Lag og plata frá Jack White

Jack White tilkynnti í dag að von væri á nýrri breiðskífu frá kappanum sem mun heita Lazaretto en hans fyrsta sólóskífa, Blunderbuss, kom út árið 2012. Við sama tilefni afhjúpaði hann eitt laga plötunnar, High Ball Stepper, sem er þó ekki fyrsta smáskífan, en það er án söngs. Platan kemur út þann 9. júní næstkomandi en von er á fyrstu smáskífunni síðar í apríl. Þrátt fyrir að vera ósungið sver lagið sig í ætt við það besta sem hefur komið frá honum og White Stripes, töffaraleg og djúpblúsuð sveifla með miklum gítarfimleikum þar sem bjögunin er keyrð í botn. Þá eru einhvers konar indíánaóp í því líka sem minna talsvert á vestrameistarann Ennio Morricone. Hlustið á lagið hér fyrir neðan.