Spennandi tónar á Sónar – Seinni hluti

Sónar tónlistarveislan hefst í dag og Straumur hvetur alla sem á hanska geta haldið til að sjá eftirtalda listamenn en þegar þetta er skrifað eru enn til miðar á hátíðina.

James Blake

Hinn breski Blake er einungis 24 ára gamall en skaust upp á stjörnuhimininn með sinni fyrstu breiðskífu samnefndri listamanninum sem kom út í byrjun árs 2011. Þar blandaði hann saman dubstep og sálartónlist á einstaklega smekklegan hátt og var tilnefndur til hinnar virtu Mercury tónlistarverðlauna fyrir vikið. Fyrsta smáskífan af breiðskífu sem er væntanleg í vor kom út í síðustu viku og vonandi fáum við að heyra nýtt efni frá kappanum á tónleikum hans á laugardaginn. Þá mun hann einnig koma fram sem plötusnúður í bílakjallara Hörpu á föstudagskvöldinu.

Gus Gus

Gus Gus eru fyrir löngu orðin að stofnun í íslenskri raftónlist og tónleikar þeirra eru á heimsmælikvarða á alla hljóð- og sjónræna kanta. Þeirra síðasta plata, Arabian Horse, fékk nánast einróma lof gagnrýnandi og er af mörgum talin þeirra besta verk. Þeir munu frumflytja nýtt efni á hátíðinni.

Trentemøller

Anders Trentemøller er einn fremsti raftónlistarmaður í Danaveldi og hefur heiðrað Íslendinga ófáum sinnum bæði með live tónlistarflutningi og skífuþeytingum. Hann mun leggja stund á hið síðarnefnda á í Norðurljósasal Hörpu á laugardagskvöldið og undirritaður getur staðfest að enginn verður svikinn af Trentemøller dj-setti. Þau eru  þung en jafnframt aðgengileg þar sem hann spilar oft eigin remix af þekktum poppslögurum.

Mugison

Ólafur Örn Elíasson, betur þekktur sem Mugison, hefur verið ein helsta poppstjarna Íslands undanfarin ár og selt meira en 30.000 eintök af sinni nýjustu plötu. Í byrjun ferilsins spilaði þó raftónlistin meiri rullu í tónlist hans og á Sónar hátíðinni mun hann notast við hljóðgervil sem hann smíðaði sjálfur, ásamt Páli Einarssyni félaga sínum, frá grunni. Ekki er ólíklegt að hann muni sína á sér sjaldséða hlið á hátíðinni og enginn ætti að láta það fram hjá sér fara.

Hermigervill

Hermigervill er frábær tónlistarmaður sem á sínum tveimur síðustu plötum hefur dundað sér við að uppfæra helstu dægurlagasmelli Íslandssögunnar yfir í rafrænan búning. Tónleikar með honum eru einstök upplifun þar sem hann kemur fram einn ásamt lager af raftólum og djöflast af mikilli innlifun á hljóðgervla, samaplera, plötuspilara, þeramín, og grípur jafnvel í fiðlu ef vel liggur á honum. Heyrst hefur að hann sitji á nýju frumsömdu efni og verður spennandi að heyra það á tónleikum hans um helgina.

Spennandi tónar á Sónar – Fyrsti hluti

Sónar-tónlistarhátíðin fer í fram í fyrsta skipti á Íslandi um helgina og er mikill hvalreki fyrir áhugafólk um framsækna tónlist. Yfir 50 tónlistarmenn munu koma fram í Hörpunni á föstudag og laugardag og mun Straumur í dag og næstu daga vekja athygli á þeim listamönnum sem eru sérstaklega spennandi að okkar eigin huglæga en jafnframt óskeikula mati. Þá er vert að geta þess að enn eru til miðar á hátíðina en bætt var við auka miðum eftir að seldist upp í síðustu viku.

Squarepusher

Tónlistarmaðurinn Tom Jenkinsson sem kallar sig oftast Squarepusher hefur í hátt í tvo áratugi verið leiðandi á sviði tilraunakenndrar raftónlistar í heiminum. Nafn hans er oft nefnt í sömu andrá og goðsagnarinnar Aphex Twin en þeir tveir voru helstu vonarstjörnur hinnar virtu Warp útgáfu um miðjan tíunda áratuginn. Hann vakti mikla athygli fyrir sína fyrstu plötu, Feed me Weird Things, sem kom út 1996. Þar mátti finna framsækna raftónlist og flóknar taktpælingar með miklum djass- og fönkáhrifum þar sem bassaleikur Jenkinsson spilaði stóra rullu. Hann hefur síðar þróast í ýmsar áttir yfir ferilinn en hans síðasta plata fékk feiki góða dóma gagnrýnenda. Á tónleikum kemur hann iðulega fram með hátæknihjálm og leikur á bassa ásamt raftækjum og þá notast hann við risaskjái fyrir metnaðarfullar myndskreytingar.

Sísí Ey

Sísí Ey er samstarfsverkefni trúbatrixunnar Elínar Ey og tveggja systra hennar sem sjá um söng og pródúsantsins Oculusar sem framreiðir munúðarfulla og pumpandi húsgrunna fyrir þær til að byggja ofan á. Hópurinn hefur ekki gefið formlega út neitt efni en lög þeirra hafa þó ómað á mörgum fágaðri dansgólfum skemmtistaða Reykjavíkur undanfarin misseri. Alíslensk hústúnlist sem er allt í senn; dansvæn, grípandi og kynþokkafull.

Modeselektor

Modelselektor er dúett Berlínarbúanna Gernot Bronsert og Sebastian Szary sem hafa um árabil framleitt hágæða hávaða af öllu hljóðrófi raftónlistarinnar. Þeir virðast jafnvígir á tekknó, hip hop og gáfumannadanstónlist og hafa getið sér gott orð fyrir frábærar breiðskífur og hugvitssamlegar endurhljóðblandanir fyrir listamenn á borð við Thome Yorke, Björk og Roots Manuva. Þá hafa þeir starfað með landa sínum Apparat undir nafninu Moderat og komu fram á Iceland Airwaves hátíðinni 2010 og pumpuðu þakið af Listasafni Reykjavíkur.

LFO

LFO eru miklir tekknófrumkvöðlar og fyrstu vonarstjörnur Warp útgáfunnar. Breiðskífa þeirra Freaquencies vakti mikla athygli á þeim og komst inn á topp 20 listann í Bretlandi árið 1991. Mark Bell sem er nú eini liðsmaðurinn hefur einnig unnið mikið með Björk.

Alva Noto og Ryuichi Sakamoto

Samstarfverkefni hin þýska Noto og japanska Sakamoto er gífulega metnaðarfull blanda framsækinnar elektróníkur og nútímaklassíkur. Sakamoto var áður forsprakki hinnar goðsagnakenndu Yellow Magic Orchestra, sem var brautryðjandi í rafdrifinni tónlist á 8. áratugnum.