Einstakt partý í Ásbrú – Fyrsta kvöld ATP

Fyrsta All Tomorrow’s Parties tónlistarhátíðin hér á landi er merkilegur viðburður í íslensku tónlistarlífi en hátíðin er þekkt fyrir einstakt andrúmsloft og metnaðarfulla dagskrá með áherslu á óháða tónlistarmenn. Stemmningin var vinaleg þegar ég mætti á svæðið eylítið seint og inni í Atlantic Studios skemmunni var Mugison að rokka úr sér lungun í lokalaginu. Veðrið skartaði blíðu og á planinu fyrir utan var hægt að kaupa sér mat og góð tónlist ómaði úr hátalarakerfinu.

Velkomin aftur

Múm voru næst að koma sér fyrir á sviðinu en tónleikar með þeim hér á landi eru fágæti sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara. Það kom mér skemmtilega á óvart að Gyða Valtýsdóttir, sem hætti í sveitinni fyrir meira en 10 árum síðan, var með þeim á sviðinu og söng við hlið Mr. Sillu ásamt því að spila á selló. Þá muldraði og kyrjaði Örvar í gegnum skrýtinn míkrafón og raddirnar þrjár hlupu hringi í kringum hvor aðra. Þau tóku meðal annars nýtt lag sem var drungalegt rafpopp í anda Bat For Lashes þar sem Gyða fór náttúruhamförum á sellóinu.

Á ‘etta og má’etta


Næstur á svið var aldraði nýbylgjufauskurinn Mark E. Smith, leiðtogi og einræðisherra hljómsveitarinnar The Fall. Þetta var með skrýtnari tónleikaupplifunum sem undirritaður hefur upplifað en skoðanir áhorfenda skiptust í andstæða póla um ágæti hennar. Smith ráfaði rallhálfur um sviðið og tuggði tyggjó af miklum móð milli þess sem hann spýtti textunum slefmæltur og drafandi út úr sér með óskiljanlegum Cockney hreim. Hljómsveitin hans var eins og vel smurð cadilac vél og dúndraði út groddaralegu póstpönki en Smith gerði hins vegar allt sem í hans valdi stóð til að angra þau.

Hann sparkaði niður trommumækum, glamraði á hljómborð, hækkaði og lækkaði í hljóðfærum á víxl og stundum bara ýtti hann við greyi hljóðfæraleikurunum. Hann virðist fara með hljómsveitina eftir „Ég á’etta, ég má’etta“ hugmyndafræði. Svo ekki sé minnst á að hann lítur út eins og Gollum og lét á köflum eins og sauðdrukkinn predikari. Hljómsveitin virtist gera sér fyllilega grein fyrir stöðu sinni í bandinu sem þrælar og voru ótrúlega þolinmóð gagnvart þessari fautalegu framkomu. Ég er kannski svona illa innrættur en ég hafði bara nokkuð gaman að sjónarspilinu. Þetta var allavega eitthvað sem maður sér ekki á hverjum degi.

Leðjan langt frá botninum
Botnleðja hafa engu gleymt og rokkuðu af sér punginn fyrir nostalgíuþyrsta áhorfendur í skemmunni. Þeir renndu í gegnum marga af sínum helstu slögurum ásamt nokkrum nýjum lögum, meðal annars því seinasta, sem hljómaði eins og handboltasigursöngur þar sem þeir nutu aðstoðar kórs. Áhorfendur tóku hins vegar best við sér í lögunum af Drullumalli og ætluðu þá bókstaflega að ærast. Í einu laginu kom síðan plötusnúðurinn og fyrrum meðlimurinn Kristinn Gunnar Blöndal og refsaði hljóðgervlinum sínum eins og rauðhærðu stjúpbarni, og hreinlega nýddist á pitchbend hjólinu af fádæma krafti.

Sýrulegnir byssumenn frá San Fransisco
The Oh Sees er sérkennilegur kvartett frá San Fransisco sem spila afar hressilega blöndu af sækadelic og garage rokki. Leiðtogi hennar, John Dwyer, lítur út eins og „surfer dude“ og hefur mjög sérstakan stíl á gítarnum, heldur honum hátt uppi á brjóstkassanum og mundar hann eins og riffill. Oft brast á með villtum spunaköflum þar sem mörgum gítarstrengjum var misþyrmt í ofsafengnu sýrusulli. Dwyer var hinn reffilegasti á sviðinu og hrækti á gólfið meðan trommuleikarinn var sem andsetinn í tryllingslegum sólóum. Þetta var svo sannarlega skynörvandi reynsla og bestu tónleikarnir þetta kvöldið.

Stórskotahríð á hljóðhimnur

Ég var svo eftir mig eftir Oh Sees að Ham bliknuðu nokkuð í samanburðinum en skiluðu þó sínu á skilvirkan og harðnákvæman hátt eins og þeirra er von og vísa. Það var nokkuð farið að fækka í skemmunni þegar annar borgarfulltrúi kvöldsins, Einar Örn, steig á svið ásamt Ghostigital flokknum. Óhljóðadrifið tekknó-ið sem þeir framleiða er ekki allra en ég kann vel að meta svona árás á hljóðhimnurnar. Abstrakt ljóð Einars Arnars hafa verið áhugaverð síðan hann var í Purrkinum en línur eins og „Ég er með hugmynd. Hún er svo stór að mig verkjar í heilann,“ gætu þó líst tilfinningum þeirra sem minnstar mætur hafa á hljómsveitinni.

Fyrsta kvöld hátíðarinnar var í flestalla staði stórvel heppnað; hljómsveitirnar voru góðar, sándið frábært og andrúmsloftið inni og úti alveg einstaklega afslappað og ólíkt öðrum tónlistarhátíðum sem undirritaður hefur sótt. Það var ekki vesen eða leiðindi á nokkrum manni, en þeim mun meira um bros og almennilegheit og gæslan hafði greinilega ekki mikið að gera. Atlantic Studios hentar greinilega einstaklega vel til tónleikahalds og það er vonandi að hún verði nýtt betur til slíks í framtíðinni. Fylgist vel á með á straum.is því umfjöllun um seinna kvöld hátíðarinnar er væntanleg á morgun.

Davíð Roach Gunnarsson

 

Babyshambles með plötu í bígerð

Rokkræfillinn Pete Doherty hefur náð að halda sér nógu lengi úr fangelsi til að taka upp plötu sem er væntanleg frá hljómsveit hans Babyshambles 2. September og hefur hlotið titilinn Sequel To The Prequel. Pete býr þessa dagana í París ásamt Macauley Culkin en sá hefur þurft að sitja einn heima undanfarið á meðan félegarnir úr Babyshambles tóku upp plötuna þar um slóðir ásamt upptökustjóranum Stephen Street. Sequel To The Prequel mun innihalda 12 lög, verður þriðja plata Babyshambles og fylgir á eftir Shooter‘s Nation sem kom út árið 2007. „Nothing Comes To Nothing“ verður fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu og kemur út 26. ágúst.
„Ég vil ekki að þetta verði eitthvað hálfkák, ég vil fokking stúta þessu. Babyshambles eru ekki að snúa aftur, þetta band hefur aldrei farið.“ Sagði 34. ára gamli Doherty um Sequel To The Prequel í viðtali við NME.

„Dr. No“ verður að finna á væntanlegri plötu Babyshambles.

Tónleikar helgarinnar

 

Miðvikudagur 3. júlí


Hljómsveitirnar Nóra, Boogie Trouble og dj. flugvél og geimskip spila á Faktorý. Efri hæð opnar kl. 21:00, tónleikarnir hefjast kl. 22:00 og það kostar litlar 1000 kr. inn.

 

Birgir Örn Steinarsson eða Biggi í Maus flytur safn laga af væntanlegri breiðskífu sinni á Loft Hostel. Auk þeirra verða leikin eldri lög úr höfundaverki Maus, Krónu og fleira í nýjum útsetningum. Tónleikarnir hefjast klukkan 21:00 og það er frítt inn.

 

 

Fimmtudagur 4. júlí

 

Hin árlega götuhátíð Jafningjafræðslunnar verður haldin á Austurvelli frá 14:00 til 16:00. Á meðal tónlistarmanna sem koma fram eru Elín Ey, 12:00, Haffi Haff og Kjurr.

 

Hljómsveitin Blágresi ásamt Einari Má Guðmundssyni halda tónleika á Café Flóru í Grasagarðinum. Tónleikarnir hefjast kl 20:00. Ragnar Árni og val kyrja munu hita upp.

 

Bandaríska skógláps bandið Mice Parade spilar á Faktory. Um upphitun sjá Nini Wilson, Kría, Bob Justman og Snorri Helgason. Miðaverð eru 1500 kr. og fer miðasalan fram við hurð. Húsið opnar 21.00 og fjörið byrjar einhvern tíma eftir það.

 

Tónleikar á café haiti með The Bangoura Band kl: 21.00 kostar 1.000 kr inn.

 

KRAKKBOT og ENKÍDÚ spila á sumartónleikaröð Bíós Paradísar í anddyri bíósins kl. 22:00 og það er ókeypis aðgangur!

 

Rauðhærði rafgeggjarinn Hermigervill spilar á Boston í kvöld í boði Funkþáttarins. Það er orðið langt um liðið síðan gervillinn spilaði síðast á landinu þannig enginn ætti að láta þetta tækifæri fram hjá sér fara. Tónleikarnir hefjast á slaginu 23:00 og aðgangseyrir er enginn. Fyrir þá sem eiga ekki heimangengt verða tónleikarnir í beinni útsendingu funkþáttarins á X-inu 977.

 

Danska kráin stendur fyrir tónleikahátíð til heiðurs Hróaskelduhátíðinni 4-7 júlí og er FRÍTT inn alla helgina. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 White Signal
19:15 Ferja
20:30 Yellow void
21:45 Kjurr

 

KEX Hostel stendur fyrir hátíðinni KEX Köntrí alla helgina þar sem bandarískri menningu verður fagnað með mat og tónlist frá Tennessee og Kentucky. Í kvöld er dagskráin þessi:
20:00 – Ryan MacGrath (CA)
21:00 – Brother Grass (IS)

 

 

Föstudagur 5. júlí

 

Tónleikar til heiðurs minningu og lífs Björns Kolbeinssonar, hann var einnig þekktur sem Bjössi Skáti og stundum sem El Buerno. Hann spilaði á bassa og gítar í hljómsveitunum Skátar, Petrograd og Boltrope og þótti oft fara framar öðrum í óbeislaðri sviðsframkomu og spilagleði. Aðgangseyrir er 1000 kr. og rennur ágóðinn til Kvennaathvarfsins. Fram koma:
Bloodgroup
Grísalappalísa
Jan Mayen
Sigtryggur Berg Sigmarsson
Skátar & vinir Bjössa úr kimono & Bloodgroup

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

19:00 Lame Dudes
20:15 Brimlarnir
21:30 Distort City
22:45 Stafrænn Hákon

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Hudson Wayne (IS)

21:00 – Blágresi (IS)

 

Laugardagur 6. júlí

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:

20:15 Momentum
21:30 We made god
22:45 Mammút

 

KEX Köntrí heldur áfram á KEX Hostel. Í kvöld er dagskráin þessi:

20:00 – Illgresi (IS)

21:00 – Lambchop (US)

 

 

Sunnudagur 7. júlí


Bandaríska jaðarkántrísveitin Lambchop mun enda Evróputónleikaferð sína með tónleikum í Iðnó. Lay Low mun einnig koma fram á tónleikunum. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 og standa til miðnættis. Miðasala fer fram á www.midi.is og kostar 3990 kr inn.

 

Hróaskelduhátíðin á Dönsku kránni heldur áfram. Í kvöld er dagskráin á þessa leið:
18:00 Hjalti Þorkelsson
19:15 Trausti Laufdal
20:30 Myrra Rós
21:45 Bellstop

Beck gefur út lag og hellingur af efni á leiðinni

Hinn óútreiknanlegi tónlistarmaður Beck Hansen hefur sent frá sér lagið „I Won‘t Be Long“ mánuði eftir að hann gaf út raf-ballöðuna „Defriended“. Þessi tvö lög eiga ekki margt sameiginlegt fyrir utan að hvorugt lagið mun fá pláss á plötu frá Beck þó hann sé að vinna að tveimur breiðskífum þessa dagana. Önnur platan verður órafmögnuð og er fyrr væntanleg en hin á að fylgja eftir Modern Guilt sem kom út árið 2008 og var unnin í samstarfi við Danger Mouse.
„I Wont Be Long“ er draumkennt indí popp lag með þéttri bassalínu og skemmtilegu rafknúðu mynstri sem vinnur á þegar líður á lagið sem myndi sóma sig vel á rúntinum. Smáskífan kemur formlega út 8. júlí og mun 14 mínútna rímix af laginu fylgja með.

Nýtt myndband frá Phoenix

Franska „indie“ bandið Phoenix hefur sent frá sér myndband við lagið „Trying to Be Cool“ sem er að finna á nýjustu plötu þeirra Bankrupt!. „Trying to Be Cool“ er önnur smáskífan sem kemur út af plötunni og fylgir á eftir „stadium“ smellinum „Entertainment“. Sápukúlur, api og skvísur í bikiní eru eru dæmi um það sem bregður fyrir í myndbandinu sem fer um víðan völl í hljóðveri Phoenix.

Nýtt lag með Azealia Banks og Pharrell Williams

Fyrsta stóra plata Azealia Banks – Broke With Expensive Taste hefur verið lengi í bígerð. Samkvæmt Banks mun platan innihalda 16 lög – þar á meðal smellinn 212. Hún hefur einnig skýrt frá því að Pharrell Williams og þrír aðrir gestasöngvarar verði á plötunni og að hún sé 80% tilbúin. Fyrr í dag “lak” útvarpsupptaka af laginu Atm Jam þar sem Williams kemur fram með henni á netið. Hlustið á það hér fyrir neðan.

Straumur 1. júlí 2013

Í Straumi í kvöld heyrum við nýtt efni með Pretty Lights, Blondes, Twin Peaks, Pixies, Lane 8, Run the Jewels og mörgum öðrum. Straumur með Óla Dóra í kvöld á slaginu 23:00 á X-inu 977.

Straumur 1. júlí 2013 by Olidori on Mixcloud

1) We Disappear – Jon Hopkins
2) Elise – Blondes
3) Be Mine – Lane 8
4) Let’s Get Busy – Pretty Lights
5) Press Pause – Pretty Lights
6) Perfect Form (ft. Shy Girls) – Cyril Hahn
7) Human Nature – Gauntlet Hair
8) Bad Apple – Gauntlet Hair
9) Bagboy – Pixies
10) Irene – Twin Peaks
11) Right Action – Franz Ferdinand
12) 1922 – Kristján Hrannar
13) Run The Jewels – Run The Jewels
14) DDFH – Run The Jewels
15) KΞR✡U’S LAMENT (犠牲) – Ellery James Roberts
16) Goodbye Horses – Hayden Thorpe & Jon Hopkins

Ferskt bílskúrsrokk frá Twin Peaks

Úr ómáluðum bílskúr í Chicago borg kemur hljómsveitin Twin Peaks sem inniheldur fjóra spólgraða „dropout“ pönkara á unglingsaldri. Þeir Cadien, Clay, Connor og Jack gáfu sjálfstætt út frumburð sinn Sunken í fyrra en útgáfufyrirtækið Autumn Tone hefur tekið Twin Peaks að sér og gefa plötuna út að nýju þann 9. júlí.
Twin Peaks fæst við draumkennt Lo-fi rokk sem hljómar svolítið eins og blanda af Beach House og Buzzcocks. Nýlega sendi hljómsveitin frá sér lagið „Irene“ og myndbönd við lögin „Fast Eddie“ og „Stand In The Sand“ sem öll verða að finna á væntanlegri plötu. Þó svo drengirnir séu ekki nógu gamlir til að koma fram á skemmtistöðum hefur hljómsveitin verið iðin við kolann jafnt á smáum hverfisbörum sem og stórum tónlistarhátíðum þar sem sagt hefur verið að þeir slái út stórum nöfnum með frammistöðu sinni.
Meðlimir Twin Peaks segja að lögin sín fjalli um sætar stelpur, drykkju, dóp og reykingar. Þeir standa vörð um ungdóminn, forðast kjaftæði og gefa út ferska tónlist beint úr bílskúrnum.