Ljúft á LungA

Mynd: Gunnar Ragnarsson úr Grísalappalísu skvettir úr klaufunum á sviði hjá FM Belfast á lokatónleikum LungA í ár. Mynd í eigu: Tóta Van Helzing

LungA (Listhátíð unga fólksins Austurlandi) hefur verið haldin seinustu tólf ár í hinum ægifagra Seyðisfirði. Þar safnast saman myndlistamenn, tónlistarmenn, listnemar, listunnendur og tónlistarelskendur frá öllum landhlutum og utan að. Dagana 14. – 21. júlí var hátíðin haldin í tólfta sinn. Mikið líf, fjör, ást og samvinna einkenndi þessa viku. Eins og árin áður voru í kringum hundrað þátttakendur á LungA sem tóku þátt í svo kölluðum listasmiðjum. Þar gafst þeim tækifæri að læra nýja hluti og spreyta sig undir handleiðslu reyndra listamanna. Til að mynda var hægt að skrá sig í spuna-, vídjóverka-, dans-, og hljóðfæragerðarsmiðju.

Hugarró í bláu kirkjunni

Úlfur Hanson, einnig þekktur sem Klive, opnaði hátíðina með tónleikum í Seyðisfjarðarkirkju sem oft er kölluð Bláa kirkjan sökum útlits síns og samnefndrar sumartónleikaseríu sem var stofnsett þar árið 1998. Um var að ræða tilraunakennt hljóðverk með elektrónískum áhrifum sem hann flutti ásamt hjálp fleiri tónlistarmanna. Meðal annars voru það Tumi Árnason á píanó og saxafón, Ingólfur Arnar Ingólfsson á gítar, Jófríður Ákadóttir með söng og Arnljótur Sigurðsson á tréblásturshljóðfæri sem öll eru þekkt í íslensku tónlistarlífi. Úlfur drottnaði sjálfur á svölum kirkjunnar með orgelleik sínum. Tónleikagestir lokuðu margir augunum í algerri hugarró á meðan aðrir fylgdust agndofa með einbeittum tónlistarmönnunum spila. Bláa kirkjan, friðsæl og krúttleg, jók mjög við skemmtilegt andrúmsloft tónleikanna. Hálftíma langt hljóðverkið var draumkennt með ákveðinni áherslu sem hélt áhuga mínum og athygli allan tíman.

Lokatónleikarnir í ár voru haldnir laugardaginn 20. júlí úti við hjá gömlu síldarverksmiðjunni Norðursíld á Seyðisfirði. Það hafði verið mjög sólríkt þennan dag en um kvöldið læddist austfjarðaþokan yfir fjörðinn sem skapaði dulúðugt andrúmsloft. Gul strætóbifreið, sem sá til þess að tónleikagestir kæmust klakklaust á staðinn, fór ótal margar ferðir troðfull af brosandi andlitum. Ég mætti á svæðið þegar dúóið Vök, sem fór með sigur af hólmi í Músíktilraunum í ár, hafði hitað ærlega upp í hjörtum áheyrenda með hljómfögrum og rafmögnuðum tónum sínum.

Hressir, öruggir og ljóðrænir

Á minna sviðið (tvö svið voru notuð til þess að draga úr biðtíma milli hljómsveita) steig næst hin marg umtalaða hljómsveit Grísalappalísa. Hún samanstendur af sjö Reykvískum tónlistarmönnum sem allir hafa sína forsögu. Meðlimir hennar hafa verið duglegir að fylgja eftir nýútgefnum frumburði sínum, ALI, með tónleikum, hlustunarteiti og tónlistarmyndbandi. Lísa var þess vegna mjög samstillt og framkoma þeirra hress og sjálfsörugg. Á þriðja lagi hafði dansglaður hópur safnast saman fremst við sviðið og voru áheyrendur dáleiddir af ljóðrænum og frumsömdum textum Gunnar Ragnarssonar og Baldurs Baldurssonar. Viðfangsefni þeirra voru ástin, næturlífið og daglegt líf ungs fólks. Mannlegur raunveruleiki á léttum en svölum nótum.

Þéttur bassi ómaði og rímur fóru á flug. Á sviðið höfðu stigið kapparnir í Úlfur Úlfur sem hrærðu ærlega upp í stemmningunni. Ég fékk það strax á tilfinninguna að margir yngri tónleikagestir kynnu að meta þá betur en þeir eldri. Textum sveitarinnar, sem fjalla oftar en ekki um það að vera ungur og frjáls, voru gefin ágæt skil af skoppandi og hressum meðlimum Úlfs Úlfs. Þótt bassinn yfirgnæfði heldur mikið á köflum var boðskapur sveitarinnar nokkuð skýr. Við vorum öll saman komin til þess að djamma.

Næsta band á svið var hin sífallega og ávallt þétta hljómsveit Mammút. Hún spilaði af krafti og kom einkar vel fram. Tilfinningin sem þessir 5 einstaklingar skapa er nefnilega einstök. Aðspurður var ungi maðurinn, sem dansaði við hlið mér, mjög ánægður með framkomu Mammút þar sem ,,bæði tónlistin og fólkið í henni er alltaf sexý”. Eftir þetta hljóp hann fremst er sviðið fylltist af appelsínugulum reyk. Þegar leið á enda settsins fékk nýlegt lag sveitarinnar, Salt, að óma. Rúm 5 ár eru liðin frá útgáfu annarar breiskífu sveitarinnar og er sú þriðja á leiðinni.

Taktfastur og tilfinningaþrunginn heimur

Þegar Mammút hafði lokið sér af tók Ghostigital tvíeykið við. Er ég gekk nær sviðinu varð mér ljóst að þeir væru, að vana, með gesti í heimsókn. Með þeim á sviði voru engir aðrir en Úlfur Hanson á gítar og Tumi Árnason, úr Grísalappalísu og The Heavy Experience, á saxófón. Það tók tónleikagesti smá stund að átta sig á aðstæðum. Eftir andartak var fólk farið að dansa af krafti við takfastann og tilfinningaþrunginn heim Ghostigital. Að sjá borgarfulltrúann og listamanninn sem er nefndur eftir plastframleiðslufyrirtæki spila er einstök upplifun. Curver, sem stjórnar alfarið taktinum, lék sér með rödd Einars í bland við hljóðfæraleik Tuma og Úlfs. Útkoman var algerlega einstök og eftirminnileg.

Næst á dagskrá var hinn danski Esben Nørskov Andersen sem gengur undir tónlistarnafninu Rangleklods. Söngur Esben, sem minnir örlítið á stíl Ian Curtis úr Joy Division, fjallaði um ungdóm og mannleg samskipti. Honum til halds og trausts var stúlka sem söng bakrödd og spilaði á hljóðgervil. Tónleikar Rangleklods vöktu mikla lukku á Iceland Airwaves hátíðinni í fyrra. Þá spilaði hann á Faktorý og í Norðurljósasal Hörpu. Tölvu trommurnar og hljóðgervlarnir minntu einna helst á nýbylgjutónlist 9. áratugarins sem skeytt var við nýrri blæ raftónlistar. Á hápunkti tónleikanna náði Esben hylli tónleikagesta með því að stjórna hluta tónlistarinnar með leysirgeisla. Það var svipað bragð og hann nýtti á Airwaves í fyrra.

Dansandi buxnalaus

FM Belfast mættu til leiks þegar Rangleklods steig af sviði. Hópurinn er þekktur fyrir hressleika, lífsgleði og fagmannlegan tónlistarflutning. Þetta kvöldið var engin undantekning. Slagverkseikararnir tveir stóðu sig sérstaklega vel og voru samstíga allan tímann í því að fylgja eftir tölvutaktinum sem hefur einkennt FM Belfast frá upphafi. Það vantaði ekki að dansandi áhorfendurnir fækkuðu margir flíkum þegar lagið ‘Underwear’ hljómaði. Það er ekki að undra þar sem það er eitt af vinsælustu lögum hópsins. FM Belfast hafa spilað mikið á erlendri grundu seinustu ár og vakið mikla athygli víðsvegar. Það sást þó ekki á þeim að þau hefðu gleymt því hvernig ætti að skemmta Íslendingum. Dansinn er jú tungumál sem allir skilja. Eftirminnilegt var þegar Gunnar í Grísalappalísu steig upp á svið með hestagrímu og plakat framan á sér merkt sveit sinni. FM Belfast tóku honum fagnandi þegar hann byrjaði að dansa á meðan loka lagið hljómaði.

FM Belfast luku tónleikunum með miklu látum og þéttum danstónum sem allir þekktu. Þetta voru fjölbreyttir tónleikar sem stigmögnuðust vel. Tónleikagestirnir voru vingjarnlegir og samstíga í gleðinni frá byrjun til enda. Það var frábært að fá að heyra samspil yngri og eldri tónlistarmanna. Sumt hefði líklega hljómað betur í tónleikasal en útitónleikar eru sjaldgjæf upplifun á Íslandi svo að hún gengur fyrir. Listahátíð unga fólksins Austurlandi býr yfir einstökum eiginleikum. Þar er frelsandi, friðsælt og skemmtilegt að vera. Fólkið á bak við þessa hátíð á hrós skilið fyrir að halda vel heppnaða hátíð sem endaði á vel heppnuðum tónleikum.

Alexander Jean Edvard Le Sage de Fontenay

 

 

Tónleikar helgarinnar

 

 

Miðvikudagur 14. ágúst

 

Ólöf Arnalds og Skúli Sverrisson munu leika á tónleikum í Fríkirkjunni í Reykjavík. Kirkjan opnar fyrir gesti kl. 20 og tónleikar hefjast svo á slaginu 20:30. Hljómsveitin Vök mun einnig koma fram, en hún gaf nýverið út sína fyrstu plötu, EP plötuna Tension.

 

 

Fimmtudagur 15. ágúst

 

Markús & The Diversion Sessions halda tónleika í Lucky Records klukkan 17:00

 

Jazz dúettinn Singimar spilar á ókeypis Pikknikk tónleikum 15. ágúst kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Singimar er samstarfsverkefni Inga Bjarna Skúlasonar á píanó og Sigmars Þórs Matthíassonar á kontrabassa.

 

Hljómsveitin Markús & The Diversion Sessions efnir til stórtónleika í Gym & Tonic sal Kex Hostel, Tónleikarnir verða kveðjutónleikar fyrir bassaleikara hljómsveitarinnar Georg Kára Hilmarsson en hann heldur út í masters nám í tónsmíðum í lok ágúst. Hljómsveitin The Diversion Sessions tók upp stutt skífu árið 2012 og mun hún vera gefin út í takmörkuðu upplagi á tónleikunum. Um upphitun sjá hljómsveitirnar Hymnalaya og Nini Wilson. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 og kostar 1000kr inn.

 

Tónleikar á Café Flóru með Skúli mennska og fleiri listamönnum.

Tónleikarnir byrja kl 20 og það er ókeypis inn.

 

Two Step Horror og Rafsteinn spila á tónleikaröð Hressingarskálans. Enginn aðgangseyrir og tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

Hljómsveitirnar Godchilla og Klikk troða upp á Dillon fimmtudaginn. Það er frítt inn og tónleikarnir hefjast klukkan 22:00.

 

 

Föstudagur 16. ágúst

 

 

BJÚDDARINN 2013, árlegt skemmtikvöld knattspyrnufélagsins Mjöðm Gallerý Knattspyrna (ef.), fer fram á skemmtistaðnum Harlem

 

Prógram:

Kippi Kaninus

Markús & the diversion sessions

DJ Margeir & Högni Egilsson

Mið-Íslands grínistarnir Bergur Ebbi & Jóhann Alfreð

Málverkauppboð

 

Hús opnar 22:00

Miðaverð: 1.000 kr.

 

 

 

 

Laugardagur 17. ágúst

 

Kveðjutónleikar Boogie Trouble á Gamla Gauknum.  Ásamt Boogie verða þarna Bárujárn, Bjór og Babies.

Hús opnar 21:00 – Tónleikar hefjast 22:00 og Aðgangseyrir er 1500 krónur en ágóði rennur óskiptur í að fjármagna væntanlega plötu hljómsveitarinnar sem mun líta dagsins ljós í vetur.

 

 

KVIKSYNÐI #6 í hliðarsal Harlem 

  • – Bjarki – Live set
  • – Hlýnun Jarðar
  • – ULTRAORTHODOX – Live set
  • – Bypass
  • – Captain Fufanu
  • Húsið opnar klukkan 23.00 og það er frítt inn!

 

 

 

 

Sunnudagur 18. ágúst

 

Tónleikar með sjálfum David Byrne og St. Vincent í Háskólabíó klukkan 20:00. Miðar eru til sölu á midi.is og það kostar 8990 í svæði B og 10999 í svæði A. Það þarf vart að kynna David Byrne eða St. Vincent (aka Annie Clark) fyrir tónlistaráhugafólki. Ferill þeirra er mislangur en afar farsæll. Þau leiddu saman hesta sína fyrir nokkrum misserum og tóku upp plötu. Afraksturinn leit dagsins ljós á síðasta ári og platan Love this Giant var af mörgum talin plata ársins 2012.

 

 

Cults snúa aftur

New York hljómsveitin Cults var að senda frá sér fyrstu smáskífuna I Can Hardly Make You Mine af væntanlegri annari plötu sveitarinnar Static sem kemur út 15. október. Cults er hugarfóstur þeirra Brian Oblivion gítarleikara og Madeline Follin söngkonu en hún er systir Richie Folin forsprakka hljómsveitarinnar Guards sem gáfu út sína fyrstu plötu fyrr á þessu ári. Cults vöktu fyrst athygli árið 2010 fyrir lagið Go Outside en fyrsta plata þeirra sem var samnefnd bandinu kom út árið 2011 við góðar viðtökur gagnrýnenda.

 

Straumur 12. ágúst 2013

Í Straumi í kvöld kíkjum við á nýtt efni með Washed Out, Drake, Jon Hopkins, Ty Segall, Islands, Porcelain Raft og mörgum fleirum. Auk þess verður frumflutningur á nýju lagi frá reykvísku hljómsveitinni Markús & The Diversion Sessions. Straumur með Óla Dóra á slaginu 23:00 á X-inu 977!

Straumur 12. ágúst 2013 by Straumur on Mixcloud

1) It All Feels Right – Washed Out
2) Hold On, We’re Going Home (ft. Majid Jordan) – Drake
3) Turn It Up – Factory Floor
4) Is This How You Feel – The Preatures
5) Decent Times – Markús & The Diversion Sessions
6) All I Know – Washed Out
7) Falling Back – Washed Out
8) Your Life Is a lie – MGMT
9) Breathe This Air (ft. Purity Ring) – Jon Hopkins
10) Becoming The Gunship – Islands
11) Hushed Tones – Islands
12) Avalanche (slow) – Zola Jesus
13) Cluster – Porcelain Raft
14) Minor Pleasure – Porcelain Raft
15) The Keepers – Ty Segall
16) Sweet C.C. – Ty Segall

Tónleikar helgarinnar

Eins og flestar vikur er fjölbreytt úrval tónleika á höfuðborgarsvæðinu þessa helgi og hér verður farið yfir það helsta.

Miðvikudagur 7. ágúst

Tónlistarhópurinn Tónleikur mun halda sína stærstu tónleika hingað til á Rósenberg í kvöld. Tónleikur er hópur sem samanstendur af listamönnum sem öll eiga það sameiginlegt að semja sína eigin tónlist og í kvöld munu koma fram yfir tugur flytjenda; Martin Poduška, Raffaella, Ragnar Árni, slowsteps, val kyrja/Þorgerður Jóhanna, Tinna Katrín, Þorvaldur Helgason, Jakobsson, FrankRaven, Johnny and the Rest, Hljómsveitt og Forma. Fjörið hefst klukkan 20:30 og ókeypis er inn, en hattur verður á staðnum til að taka við frjálsum framlögum.

Hljómsveitin Eva verður öfug, hinsegin og alls konar á Kíkí í kvöld þar sem hún hitar upp fyrir Gay Pride gönguna sem verður um helgina. Leynigestur kvöldsins verður engin önnur en hin íðilfagra Ólafía Hrönn og mun hún flytja áheyrendum nokkur af sínum einstöku lögum. Öfurheitin hefjast klukkan 21:00 og aðgangseyrir er 1000 krónur.

Daníel Friðrik Böðvarsson gítarleikari og Ingimar Andersen saxófónleikari leika djass frá 10 til 1 á Boston. Báðir eru þeir búsettir erlendis og taka hér höndum saman eftir langan aðskilnað og ókeypis er inn á viðburðinn.

Fimmtudagur 8. ágúst

Hljómsveitin Orfía, samstarfsverkefni Arnar Eldjárns og Soffíu Bjargar, spilar á ókeypis pikknikk tónleikum kl. 17:00 í gróðurhúsi Norræna hússins. Örn og Soffía stofnuðu hljómsveitina Orfía árið 2011 eftir að hafa starfað saman í hljómsveitinni Brother grass um árabil.

Hljóðverk eftir Berglindi Jónu Hlynsdóttir & Guðmund Stein Gunnarsson verður flutt af Hljómskálanum í Hljómskálagarðinum klukkan 18:00. Verkið er hljóðinnsetning og myndverk í almenningsrými sem nýtir Hljómskálann sjálfan, sögu hans, staðsetningu í borginni og umhverfi til þess að lífga við þessa táknmynd sem er í senn minnisvarði, hús og svæði sem hefur sérstakt menningarlegt og sögulegt gildi í borginni.

Opnunarhátíð Hinsegindaga verður haldin í Silfurbergi í Hörpu og hefst klukkan 21:00. Á stokk stíga ýmsir þjóðþekktir tónlistarmenn sem á einn eða annan hátt tengjast sögu hinsegin fólks, baráttu þess og listsköpun. Aðgangseyrir er 2500 krónur.

Föstudagur 9. ágúst

Retro Stefson og Hermigervill munu kveðja hinn ástsæla tónleikastað Faktorý. Segja má að hljómsveitin hafi stigið sín fyrstu spor á staðnum þegar hún kom fram á Airwaves hátíðinni 2006 þó að staðurinn hafi þá borið heitið Grand Rokk. Tónleikarnir hefjast klukkan 23:00 og aðgangseyrir er 2000 krónur.

Brimbrettarokksveitin Bárujárn efnir til tónleika til að fagna nýútkomnum geisladiski sínum. Tónleikarnir munu fara fram í kjallara skemmtistaðarins Bar 11 að Hverfisgötu 18 og hefjast leikar klukkan 22:00. Á tónleikunum verða öll lögin af disknum leikin, en auk þess hefur sveitin rifjað upp nokkur af sínum gömlu lögum og má því búast við löngu og sveittu prógrammi. Um upphitun sér hin stórefnilega brimrettarokksveit Godchilla og ljóðskáldið Jón Örn Loðmfjörð. Aðgangur er ókeypis en bjór og geisladiskar verða til sölu á tilboðsverði.

Strengja-og vélasveitin Skark gerir atlögu að tónleikaforminu í bílastæðahúsi Hörpu. Verk eftir Pál Ragnar Pálsson, Viktor Orra Árnason, György Ligeti, Alfred Schnittke og John Wilbye verða flutt en atlagan hefst klukkan 20:00 og aðgangseyrir er 2500 krónur.

Laugardagur 10. ágúst

Helgi Rafn, söngvari og lagahöfundur, flytur 10 ný “kammer pop” lög á íslensku og ensku fyrir raddir og strengi ásamt Bartholdy strengjakvartettnum frá London. Tónleikarnir verða í húsnæði Leikfélags Kópavogs, en það rými var valið svo hægt væri að skapa leikræna og nána stemmingu. Aðgangseyrir er 1200 krónur og hljómleikarnir hefjast klukkan 21:00.

Sunnudagur 11. ágúst

Frá upphafi hefur Faktorý átt sér heitan draum um stefnumót við stórhljómsveitina Gus Gus. Nú mun sá draumur loks verða að veruleika því hljómsveitin hefur þáð heimboð á Faktorý. Til slíks viðburðar er ekkert kvöld meira viðeigandi en síðasta kvöld staðarins, sunnudagurinn 11. ágúst. Gestir ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi því hljómsveitin ætlar að spila gamla slagara í bland við nýtt óútgefið efni af væntanlegri plötu sveitarinnar. Uppselt er á viðburðinn en þeim lesendum sem eru virkilega heitir er bent á barnaland.

 

 

 

50 atriði tilkynnt á Iceland Airwaves

Iceland Airwaves tónlistarhátíðin tilkynnti fyrr í dag um 50 listamenn og hljómsveitir sem munu koma fram á hátíðinni dagana 30. október til 3. nóvember á þessu ári.

Þau eru: sóley, Savages (UK), Jon Hopkins (UK), John Grant (US), Mykki Blanco (US), Mac DeMarco (CA), Lay Low, Villagers (IE), PAPA (US), Empress Of (US), Lescop (FR), Agent Fresco, Young Fathers (SCO), For a Minor Reflection, Slow Magic (US), kimono, We Are Wolves (CA), Ghostigital, Dikta, San Fermin (US), Berndsen, Baby in Vain (DK), Sean Nicholas Savage (CA), Cousins (CA), Úlfur Úlfur, Aaron and the Sea (US), Biggi Hilmars, Kithkin (US), Eldar, Epic Rain, The Balconies (CA), Futuregrapher, Nordic Affect, Ylja, Wistaria, Tonik, Sindri Eldon and the Ways, Good Moon Deer, Rökkurró, Kött Grá Pjé, Jóhann Kristinsson, Kajak, Sometime, Saktmóðigur, Hudson Wayne, Boogie Trouble, Tanya & Marlon, M-Band, Original Melody og Nolem!

cut copy með nýtt dansvænt lag

Áströlsku drengirnir í Cut Copy hafa sleppt frá sér smáskífunni „Let Me Show You“ og er þetta annað lagið sem heyrist af væntanlegri plötu. Nokkur eftirvænting hafði skapast í kringum útgáfu lagsins þar sem 120 vínyl eintökum af laginu var dreift á Pitchfork Music Festival á dögunum.
„Let Me Show You“ er dansvænn rafsmellur enda ekki við öðru á búast frá bandinu, lagið er kaflaskipt með uppbyggingum og droppum sem einkennast af húslegum takti og geimhljóðum.