions koma fram á Gamla Gauknum. Hurðin opnar klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1500 krónur.

Laugardagur

Haldnir verða tónleikar á Gamla Gauknum til heiður Black Sabbath þar sem verður breytt yfir helstu smelli sveitarinnar. Heiðurssveitina skipa Jens Ólafsson (Brain Police), Franz Gunnarsson (Ensími / Dr. Spock), Flosi Þorgeirsson (HAM) og Birgir Jónsson (Dimma / Skepna). Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og miðaverð er 1500 krónur í forsölu en 2000 krónur við hurð.

Nýtt lag frá Bombay Bicycle Club

Það var kominn tími til að indí sveitin Bombay Bicycle Club léti í sér heyra. Ekkert nýtt efni hefur komið frá þeim félögum síðan 2011 þegar þriðja plata þeirra A Different Kind Of Fix kom út. Sveitin vinnur hins vegar nú að sinni fjórðu breiðskífu og hefur fyrsta smáskífan fengið að líta dagsins ljós. Lagið ber titilinn „Carry Me“ og á samkvæmt meðlimum að marka breytingu á tónlistarstefnu bandsins. Lucy Rose sem áður hefur sungið með hljómsveitinni á heiðurinn að lofkenndri bakrödd í laginu. Einnig fylgir útgáfu lagsins frumlegt myndband sem sjá má hér.